Ég vel eitthvað einfalt í kvöld

Ég var úti á Bjargi áðan og lét hugann reika. Ætti ég kanski að blogga í kvöld hugsaði ég? Og hvað þá? Svo runnu mörg atriði upp í huga mér og ég gerði mér grein fyrir að það yrði allt of mikið. Ég ákvað að velja eitthvað einfalt og ekkert um heilsu eða æðri hugleiðngar. Ég var nefnilega býsna seint þarna úti í þetta skipti, eða eftir kvöldmat, og það á ellilífeyrisþegi ekki að þurfa að gera. En ég er að ganga frá límingum sem ég verð að framkvæma í mörgum áföngum og þar sem það er frekar kalt þarna úti er límið lengi að þorna. Þess vegna fannst mér nauðsynlegt að ganga frá einni stórri límingu fyrir nóttina. Ég er hvort sem er ekki nema tvo til fjóra tíma að bardúsa þarna úti flesta daga og stundum ekkert.
 
Það var í gær sem ég var kominn svo langt sem myndin sýnir. Sautján sm einangrun í veggjum og lofti og svo var ég búinn að plasta allt og setja listana sem myndin sýnir. Þar með er tilbúið fyrir rafvirkjann að koma og svo er bara eftir að ganga frá 45 mm einangrun á veggina áður en hægt er að klæða með krossvið. Síðan er að klæða með gipsónetti og þá er tilbúið að sparsla. Ekki svo galið. Þetta er bara orðin fasteign! Eitthvað svoleiðis upplifði ég í gær og þá sótti ég myndavélina. En það er ekkert búið að ákveða hvenær rafvirkinn kemur og þar af leiðandi ekki heldur hvenær farið verður í framhaldið. En ef ég segi alveg eins og er, þá er óskaplega freistandi að bíða ekki lengi. Ég er eins og börnin; stundum á ég erfitt með að bíða.
 
Og séð móti hinum gaflinum þar sem bílinn á að vera. Bílskúrshurðin er galopin til að fá inn birtu fyrir myndavélina. Svo var ég fljótur að loka. Tveggja kw ofn heldur 10 til 12 stiga hita þarna inni í vægu frosti eins og nú er. Plastbúntin sem eru þarna eiga að fara í allt aðra hluti utanhúss þegar vor nálgast. Seinna ætla ég líka að bæta 10 til 20 sm steinull ofan á einangrunina í loftinu, mismunandi eftir hvar á loftinu er. Þannig standa mál á Bjargi.
 
*
 
 
Þar sem er grunnur eins og hjá okkur verður að vera hægt að komast niður í grunninn til að sjá að allt sé í lagi með raka eða hreinlega hvort vatn renni inn í grunninn. Á myndinni sjáum við lúguna þangað niður. Þar niðri er hægt að geyma mat en það er svolítið bauk að fara þangað niður því að það þarf þá að taka upp tvö lok. Það var um jólin þegar við vorum fimm á Sólvöllum að það var þröngt í ísskápnum. Þá þurfti að koma matvælum í kæli en úti var of kalt. Þá kom upp alveg skínandi hugmynd. Að opna bara efra lokið og setja matinn ofan á neðra lokið. Það er 20 sm einangrun í gólfinu. Þarna á milli loka á að vera einangrun, en ef hún er ekki höfð þar er fimm stiga hiti. Alver frábært ekki satt. Á sumrin verður væntanlega aðeins heitara þarna. Kannski gott að fara sjálfur þangað niður þegar hitar verða mestir og þá alla leið niður á mölina þarna undir.
 
Svo þegar búið er að setja pönnuna þarna niður er bara að setja efra lokið á og ganga svo á matnum. Er ekki tilveran dásamleg? Það kom hér kona í vikunni og meðan hún var hér fór ég undir lokið til að ná í pott með mat í. Henni fannst þetta svo frábært að hún sagði að ég ætti að þegja yfir þessu þangað til ég væri kominn með einkaleyfi fyrir hugmyndinni. "Svona vil ég að hann Kjell geri heima" sagði hún ennfremur. En ég get ekki þagað og fæ líklega ekki einkaleyfi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0