Allt er gott sem endar vel

Í dag hef ég bókstaflega ekkert gert og bara haldið mig heima, innan húss, utan það að ég fór og tók eitt mál út á Bjargi. Svo kom ég inn aftur og var nokkuð ánægður með það að málið sem ég vildi vita var 3,3 metrar. Nú mætti ætla að ég hafi verið alveg himinn lifandi yfir því að gera ekki neitt einn dag. En sannleikurinn er að ég var það ekki. Ég hef áður verið ánægður með að gera ekki hætis hót einn dag, en nú var þessi algeri frídagur ekki tekinn af fúsum vilja og minni eigin ákvörðun. Ástæðan er það sem ég bloggaði um í gær, að ég fór á "hvínandi hausinn" og er illt í úlnlið síðan. Ekkert sem ég er hræddur við þar sem ég get vel hreyft úlnliðinn og hreyft alla fingur. Ég vil bara fara vel með mig til að verða jafn góður aftur sem allra fyrst. Þessum degi hefur fylgt svo að segja mátulegur tómleiki.
 
Núna gæti ég til dæmis alls ekki nelgt nagla með hamri, en það vil ég geta gert sem allra fyrst. Eiginlega gat ég ekki heldur gengið eftir að maður stökk á hægri fótinn á mér þar sem við spörkuðum fótbolta bak við tjaldbúðirnar þegar við vorum að brúa Fjaðrá á síðu sumarið 1956. Ég horfði á fótinn á mér um leið og ég fékk mann á fullri ferð á öklann og mér fannst sem ég sæi endann á fótleggnum fara út af öklanum við höggið. Svo lagði ég mig smá stund, all smeikur, og fór svo í stígvélin um eitt leytið og fór að vinna við brúna.
 
Marga næstu daga var ég svo bólginn að ég varð að troða mér í stígvélið. Svo var það reglulega vont um tíma en svo dofnaði sársaukinn. Stígvélin studdu við öklann. Að lokum var farið fram á það að við hættum þessu sparki bak við tjaldbúðirnar í hádegishléinu þar sem þeir sem eldri vildu leggja sig eftir matinn. Ég var því afar feginn. Ég hef aldrei haft gaman af því að sparka fótbolta, en var hins vegar oft með til að vera ekki öðru vísi. Ég var lengi að ná mér í öklanum enda fór ég illa með mig en ég ætla að verða fljótur að ná mér í úlnliðnum.
 
Það er eins og Valdís hafi tekið svolítinn þátt í þessu með mér án þess þó að við töluðum um það mál. Við ákváðum að horfa á vídeó, tvær myndir sem við keyptum fyrir löngu síðan. Þessar myndir heita: Við vorum þó alla vega heppin með veðrið. Það er um fjölskyldu sem fór í sumarfrí með húsvagninn sinn og allt gekk á afturfótunum utan það að veðrið var gott. Svo var nýlega gerð framhaldsmynd með sömu hjónum, og sömu leikendum, sem fóru í sumarfrí á húsbílnum sínum, nýjum og glæsilegum. Í það skiptið fór líka allt úr skorðum utan það að veðrið var gott. Myndin endaði þó vel eins og sagt er.
 
Nú, við Valdís sátum þarna og horfðum á myndirnar og hlógum lítið. En myndirnar eiga nefnilega að vera spreng hlægilegar. Þær eru það. Samt höfðum við gaman af að horfa á þessar myndir og erum búin að ræða það nú eftir á. Ánægðust erum við þó með það að við erum búin að koma því í verk. Þá fylgja kannski fleiri myndir á eftir, myndir sem við erum búin að geyma í mánuði eða meira.
 
Matthew Arnold sem var uppi frá 1822 til 1888 var breskt ljóðaskáld og prófessor í greininni, maður vel virtur. Hann sagði: "Er það þá svo lítið, að hafa notið sólar, að hafa lifað ljósa vorið, að hafa elskað, hugsað, lagt hönd að verki."
 
 
Nei, það er ekki svo lítið. Nú er komið kvöld, sá tími dagsins sem ég er vanastur að hafa minnst fyrir stafni. Tómleikinn er líka að baki og hugsandi út í orð Matthew Arnold get ég verið hæst ánægður. Þannig var það líka í gær þrátt fyrir visst mótlæti, þá var samantekt af deginum mjög ánægjuleg. Nú ætlum við að horfa á söngprógram í sjónvarpi og hafa ánægjulega stund.
 
Så skall det låta byrjar klukkan átta að sænskum tíma.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0