50 ár

Ég var að tala um það í bloggi í gær að ég mundi ljóstra einhverju upp í dag. Raunverulega var ég bara að gefa í skin að við ættum leyndarmál. En sannleikurinn er bara sá að við eigum ósköp lítið af leyndarmálum. Það er nefnilega lang einfaldast fyrir farsælt líf.

En nú skal ég koma mér að efninu. Þann 19.nóvember 1960 vorum við Valdís stödd í herberginu sem ég leigði af henni Guðrúnu frænku minni frá Fagurhólsmýri. Þetta var í Skaftahlíð 16 og herbergisglugginn vissi móti suðri og sneri út að Miklubraut rétt austan við Lönguhlíðina. Ég var 18 ára og Valdís átti fimm daga í að verða 18 ára líka. Í litlum pakka höfðum við trúlofunarhringa og vorum að hugsa um að setja þá upp á afmælisdaginn hennar Valdísar. Nú var það svo að við vorum óþolinmóð og áttum erfitt með að bíða þannig að við ákváðum að setja þá bara upp þennan dag, þann 19. nóvember. Og svo gerðum við.

Í dag, þann 19. nóvember, nákvæmlega 50 árum eftir trúlofunina, á sér stað annar atburður. Hún Rósa dóttir okkar sem varði doktorsritgerð sína þann 4. júní í vor er nú á þessu kvöldi stödd í Borgarhúsi Stokkhólms (Stockholms stadshus) og tekur við ákveðna athöfn á móti doktorsskýrteini sínu. Hún er klædd íslenskum upphlut sem góður fulltrúi Íslands.


Ég hélt að ég yrði búinn að fá mynd af Rósu á upphlutnum við þessa athöfn en svo varð ekki. En í staðinn birti ég mynd af Borgarhúsi Stokkhólms sem stendur á Kungsholmen, einni af mörgum eyjum Stokkhólms, og svo sem einn kílometer að baki borgarhúsinu búa Rósa, Pétur og Hannes Guðjón


Og hér er önnur mynd af borgarhúsinu. Í þessu húsi eru Nóbelsverðlaunin afhent og margar aðrar hátíðir og veislur eru haldnar þar. Við Valdís höfum skoðað þetta hús með leiðsögumanni og þar er margt að sjá.

Já, 19. nóvember er sérstaklega merkilegur á 50 ára fresti.


Kommentarer
Steinar Þorsteinsson

Stór dagur hjá ykkur. Til hamingju með hann og til hamingju með doktorinn.

2010-11-20 @ 14:02:45
Guðjón Björnsson

Þakka þér fyrir Steinar. Hvað Rósu varðar hafði hún ekki um neina daga að velja. Þessi dagur var ákveðinn ofan frá af einhverjum sem hafa ekki hugmynd um að tveir ellilífeyrisþegar eru foreldrar eins af þeim sem fengu doktorsskýrteini sitt þarna í gær.



Með bestu kveðju frá Valdísi og Guðjóni

2010-11-20 @ 14:50:59
URL: http://gudjon.blogg.se/
Anonym

Til hamingju með stóra daginn í gær.



Bestu kveðjur,



Þórlaug

2010-11-20 @ 17:16:58
Anonym

Til hamingju með stóra daginn í gær og daginn fyrir fimmtíu árum.



Bestu kveðjur,



Þórlaug

2010-11-20 @ 17:17:55
Guðjón Björnsson

Þakka þér fyrir Þórlaug



Með bestu kveðju frá Valdlísi og Guðjóni

2010-11-20 @ 23:02:07
URL: http://gudjon.blogg.se/
Steinar Þorsteinsson

Kæri Guðjón, það má nærri skilja það svo að þessi þjóðfélagshópur sem þið Valdís og eg tilheyrum, sé hálfgert "rarítet" og komin að fótum fram. Þið hjón eruð það svo sannarlega ekki ef litið er til athafnasemi ykkar undanfarið. Eiginlega eigið þið skilið medalíu,eins og hefð er fyrir í Svíaríki og þó svo að hún verði ekki veitt í húsinu á Kóngshólma þá sýnist mér annað hús verðugt fyrir athöfnina, þótt lágreistara sé en byygt af þeim mun meiri alúð og nostursemi.

Eg sé fyrir mér að nýbakaður doktor sæi um orðuveitinguna. Eg tek ofan hattinn fyrir ykkur.

Með góðri kveðju.

2010-11-24 @ 01:04:13
Guðjón Björnsson

Fínn kommentar þetta Steinar, þakka þér fyrir.



Kveðja, Guðjón

2010-11-24 @ 19:32:34
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0