Að syngja með mömmu og pabba

Klukkan að verða sex í kvöld, laugardag, nálguðumst við Valdís Sólvelli á leið heim frá Stokkhólmi. Bakkarðu ekki bara kerrunni inn sagði Valdís. Ég gerði ráð fyrir því. Svo þegar við vorum komin heim og ég búinn að skreppa inn og meðal annars að kveikja upp í kamínunni fór ég út til að bakka inn kerrunni. Í mörgum áföngum tókst mér að snúa við kerrunni í hálfgerðum snjógöngum milli ruðninganna sem mynduðust við að mokað hvað eftir annað snjó af leiðinni inn í nýju bílageymsluna.
 
Ég var alveg að verða búinn að fá kerruna í beina  stefnu á innkeyrsluna þegar ég fann hvernig bíllinn rann til að aftan á svellkúlu sem ég vissi að var þarna. Um leið heyrðist hljóð frá framendanum sem ég vildi alls ekki heyra. Ég fór út og steinn úr grjótgarðinum sem við förum í gegnum á leiðinni heim lá þétt að öðru framhjólinu og hann hafði gert tíu sentimetra rispu á brettið um leið. Ég tók á steininum og fann þá hvernig plásturinn rann af baugfingri hægri handar þar sem nöglin klofnaði í morgun. Ég ætlaði þá að sækja vetlinga til að hlífa fingrinum. Á leiðinni rann ég á einni svona svellkúlu og slengdist til jarðar með ótrúlegu hraði.
 
Þegar ég sá lappirnar á mér bera yfir ljósið frá bílskúrsdyrunum hugsaði ég til orða læknisins sem setti í mig nýja mjaðmaliðinn fyrir meira en þremur árum. Hann sagði að ef ég dytti illa gæti ég farið úr liði og þá þyrfti ég að koma til hans aftur og þar að auki væri það mjög sárt. Það er skrýtið hvað maður er fljótur að hugsa stundum. Svo skall ég niður á síðuna og ekki veit ég hvernig hægri hendin kom niður en mér hálf illt í úlnliðnum ennþá. Að auki blæddi úr skrámu. Ég valdi að biðja æðruleysisbænina frekar en að verða reiður. Óhöppin voru þegar orðin þrjú sama daginn. Svolítið rann mér nú samt í skap verð ég að segja. Ég vil ekki ljúga.
 
*
 
 Við höfðum sem sagt verið í Stokklhólmi og ég hafði sett allt á annan endan á heimili Rósu og Péturs með því að rífa að mestu leyti niður eitt stykki eldhúsinnréttingu og plokka svo sundur stykki fyrir stykki. En dvölin þar í einn sólarhring var þó ekki bara að rífa.
 
Pabbi Pétur spilaði á gítar og söng og Hannes sótti statífið fyrir gítarinn og söng svo í hljóðnema og dansaði.
 
Mamma og Hannes gáfu sér líka tíma til að setjast í sófann og syngja. Mér var svolítið hugsað til uppvaxtar okkar systkina þar sem tónlist og söngur voru ekki verulega í hávegum höfð. Ekki var það illa meint veit ég en ég komst ekki hjá því í dag að hugsa sem svo að þessi leið í uppeldi hlýtur að hjálpa einstaklingum við að öðlast sjálfstraust og losna við hömlur sem geta síðar í lífinu orðið til fyrirstöðu.
 
Svo hvíldi Hannes sig um stund í stólnum sínum.
 
Hann klæddi sig til riddara.
 
Og hann krýndi hana ömmu sína til drottningar. Hann er mjög góður og nærgætinn gagnvart ömmu sinni.
 
Hún Elísabet Eir Corters er alls ekki lágvaxin en hún verður það þegar hún kemur svo nærri honum Aski syni sínum. Þau komu í dag til að hjálpa til með eldhsinnréttinguna og koma henni niður tvær hæðir og út á götu þar sem henni var raðað á Sólvallakerruna. Allir hjálpuðust að. Ég verð líka að geta hennar Emblu systur Asks. Hjá henni hef ég smakkað eina af þeim allra bestu súkkulaðitertum sem ég hef nokkru sinni bragðað á. Það var þó ekki í þessari Stokkhólmsferð.
 
Þegar Hannes varð þess áskynja að við værum að leggja af stað varð hann sorgmæddur og sneri sér undan. Hann kvaddi þó að lokum og veifaði okkur. Bæði er þetta sárt en sýnir líka að honum er ekki sama um okkur.
 
Svo ókum við suður úr Stokklhólmi í dagsbirtu með kerruna nánast fulla af eldhúsinnréttingu sem á að setja upp í bílageymsluna á Bjargi. Það verður nú glæsilegasta bílageymsla í Krekklingesókn býst ég við. Á miðri leið var skammdegið að taka völdin og þegar við komum heim var orðið dimmt. Valdís var inni að ganga frá eftir ferðina þegar ég var úti og -eins og sagt var í gamla daga- fór á hvínandi hausinn. Ljósu minningarnar eftir þessa ferð gera mikið meira en að bæta upp eina ferð á hausinn, klofna nögl og smá rispu á bílinn.
 
Ef ég væri alltaf jafn fljótur að hugsa og ég er á leiðinni niður úr byltu, þá hlyti bara heimurinn að  líta öðru vísi út.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0