Þráin til vorsins byrjar óvenju snemma á þessum vetri

Það mun hafa verið stuttu fyrir jól 1995 að við Valdís fórum frá Svärdsjö í Dölunum niður til Falun. Þá voru að ganga í garð fyrstu jólin okkar hér í Svíþjóð. Það var töluvert frost og við munum hafa lagt snemma af stað. Barrskógarnir voru snævi þaktir á þann hátt sem gerir þá jólalega eins og mér finnst endilega að ég hafi séð á jólakortum þegar ég var barn. Laufskógarnir voru hins vegar alþaktir hrími og þegar við nálguðumst Falun höfðum við laufskóg til bekkja handa. Þá sáum við nokkuð sem við höfðum aldrei séð áður. Við ferðuðumst gegnum veröld sem við höfðum aldrei áður augum litið. Morgunsólin var farin að skína mátulega mikið á þessa dýrð og lýsti upp tuttugu metra hátt kristallríki og okkur fannst við vera stödd i einhverju sem vart væri af þessum heimi. Þegar ég nefndi þetta við Valdísi áðan mundi hún samstundis eftir undrinu sem við upplifðum í þessari árdegisferð.
 
Það nálgaðist að vera þannig dagur hjá okkur hér í dag í 16 stiga frosti. Kannski er minningin frá Falun fegruð af tímanum sem liðinn er, en okkur finnst sem við höfum aldrei síðan séð neitt sem jafnast á við þá minningu. En málið er líka það að hér á myndinni sjáum við stök tré næst okkur en þar uppi ókum við gegnum all víðáttumikinn og þéttan birkiskóg. Bjarkirnar með öllum sínum hárfínu, hangandi greinum eru sem gerðar til að annast svona sýningu. Hér á myndinni sjáum við tvær bjarkir sem eru á lóðamörkunum hjá okkur að vestanverðu og þriðja tréð, það sem er fjærst, er það sem við köllum stóru Sólvallaeikina. Bjarkirnar annast sýninguna mikið betur en eikin.
 
Svo kom kvöld og þá hreinlega skeði eitthvað. Ný veröld blasti við og þá leit það svona út þegar gengið var frá veginum heim að Bjargi. Bara því miður, þá er ekki hægt að taka mynd af þessu og kannski verra en ekki neitt að birta svona mynd. En þegar ég gekk þarna fyrr í kvöld var himinninn framundan full hlaðinn þéttri kristallþoku og hingað og þangað í þokunni kviknuðu hvít ljós sem lifðu eitt eða örfá augnablik. Það var þegar snjókristallar blöstu rétt við einhverju nálægu ljósi. Hálfur máninn skein gegnum hálfgerða frostþoku niður á dýrðina frá hægri.
 
Það eru margir þræðirnir sem prýða tuttugu metra hátt birkitré og þetta er bara af einum meter.
 
Og svona lítur grjótgarðurinn vestan við húsið út á þessu janúarkvöldi. Það er eins og önnur lögmál ríki í veröld kvöldsins en gerðu í sólskininu í dag. Ég er ekki hissa þó að fólk fyrri tíma í dreifðum sveitum Íslands þar sem aðeins fá og dauf ljós var að finna, jafnvel engin, sæi vætti, álfadans og ævintýri í mánaskini við þessar aðstæður.
 
John O´Donohue ljóðaskáld, rithöfundur, prestur og heimspekingur sagði: "Æ ofan í æ missum við af dásemdum í lífinu af eintómu eirðarleysi. Við erum oft með hugann annars staðar, sjaldnast þar sem við stöndum og á líðandi stund."
 
Við höfum ekki gefið okkur nægjanlegan tíma til að fylgjast með þessu öllu í dag. Við höfum ryksugað, skúrað, baðað ullarfeldina okkar upp úr snjónum og svo viðrað þá, hengt upp þvott og svo hef ég líka smíðað svolítið. Og þó. Milli níu og tíu í kvöld fórum við út í dyrnar bakdyramegin og horfðum á hreinu, litlu ljósin kvikna og slokkna í stórri björk. Það var þegar hrímkristallarnir sneru rétt við einhverri birtu sem þá náði að skína á þá og kveikja svo ótrúlega hrein ljós sem voru fíngerðari en skraut á nokkru jólatré. Það hefur verið afar fallegur dagur í dag en ég verð samt að segja að í dag vel ég þá fegurð sem hinn fegursti vordagur býður upp á. Þráin til vorsins byrjar óvenju snemma hjá mér á þessum vetri.
 
Góðar stundir.


Kommentarer
Rósa

Já, ég er líka farin að bíða eftir vorinu. Það byrjaði í nóvember að ég held.

Kveðja,

R

Svar: Líklega byrjaði bara ég að finna fyrir þessu þegar fyrsti snjór kom í lok nóvember.
Gudjon

2013-01-19 @ 22:58:56
Björkin.

Flottar vetrarmyndir mágur minn.Sammála Rósu nema ég búin að bíða eftir vorinu síðan í okt...Góða nótt í bæinn.

2013-01-19 @ 23:06:43
Þórlaug

Vorði nálgast óðum, dagurinn lengist og brum farin að sjást á trjánum í hlýindunum í Kópavoginum.
Þið hafið verið í ævintýraveröld í skóginum ykkar í dag og við fáum að sjá brot af henni á myndunum. Ekki skemma stjörnurnar í snjónum sem mér finnast alltaf svo fallegar.

Kærar kveðjur til ykkar beggja,
Þórlaug

2013-01-19 @ 23:44:18


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0