Afmælisdagur

Við fórum til Örebro í dag og sóttum jóladótið hennar Valdísar. Ég held að það hafi verið það verðmætasta fyrir hana á þessum degi, afmælisdeginum hennar. Ég sé hana í anda næstu dagana við að raða upp jólasveinunum sínum á kápuna yfir kamínunni, spá í hvar óróarnir eigi að vera, stilla upp ljósaenglunum, strauja smá dúka og eitthvað fleira sem ég ekki man í augnablikinu. Það er dálítill helgidómur fyrir hana að sýsla við þetta.

Ég fer í vinnu á morgun og svo sjaldan sem það skeður verður það dagvinna. Ég vil heldur ekki vinna kvöld eða nætur fyrr en það fer að birta af degi aftur. Maður á ekki að skilja konuna sína eina eftir heima þegar dimmi tíminn er mun lengri en dagtíminn. En alla vega, þegar ég kem heim seinni partinn á morgun hengi ég upp gömlu jólaseríuna, þessa með perum af venjulegri stærð, undir þakskeggið á forstofunni. Hún mun sóma sér vel þar. Gömlu jólaseríuna sagði ég. Já, hún er að verða 30 ára gömul og hún lýsti upp vesturhliðina á Sólvallagötu 3 í Hríseyu í mörg ár. Hún þekkir því marga Hríseyingana sem röltu Sólvallagötuna um jólaleytið serían sú og enn eru í henni litaðar perur. Það er hiss vegar orðið erfileikum háð að fá lituðu perurnar í verslunum hér.

Það eru fleira í jóladótinu hennar Valdísar komið til ára sinna. Jólagardínur, sem kannski er varla hægt að kalla jóladót, og eru frá 1973, verða mátaðar fyrir borðkróksgluggann og vonir standa til að það verði hægt að aðlaga þær glugganum á einhvern hátt.

Fólk hefur talað um það í dag á netinu að vonandi hafi ég stjanað við Valdísi. Hvað á ég nú að segja um það? Sem minnst. En ég veit að ef ég á að gera eitthvað sem hún gleðst verulega yfir, þá væri það að nýbyggingin komist svo langt fyrir jól að það verði komnir fleiri góðir gluggar fyrir stjörnur. Annars verðum við í Stokkhólmi hjá Rósu og fjölskyldu um jólin en Valdísi mundi þykja það helgispjöll ef hún mundi ekki gera jólalegt hér heima áður en við förum þangað.

Og svo aðeins um veðrið á 68. afmælisdegi Valdísar fiskimannsdóttur frá Hrísey sem á efri árum brá sér út í heim. Stinningskaldi og skafrenningur, sem ég nefndi líka í bloggi í gær, hafa verið viðloðandi í dag. Það er vægt frost en á þó að fara vaxandi. Það logar hæglátlega í kamínunni og afmælisbarnið les DAM sem er blað um góðar og slæmar fréttir af frægu fólki, ekki síst kóngafólki. Í blaðinu eru margar glæsilegar myndir af Victoríu krónprinsessu og honum Daníel hennar. Heimsins hamingjusama prinsessa segir undir einni myndinni en það er spurning hvort pabbin er eins hamingjusamur þessa dagana eftir stórfyrirsagnir síðustu daga, hvort svo sem þær eru sannar eða lognar. En það hróflar ekki við sálarró afmælisbarnsins á þessu kvöldi sem er búin að fá yfir fimmtíu afmæliskveðjur og mörg símtöl. Og fyrir mig er þessi dagur að háttatíma kominn þar sem ég ætla að vera unglegur og léttur á fæti í vinnunni á morgun.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0