Í morgun læddist ég út

Í morgun um áttaleytið læddist ég út í nýbygginguna til að mála utanhússgerefti á bæði glugga og dyr. Það var hljótt þarna úti og gott að koma inn í ylinn þar sem sýndi virkilega að húsið var orðið að húsi. Svo byrjaði ég að mála og með eitt gereftið í höndunum hugsaði ég hversu mikið fljótari ég hefði verið með þennan þátt byggingarinnar ef ég hefði farið hefðbundnari leið. Þá hefði ég sett gluggana slétt við útsíðuna á panelnum og þá hefði bara verið annað en negla slétt borð á gluggann utanverðan annnars vegar og útsíðuna á panelnum hins vegar. Og svo bara klappað og klárt.

Eigum við ekki að setja gluggana slétt við útsíðuna á panelnum spurði Anders einhvern tíma. Ég bað hann að koma og sjá glugga sem ég hafði sett í sjálfur nokkrum vikum áður og hafði gluggann 1,5 sm innan við panelinn. Þá var Kristinn dóttursonur með og hjálpaði. Svo sýndi ég honum glugga sem ég gekk frá 2007 og spurði hann hvort þetta væri ekki viðurkennt af honum. Eftir svolitla þögn sagði hann að kanturinn við gluggann yrði auðvitað mikið sterkari svona. Svo settum við alla gluggana í á þennan hátt.


Það var farið að halla að hausti og komið fram yfir hádegi á föstudegi þegar Anders lagði af stað heim. Á leið út í bílinn sagði hann að það væri nú gott fyrir mig að vera tilbúin með gereftin i tíma, kaupa þau og grunnmála. Ég fór með það sama í verslun þegar hann var farinn og með kerruna hringlandi aftan í bílnum. Ég keypti efni í gereftin, panel og nokkrar þvingur. Þegar ég kom heim byrjað ég að smíða gereftin. Saga lista, líma, bíða eftir að límið þornaði, líma meira, saga þau í breidd, hefla snið á brúnirnar, líma meira og svo framvegis. Svo byrjaði ég að grunnmála. Meðan ég vann þetta með óvenju miklu hraði grunnmálaði Valdís 150 metra af panelnum sem ég keypti um leið og efnið í gereftin. Það var svolítill andvari þessa helgi og hefilspænirnir sem komu þegar ég heflaði brúnirnar safnaðist saman á nokkrum stöðum í mjúkum hnoðrum.

Þegar Anders kom á mánudeginum sá hann að gereftin voru tilbúin. Svo leit hann á hnoðrana og spurði hvort ég hefði heflað brúnirnar. Já, auðvitað hafði ég gert það. Svo byrjaði hann að vinna.

Á myndinni sjáum við húsið að framanverðu þegar ég var búinn að fella gereftin á gluggana og tylla þeim lauslega upp utan stykkin undir glugga og hurð. Þau ætla ég að fella á seinna. Í gær tók ég svo öll gereftin niður aftur til að grunna alla sagaða enda og síðan er ég að mála eina umferð áður en ég festi þau endanlega. Alger bilun -eða ekki?


Þessar hugleiðingar runnu gegnum huga minn þarna í morgun þegar ég var að grunnmála þessa enda. Þá sótti ég myndavlina. Endinn sem er nær okkur er eitthvað loðinn. Skyldu þetta vera vinnubrögðin mín? Nei, sandpappírinn lá á borðinu og svona enda snyrti ég auðvitað áður en ég mála. En allt þetta sem rann gegnum huga minn þegar ég horfði á þessa enda fékk mig til að hugsa sem svo að slétt borð hefði verið afar mikið einfaldara og fljótlegra. En það hefði ekki verið nokkurn skapaðan hlut gaman. Það hefði bara verið köllun á hraða.


Svo fór ég inn í svefnherbergið sem byggt var nýlega, opnaði annann gluggann af tveimur sem eru hlið við hlið, teygði mig út og tók þessa mynd. Það hefði verið einfaldast fyrir mig að taka myndina utan frá en ég valdi að taka hana úr ylnum inni í góðu húsi. Árið 2007 setti ég þessi gerefti á og það er eins og þau séu gróin við gluggann. Þegar menn negla bara slétta fjöl geiflast hún á sólríkum sumrum og það koma rifur sem verða vetvangur fyrir vatn og mosa. Nútímaaðferðir leyfa ekki svona vinnubrögð eins og ég stunda vegna þess að það er ekki arðbært. En sem hálfvinnandi ellilífeyrisþegi finnst mér sem ég geti vel látið þetta eftir mér ásamt mörgum öðrum verkum sem ég get unnið af alúð. Ég hef bloggað um svona áður og þá notaði ég orðið dyggð. Það sem ég er að tala um núna er líka dyggð.

Ég vil svo gjarnan, ef til dæmis ættingjar eða vinir koma í heimsókn á Sólvelli, að við getum setst út í kvöldkyrrðina þegar sólin er að taka sig niður fyrir Kílsfjöllin og fengið okkur kaffisopa, eða saft, og kannski litla köku. Þá vil ég geta hvarflað auga til hússins og litið á gerefti, glugga eða panelfjöl
án þess að minnast þess að þarna bakvið leynist djúpt, ljótt hamarfar vegna þess að ég varð að dúndra hamrinum hraustlega til að fá eitthvað til að falla eins og það átti að gera. Með alúðinni þarf ekki að dúndra hamrinum en þá kostar það tímann sem nútðiðin er svo fátæk af. Ég hef nefnt Anders smið og ég hef ekki gert það í slæmri meiningu. En Anders er fórnarlamb þess tíma sem ekki gefur möguleika á að vinna eins og ég geri. Ef hann gerði það fengi hann enga vinnu.

Meðan ég var við þessi verk var Valdís inn í Örebro að kaupa jólagjafir til þeirra sem okkur þykir vænt um. Að hún vildi gera þetta einsömul gaf mér tíma til að sýna húsinu okkar alúð einn dag í viðbót. Svo þegar ég var búinn að sækja hana fengum við okkur kaffisopa og svo sýndi hún mér hvað hún hafði keypt. Þegar ég skoðaði það hugsaði ég sem svo að ef ég hefði verið með henni hefði henni sjálfsagt ekki tekist svona vel til. Við vorum nú bæði í hlutverkum í dag sem best hentuðu hvoru fyrir sig. Þetta er búinn að vera góður dagur og ennþá betri varð hann þegar Valdís kallaði á mig í mat og hún bar fram það sem við köllum kjötkökur Valdísar.

Ps. Ég er ekki búinn að klæða upp í risið yfir veröndinni við innganginn. Við erum ekki alveg búin að hanna hvernig það á að vera og það hefur heldur ekki verið tími fyrir það ennþá.


Kommentarer
Rósa

Þetta lítur alveg rosaleg vel út pabbi minn. Gereftin, húsið og alltsaman! Maður tekur ekki einu sinni eftir að það vantar eitthvað fyrir ofan nýju (fínu!) hurðina.



Kveðja,



R

2010-11-22 @ 22:59:04
Þórlaug

Húsið er að verða eins og jólahús í snjónum!!



Bestu kveðjur,



Þórlaug

2010-11-22 @ 23:31:34
Guðjón Björnsson

Já, við erum ánægð með þetta og fólk sem gengur hjá segir að okkur hafi tekist mjög vel til. Ég skal senda góða mynd þegar logndrífa hefur sallað niður einum 20 sm af snjó. Þá munum við örugglega taka myndir. Svoleiðis mynd gæti orðið góð á jólakort.



Kveðja,



Guðjón

2010-11-23 @ 20:56:26
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0