Mér dettur bara hreint ekkert í hug

Ja, nú er það slæmt, mér dettur hreint ekkert í hug en samt er ég búinn að opna bloggið og byrjaður að skrifa. Ég hef verið andlaus lengst af í dag þó að við höfum horft á sjónvarpsmessuna og ég var hálf stressaður langt fram eftir degi. Við Valdís tókum til úti í nýbyggingunni þar sem smiðurinn ætlaði að koma á morgun og við ætluðum að setja klæðningu í loftið. Svo var ég úti að vesenast við að gera vetrearklárt og sóttist illa. Ég sótti borð út í skóg í næstum hné djúpum snjó og bekk einnig og reyndi að ganga sæmilega frá hvoru tveggja hér heima við. Okkur vantar geymslu fyrir ýmislegt sem hreinlega verður fyrir skemmdum ef ekki verður bætt þar úr. Þegar ég var að brasa borðinu heim þurfti ég að gæta mín að verða ekki reiður yfir að vera ekki búinn að þessu í tíð.

Síðan komst ég að niðurstöðu. Hvernig á ég að gera ráð fyrir hlutum sem ég hef aldri upplifað áður? Það er auðvitað ómögulegt. Í fyrra var veturinn harður og kom tímanlega. Núna kom veturinn á af fullum þunga fimm vikum fyrr en í fyrra, fyrr en við höfum upplifað áður í þessu landi. Meðan ég var að brasa þetta óskaði ég þess að smiðurinn kæmi ekkert á morgun þar sem ég væri alls ekki tilbúinn að taka á móti honum. Ég vil að hlutirnir séu svo vel gerðir og ef ég er ekki tilbúinn verður alltaf eitthvað sem verður gert verr en ég vil. Síðan ætlaði ég að fara að bera dót úr nýbyggingunni út í allt of litla geymslu, en það var útilokað fyrir tvo menn að fara að vinna þarna inni með óþarfa verkfæri og efni sem bara yrði fyrir. Til að geta borið þetta út í geymsluna varð ég að moka slóðina þangað í þriðja sinn í dag. Það snjóaði viðstöðulaust og snjókoman bara jókst og svo blés óvenju mikið. Ég fann að ég var ekki í besta standi.

Ég lauk þessum flutningum og kom inn í nýbygginguna á ný og ætlaði að fara að laga plastdúk sem rafvirkinn hafði skorið dálítið óþyrmilega fyrir rafmagnssörum sem hann þurfti að koma út gegnum veggi fyrir útiljósum. Ég snerist í kringum sjálfan mig og var ekki sjálfum mér nógur en þó á fullri ferð þvert yfir gólfið. Þá hringdi síminn. Ég leit á símann og sá að það var smiðurinn. Hvað vildi hann nú? Guðjón, svaraði ég símann. Sæll, Anders hér sagði hann, hvernig er það? Svo kom hann að efninu og ég fann að honum fannst það ögn erfitt. Ég bara get ekki komið á morgun sagði hann. Áður en ég svaraði þessu leit ég út því að mér fannst snögglega birta svo órtúlega mikið inni. Nei, sólin hafði ekki brotist gegnum snjókomuna, það var þétt él.

Ég fann hvernig ég varð beinni í baki og liðkaðist um málbeinið. Anders sagði að þeir væru nokkrir sem ætluðu að reyna að setja þak á hús á morgun og næstu daga og hann gæti hreint alls ekki komið fyrr en á fimmtudag. Finnst þér það í lagi spurði hann. Áður en ég svaraði hugsaði ég til þess ef þakið væri ekki komið á húsið hjá okkur og ég stæði þá þarna inn á gólfinu með snjóinn í hné. Það væri skelfilegt. Nú stóð ég þarna í 20 stiga hita og allt í einu leið mér hversu vel sem helst. Ég sagði Anders að það væri allt í lagi, ég ætlaði þá að ljúka við vatnsbrettin á gluggana í staðinn og fleira sem ég vildi hafa klárt áður en hann kæmi. Honum fannst greinilega sem erfitt samtal hefði farið vel. Svo vorum við báðir ánægðir. Samt vildi ég ekki vera þeir sem ætluðu að moka og sópa 30 sm snjó af vinnusvæði á morgun til að setja þak á hús. Það var mér skelfileg hugsun.

Eftir samtalið fann ég hvernig hreyfingar mínar urðu þjálli og allt sem ég gerði fór mér svo mikið betur úr hendi. Ég tók efnið í vatnsbrettin á gluggana, klippti, setti brot á endana, mátaði og allt passaði. Svo næsta bretti og sama gert með það, mátað og það passaði einnig. Hvað hafði skeð? Og nú var ég byrjaður ná þriðja brettinu. Ja hérna. Mér þótti bara vænt um þennan Anders. Ég fann vel hversu mikils virði það er fyrir mig að hér sé allt vel unnið. Vissa hluti vil ég gera sjálfur og ef ég er ekki tilbúinn verður ýmislegt á annan veg en ég vil.

Það er spáð 8 til 16 stiga frosti næstu tíu dagana með smáum undantekningum en það á ekki að snjóa alveg á næstunni. En það er hlýtt á Sólvöllum og í kvöld var annar dagur í ótrúlega góðri kjötsúpu sem Valdís eldaði í gær með miklu, miklu af hollu grænmeti. Ég bara skil ekki hvað maginn í mér er stór þegar hún býður upp á þessa súpu sem ég veit að hún er höfundur að. Mér alveg blöskrar þegar ég set á þriðja djúpa diskinn og þegar ég þori ekki annað en hætta gæti ég samt borðað meira. Og svo; dagurinn endaði svo vel að ég er viss um að fundur okkar Óla Lokbrá verður góður í kvöld. Hægt og rólega verð ég fullorðnari maður en þó ekki svo mikið eldri -finnst mér.

Ps. Það verkar sem mér hafi dottið heil mikið í hug þegar ég lét verða af því að byrja að skrifa.


Kommentarer
Valgerður

ég leit á hitamælinn í sundlauginni í morgun og gapti þegar ég sá að hann sýndi 5 stiga hita og það rétt fyrir jól. Við eigum því ekki að venjast að hafa svona hlýindi á þessum tíma árs.

VG

2010-11-30 @ 10:07:36
Guðjón Björnsson

Það hefur þá verið 20 stiga munur á mælunum hjá okkur í morgun. Hún Ása veðurfræðingur staðfesti einu sinni enn í morgun að hiti hér er langt undir meðallagi.



2010-11-30 @ 11:16:08
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0