Að fanga daginn

Klukkan hjá ellilífeyrisþegunum á Sólvöllum hringdi sjö í morgun. Það var bara að sætta sig við að borða morgunverðinn á stuttri tíma en venjulega og fara svo af stað út í skammdegismyrkrið. Valdís átti að mæta á sjúkrahúsinu upp úr klukkan átta og fara í sérstaka röntgenmyndatöku. Við vorum þar vel í tíma og settumst inn á biðstofuna, fyrst Valdís og svo ég eftir að ég hafði lagt bílnum. Þar inni sátu nokkrar alvarlegar manneskjur og sögðu lítið. Það leið ekki á löngu þar til Valdís var kölluð inn og ég horfði á eftir henni og fannst eins og hún væri lítil og synd að hún þyrfti að fara ein á vit þess sem hendir þar inni. Samt gekk hún ákveðnum skrefum og bein í baki.
 
Nokkru síðar gengu hjón inn á biðstofuna, svo lík að mér datt hreinlega í hug tvíburar. Það fór fyrir þeim eins og mér að sætin voru lægri en þau reiknuðu með. Fyrst settist konan og henni brá svolítið. Svo settist maðurinn og honum brá einnig en hann hálf hló við og leit á mig. Ég kinkaði kolli til samþykkis þess að þetta væri ekki alveg samkvæmt því sem maður ætti von á.
 
Þau sátu næstum beint á móti mér og ég þurfti ekki að horfa á þau til að sjá að konan var mikið áhyggjufull. Hún virtist horfa í vegginn aðeins til hægri við mig en þó sá ég vel að hún horfi eitthvað langt, langt burtu og sá eitthvað allt annað en vegginn. Svo rétti hún út hendina til mannsins og hann tók hlýlega í hönd hennar. Síðan bað hún hann að sækja vatn að drekka. Þá vissi ég að hún væri að fara í svipaða myndatöku og Valdís. Þegar hún hafði drukkið vatnið rétti hún manninum aftur hönd sína. Augnaráðið virtist bundið einhverju langt í burtu.
 
Það hefur verið misjafnt, en öðru hvoru höfum við mætt fólki á þessum biðstofum sem hefur átt það mjög erfitt. Þá hef ég oft litið á Valdísi og séð að hún hefur borið höfuðið hátt og geigurinn hefir ekki merkst í augum hennar. Hún er dugleg konan mín. Ótrúlega fljótt kom hún til baka úr myndatökunni, við fórum niður á jarðhæð, út af B-húsinu og inn í A-húsið í svo sem 60 metra fjarlægð. Þar vorum við löngu ákveðin í að fá okkur kaffi og brauðsneið.
 
Valdís valdi sína brauðsneið og settist svo. Ég valdi mína brauðsneið, tók kaffi og borgaði. Þegar ég var búinn að borga brosti afgreiðslukonan sérlega vingjarnlega og sagði að það fylgdi ábót. Þegar ég kom að borðinu til Valdísar sagði ég henni að afgreiðslukonan hefði verið svo vingjarnleg þegar hún hefði sagt mér að ábót af kaffi fylgdi. Valdís spurði hvað gömul hún hefði verið og ég svaraði 28 til 34 ára. Góðar voru brauðsneiðarnar og svo var brátt búið úr bollunum.
 
Ég fór að ná í ábót og þá var afgreiðslukonan að raða vatnsflöskum í kæli. Ég tók þá eftir að hún var eldri en ég hafði ætlað í fyrstu. Þegar ég kom til baka að borðinu sagði ég við Valdísi að hún  hefði verið allt of gömul fyrir mig því að hún hefði verið nær fertugu. Þá skellihló Valdís, svo ótrúlega líflega, af mikið meiri gleði en ég hreinlega gat átt von á. Svona er það. Hún kemur mér ennþá á óvart eftir 52 ár undir sama þaki.
 
Síðan eftir heimsókn á heyrnadeildina í A-húsinu og einnig heim til Gihta og Robban fór ég með Valdísi í fótsnyrtingu. Stutt þar frá rekur stelpa verslun sem sérhæfir sig á kristall ljósakrónur. Ég ákvað að heimsækja hana. Þegar ég kom inn í verslunina sat hún að vanda innan við afgreiðsluborðið og fyrst þegar hún sá mig hafði hún ekki hugmynd hver ég var. Ég vissi nokkuð hversu gömul hún væri en spurði samt þegar mér gafst gott færi á. "Ja, du", sagði hún, ég er níutíu og tveggja ára.
 
Það var líklega 1998 sem við Valdís komum fyrst í þessa verslun og kynntumst þessari duglegu konu, henni Vally, og hittum hana býsna oft fram til 2002, en örsjaldan eftir það. Við keyptum ljósakrónu hjá henni og eitthvað fleira af smá dóti. Þegar á samtal okkar leið í dag sagði hún að við hefðum keypt tvær ljósakrónur hjá henni og aðra þeirra hefðum við farið með til Íslands. Já, alveg rétt. Við keyptum ljósakrónu hjá henni fyrir kunningja árið 2002 og fórum með til Íslands þegar við fórum þangað með bílinn með Norrænu. Þetta mundi hún.
 
Hún sagðist ganga tvo til þrjá kílómetra á dag, jafnvel þó að það væri él eða rigningarhraglandi. Ekkert notalegt sagði hún, en lífsspursmál að hætta því ekki. Hún sagðist einnig reka þessa verslun ein og að hún hefði verið að ljúka ársreikningnum í dag, einnig að hún hefði búið í Portúgal og Frakklandi í tuttugu ár, en til allrar hamingju hefði hún valið að koma aftur heim til Svíþjóðar. Þetta hjálpaði að halda heilanum í gangi þó að hann vissulega hafi hægt á ferðinni. Svo er ég búin að fara í mjaðmaaðgerðir en ég fer í aðgerðir til að verða frísk og það hefur mér tekist. Svo er ekkert meira vesen.
 
Mikið var ég feginn að hafa komið við hjá þessari merkilegu konu. Það var mikið meira sem hún hafði að segja en ég kemst ekki yfir það. Svo spurði ég hvort hún hefði séð heimildarmyndina um prestinn, þann sem ég bloggaði um í gær. "Ja, du", það var spengilegur kall og lifandi var hann og gladdi alla.
 
Það varð heil mikið úr þessum degi hjá okkur Valdísi þó að upphaflega erindið væri ekki það sem við manneskjurnar sækjumst eftir. Við erum í sveitinni núna í kyrrðinni og eftir smá stund ætlum við að athuga hvort eitthvað gott efni er í sjónvarpi, eða vídeómynd að skoða. Einmitt núna er Valdís að tala við Valgerði í síma. Unginn úr þessum degi er hlátur Valdísar á sjúkrahúsinu í morgun og stundin með henni Vallý í versluninni hennar. Að öðru leyti hefur dagurinn líka verið góður.
 
Háskólasjúkrahúsið í Örebro, aðalinngangur
Þarna er M-húsið, svo er A- B- E- L- P- X- húsið ef ekki fleiri.


Kommentarer
Björkin.

Knús í hús.

Svar: Sömuleiðis takk.
Gudjon

2013-01-09 @ 11:25:28
Gudjon Bjornsson

Takk sömuleiðis

2013-01-09 @ 11:40:00
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0