Fyrsti raunlegi snjór vetrarins

Það var búið að liggja í loftinu í nokkra daga að það mundi byrja að snjóa aðfaranótt þriðjudags. Og einmitt, það byrjaði að snjóa í nótt. En afskaplega lítið fyrstu tímana. Ég þurfti að fara með Valdísi til Fjugesta til sykursýkishjúkrinarfræðingsins á heilsugæslunni og var með sumardekkin undir bílnum. En það var allt í lagi með þá ferð. Það litla sem hafði komið af snjó hafði blásið burtu. Í gær var mikið talað um í útvarpi og sjónvarpi að ýmist fyrsti snjóstormur vetrarins eða fyrsta snjóóveður vetrarins væri að ganga í garð. Um fimmleytið í morgun vaknaði ég og heyrði veðurhljóð. Þar sem Fjugestaferðin stóð fyrir dyrum gat ég ekki látið vera að líta út og það var logn og ekki byrjað að snjóa. Hins vegar var talsvert veðurhljóð yfir skóginum, þeim skógi sem skýlir okkur á Sólvöllum í Krekklingesókn fyrir veðrum allt frá suðaustri til norðnorðvesturs og dregur mjög úr veðrum frá suðri einnig.

Þegar við komum út á opin akursvæðin á leið til Fjugesta heyrðist veðurhljóð á hægra framhorni bílsins og það fannst líka aðeins á bílnum að það blés. Þetta staðfesti hversu mikið 20 metra hár skógur skýlir í vindi. Það var nefnilega logn heima í fimm km fjarlægð.

Meðan Valdís var á heilsugæslunni fór ég í málningarvpruverslun í Fjugesta, ekki til að kaupa málningu, heldur til að kaupa skrúfur í hurðarhandföng. Þau selja nefnilega býsna margt í þessari góðu málningarvöruverslun. Þessi hurðarhandföng hafa sína sögu. Þegar við keyptum handföng á aðalútihurðina í Sólvallagötunni í Hrísey keyptum við fínustu handföng sem við áttum völ á. Mikið vorum við hrifin en að lokum komust þau fínu handföng upp í vana. Þrjátíu árum síðar keyptum við Sólvelli með því einfalda húsi sem eigninni fylgdi. En viti menn! Að því er við best gátum séð voru handföngin eins og handföngin í Sólvallagötunni. Nú er komin ný hurð sem aðalinngangur á Sólvöllum og auðvitað verða þessi frábæru handföng höfð áfram. Skrúfurnar voru bara of stuttar til að ná í gegnum nýju hurðina og þess vegna þurfti nýjar.

Síðan lá leið mín á heilsugæsluna aftur þar sem ég ætlaði að bíða eftir Valdísi. Eftir nokkra stund inni hjá Ulrika hjúkrunarfræðingi kom hún út létt á fæti eins og fermingarstelpa. Hún fékk mjög góða skoðun og Ulrika sagði henni að það væri vegna þess að hún gerði rétta hluti, það væri engin önnur en hún sjálf sem gæti gert réttu hlutina. Valdís var ánægð með þetta og það má hún vera. Þegar sykursýki kemst í jafnvægi kemst margt annað í jafnvægi. Þannig er þessi staða í dag. Valdísi líkar mun betur við heilsugæsluna í Fjugesta en þá sem við höfðum í Örebro áður.

Stuttu eftir heimkomuna fór að snjóa fyrir alvöru og nokkru eftir heimkomuna var hringt frá Fordverkstæðinu í Örebro og mér tilkynnt að nýju vetrardekkin tvö væru komin á felgurnar og ég gæti sótt hjólin eða komið og látið setja þau undir. En þá var ekki lengur sumardekkjafæri á vegunum þannig að frekari ferðalög voru afskrifuð á þessum degi. Ég fór með vetrarhjólin til þeirra í síðustu viku en þau urðu fyrst tilbúin í dag. Mér fannst ég fara tímanlega með þau en auðvitað hefði ég þó getað farið ennþá fyrr.

Það er að verða áliðið og það virðist vera hætt að snjóa. Ætli það sé ekki fimmtán til tuttugu sendimetra jafnfallinn snjór. Mikki bóndi var líka að fara með snjómokstursvélina sína eftir veginum með brauki og bramli. Það eru margir búnir að meiða sig í umferðinni í dag, sumir búnir að velta fínu bílunum sínum eða fá skrámur á þá. Hér datt á hin fullkomna kyrrð eftir að Mikki ruddi veginn og hér stefnir allt í samveru með Óla Lokbrá.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0