Og að sækjast eftir völdum

 
Fray Luis de Leon. Þetta nafn fann ég á Google. Hann var uppi frá því um það bil 1527 til 1591 og það er ekki auðvelt fyrir mig að segja í stuttu máli hvað hann aðhylltist og skrifaði um. En kannski segi ég ekki mikla vitleysu ef ég segi að hann hafi aðhyllst þá lífsstefnu að vera sem mest laus við hið jarðneska, að ná sambandi við Guð, sækjast eftir þekkingu og friði. Hann skrifaði um þessa stefnu með ívafi af siðfræði og fleiru þar að lútandi.
 
Ég nefnilega las rétt fyrir áramótin í bókinni Kyrrð dagsins vísdómsorð sem þessi maður skilur eftir sig og eru á þessa leið: "Og því er það að meðan aðrir aumir menn eltast hvíldarlaust við metorð og skammvin völd, sit ég í forsælunni og syng." Það var vegna þessara orða sem ég leitaði uppi nafn hans á Google.
 
Mér féll afar vel við þessi vísdómsorð en hins vegar hló ég með sjálfum mér þegar ég hugsaði mig sitjandi í skugga af stóru tré hér í Sólvallaskóginum og syngja. Ég tel mig alveg lausan við metorðagirnd en hins vegar reyni ég að gera vel það sem gera þarf vel. Og að sækjast eftir völdum. Já, menn eru kannski hættir því á mínum aldri að sækjast eftir völdum, en alla vega; í dag finnst mér það svo algerlega fáránlegt að eyða lífinu á þann hátt. Hins vegar verða sennilega einhverjir að taka að sér völd, alla vega eins og mannkynið velur að lifa lífinu nú til dags. Ég held bara að ég eigi nokkuð sameiginlegt með Fray Luis de Leon og mér fannst gott að hugleiða um stund þessi orð hans og það væri mörgum öðrum hollt að gera. Svo ekki meira um það sem mig skortir hæfni til að fjalla um.
 
*
 
Á morgun förum við hálföldungarnir til Stokkhólms til að sækja eldhúsinnréttingu sem við ætlum að nýta í geymslur á Bjargi. Okkur langar að koma reglu á vissa hluti hjá okkur og mig langar að geta farið út í þetta nýja hús þegar þannig stendur á, gert við hlut eða útbúið eitthvað, tekið fram verkfæri í þeim tilgangi sem ég get fundið af því að ég veit hvar þau eru geymd í góðri geymslu. Já, þá munu nokkrir góðir eldhússkápar koma að góðu gagni.
 
Í dag lauk ég við að einangra alla útveggi á Bjargi með 17 sm steinull. Svo setti ég rafmagnsofn í gang og fór inn til Valdísar í kaffi. Eftir um klukkutíma fór ég þangað út aftur og þá fann ég að þetta húsnæði var farið að hlýna. Mikið var það notalegt. Þó er eftir að bæta steinull innan á þá einangrun sem komin er og þá verður það auðvitað ennþá betra. Bjarg er að verða mikið gott hús. Ekki veit ég þó hversu mikil hraði verður á framkvæmdunum á næstunni. Ég hef engan metnað í því sambandi og þar á ég kannski eitthvað sameiginlegt með Fray Luis de Leon, en framkvæmdin er skemmtileg og gott væri að fá húsið tilbúið fyrir vorið.
 
Svo er allur þessi skemmtilegi snjór farinn sem var til skjóls fyrir jörð og gróður. Hiti er yfir frostmarki og spáin veit bara á gott veður. Það eru góðir tímar framundan trúi ég og það styttist í að ég fari að gera mér ferðir út í skóginn til að bera á sérstaka vini mína þar.
 
 
Svo má ég til með að birta mynd af honum Fray Luis de Leon
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0