Hitamælirinn

Áður en ég settist við tölvuna lýsti ég með vasaljósi á hitamælinn sem ég skrúfaði á nýja gluggagereftið í norðvesturhorninu fyrr í dag. Hann sýndi -12 gráður. Á sama tíma var talað um veður í sjónvarpinu. Þar sagði að hitastigið um þessar mundir væri verulega mikið undir meðaltali. Um næstu helgi mundi trúlega hlýna dálítið, en þó ekki yfir frostmark, og þessum hlýindum mundi fylgja snjókoma. En hvað þetta er líkt veðráttunni í fyrravetur fyrir utan að þessi vetrarveðrátta kom fimm vikum fyrr núna en í fyrra. Þetta sagði ég líka í blogginu mínu í gær.

Meðan ég var að setja upp mælirinn í dag hugsaði ég til uppsetningar á öðrum mæli, en það var væntanlega árið 1954 eða 1955. Það hafði verið mikill áhugi fyrir því í neðri bænum á Kálfafelli að fá hitamæli en af einhverjum ástæðum drógst sú fjárfesting á langinn. Kannski voru mælar dýrari þá en í dag en ekki veit ég hvort það var ástæðan. En loksins var kærkominn hitamælir kominn sem var gerður fyrir að festast á gluggakarm eins og algengast er í dag. Ég man vel að mér fannst það voða gaman að geta nu farið út að glugga og gáð að hitastigi. Mikið yrði gaman að fá upp mælinn.

Hann var í mörgu líkur mælum í dag, þessi kúla neðst og svo mjótt rör upp og svo var sívalt glerhús utan um mælinn og skalann sem var að baki rörsins. Málmhettur voru á báðum endum og þvert út úr þeim stuttir málmpinnar með litlu gati þannig að hægt væri að negla mælinn á glugga. þessi göt voru mjög nálægt sjálfum mælinum þannig að það þurfti að negla af miklu öryggi. Engar skrúfur voru svo grannar að þær kæmust gegnum þessi göt.

Pabbi spurði mig hvort ég vildi vera með í því að setja upp mælinn. Mér fannst heiður að því. Svo fórum við út með mælinn, hamar og nagla, stilltum mælinum á gluggann og annar okkar fór inn til að athuga staðsetninguna. Svo var allt til. Vilt þú negla spurði pabbi og hafði orð á því að ég mundi gera það af meira öryggi. Ekki var heiðurinn minni yfir að fá að negla upp mælinn en ég sá líka mikla hættu í að taka það að mér. En ég tók það að mér.

Af allri þeirri gætni sem ég átti til tókst mér að negla báða naglana en pabbi hélt við mælinn. Ég varpaði öndinni léttar og ég er alveg viss um að pabbi varpaði öndinni léttar líka. Svo tókum við á mælinum og fundum að hann var svolítið laus og mundi kannski geta látið illa í vindi. Við vorum sammála um það að það gæti eyðilagt mælinn. Treystirðu þér að negla aðeins meira spurði pabbi. Já, ég skyldi gera það. Nú vandaði ég mig mun meira en áður og svo sló ég það sem átti að vera síðasta höggið.

Það varð enginn hávær eftirmáli vegna þessa, en mælirinn sem við pabbi vorum báðir svo áhugasamir um að fá upp brotnaði ofan við kúluna og húsið utan um hann brotnaði einnig. Við urðum mikið hljóðir og hugsuðum örugglega báðir það sama -að mikið var þetta leiðinlegt. Svo var ekki mikið um annað að gera en að plokka flakið af gluggakarminum og henda í ruslið.

Við pabbi áttum örugglega sameiginlega reynslu það sem eftir lifði dags. Það var sorgin yfir að það tókst ekki sem við báðir vönduðum okkur svo mikið við. Ég var viss um að pabbi var leiður fyrir mína hönd að hafa mistekist og ég var viss um að pabbi væri leiður yfir því að hafa ekki fengið upp hitamælinn sinn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0