Góðir eiginleikar

Það er skrýtið með Valdísi að stundum virðist hún bara finna á sér að eitthvað sé eins og það er. Mér getur fundist það svo ótrúlega fráleitt og þverneita að svo geti verið sem hún segir. Eins og eitt sinn fyrir löngu þegar frárennslið allt í einu stoppaði. Ég safnaði vatni og hellti svo einhverjum ósköpum í einu í vaska og klósett, alveg þangað til klósettið var að verða barmafullt. Svo beið ég og beið eftir miklu soghljóði þegar fyrirstaðan brysti en allt fór afskaplega hægt fram. Eigum við ekki að prufa drullusokkinn sagði Valdís? Nei, svaraði ég og útskýrði af mikilli rökfestu hvers vegna það væri tilgangslaust.
 
Ég sá út undan mér hvar Valdís leitaði að drullusokknum en fann ekki. Ég vissi af tilviljun hvar hann var og þegar Valdís hætti að leita og tók rökfærslu mína gilda, þá tók ég fram drullusokkinn og sagði hérna er hann, þú mátt svo sannarlega reyna. Svo byrjaði hún með drullusokkinn í eldhúsvaskinum en ég fór fram á bað til að gá hvort það hefði lækkað í klósettinu um einhvern millimeter. Einhver sog og lofthljóð heyrðust frá eldhúsinu þar sem Valdís hafði nú hafið sínar björgunaraðgerðir.
 
En hvur skollinn sjálfur! Allt í einu heyrðist hljóðið sem ég var búinn að gleyma að ég hafði viljað heyra. Vatnið beinlínis datt með soghljóði og næstum ótrúlegum fyrirgangi niður úr klósettinu og mér var óskaplega létt. Viltu koma og sjá kallaði ég til Valdísar og hún kom fram til mín. Hefur eitthvað gengið? sagði hún með hógværð. Og ég reyndi að svara með hógværð að það væri greinilega allt komið í lag. Loksins! Já, sagði hún með sömu hógværðinni, mér bara datt sí svona í hug að það hefði verið lofttappi einhvers staðar sem þurfti að losa um og það hefur nú ábyggilega verið svoleiðis.
 
Ég sleppti frekari röksemdafærslu og reyndi að láta í ljósi feginleika yfir að henni hefði tekist að leysa þetta. Mér þykir bara vænt um ef ég get hjálpað til svaraði hún og svo var frárennslið einfaldlega komið í lag. Ekkert meira með það. Ég dáðíst að æðruleysinu í röddinni og skammaðist mín fyrir sjálfsánægju mína. Eitt svona atvik átti sér stað hér á bæ í dag.
 
*
 
Það var sjónvarpsþáttur nú í kvöld þar sem útbýtt var verðlaunum fyrir besta þetta og hitt í sænskri kvikmyndagerð á síðasta ári. Þar var saman kominn mikill fjöldi fólks sem lifir og hrærist í sænska kvikmyndaheiminum og þátturinn gekk mikið út á það að þetta fólk dáðist hvert að öðru hvað hæfileika, fegurð og ágæti hrærði. Eitthvað á þá leið. Svo var komið að honum Hasse Alfredsson. Hann fékk svonefnd heiðursverðlaun fyrir að ég held gott starf að kvikmyndagerð gegnum árin.
 
Hasse Alfredsson er minn maður. Hann hefur gert afar góða hluti og er nú háaldraður. Kannski var hann svolítið elliær og hann var leiddur fram á sviðið. Svo talaði hann svo ekta, sagði frá og söng að lokum eitthvað sem hann hafði lært hjá Lúí Amstrong. Mér fannast kallinn svo fínn innan um allt glittrið. Þegar hann var búinn að taka við verðlaununum sínum fór ég inn að tölvu og borgaði reikningana.
 
*
 
Ég veit ekki alveg hvernig það er með okkar fjárhag nú orðið. Reikningarnir voru mun lægri en ég hafði reiknað með og þeir voru það líka í síðasta mánuði. Ég held bara að öll ár áður hafi þeir verið hærri en ég hafði reiknað með. Annars er það skrýtið með reikningana, ég held að það sé hægt að hafa dulræn áhrif á þá -til lækkunar. En ég held bara að ég tali ekki meira um það. Geri ég það verð ég talinn ögn galinn. Mig grunar þó að ég hafi bloggað um það fyrir all nokkrum árum. Ég held að það nægi að gera það einu sinni.
 
*
 
Ég er búinn að aðhafast töluvert í dag en þó minnst af því sem til stóð. Nú er ég harla glaður yfir reikningunum og ég er einnig búinn að drekka engiferdrykk kvöldsins. Engifer er hreinlega dálítill galdradrykkur. Ég held þó að það hafi ekki nein áhrif á upphæð mánaðarreikningana. Það var talað um öldrun í sjónvarpi hér fyrir einhverjum mánuðum. Þar var talað um að engifer, hvítlaukur og D-vítamín væri mjög gott fyrir okkur sem erum kominn í eftirmiðdag lífsins. Svo skildist mér að maður ætti ekki að vera með svo miklar kúnstir í matarræði umfram það. Ég trúi þessu. Það er dálítið ólíkt hvað við Valdís leggjum áhreslu á í þessu sambandi, en við eigum það þó sameiginlegt að við tökum D-vítamínið alltaf með morgunverðinum.
 
Ég hélt framhjá harfagrautnum í morgun. Það ætla ég ekki að gera í fyrramálið. Þá ætla ég að halda mig við gamla góða hafragrautinn minn og hann skal verða með rúsínum og smá, smá rjómalögg út á. Ég held að það sé allt of mikill sykur í sjerríosinu.
 
Það er mál að linni og eigið góðar stundir.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0