Samtíningur

Ég sagði í bloggi í gær að ég hefði læðst út um áttaleytið til að mála gerefti. Áður en ég náði að byrja heyrði ég flugvélagný sem ég þekkti að kæmi frá stórri vél. Ég fór út og leit upp því að ég við höfum gaman af að horfa á þessa risa líða hægt hér yfir í lágflugi að flugvellinum sem er skammt undan. Það var lágskýjað og fyrst grillti í vélina af og til en nóg til að sjá að liturinn var óvingjarnlega grár og það voru engir gluggar á hliðunum. Flutningavél. Það var spurning hvort hún var að sækja drápsvélar sem eru framleiddar sem varnarvopn upp í Värmland eða hvort hún var að sækja hjálpargögn sem fara ættu til einhverra af síðustu hamfarasvæðunum.

Á sunnudaginn var læddist ég líka út en fór inn í tíð til að sjá og hlusta á sjónvarpsmessuna með Valdísi. Messan hafði yfirskriftina alkohólismi. Presturinn sem predikaði er óvirkur alkohólisti og hann snerti mig mjög með ræðu sinni. Ég ætlaði að blogga um það en svo ákvað ég að nota það frekar um miðjan janúar af vissri ástæðu. Ég skrifa þetta núna til að vera minnugur þess þegar þar að kemur.

Svo fór ég aftur út að vinna. Mér var litið upp í þakið og sá þar hvernig plastið hafði verið rifið af rafvirkjanum til að koma rafmagnsröri milli herbergja. Ég hafði ekki tekið eftir þessari skemmd áður og varð hálf argur vegna þess að það tekur tíma að laga svona. Við Anders vorum búnir að vanda okkur mikið við að plasta allt innan og svo kom rafvirki og reif þjösnalega göt á plastið. En að nýlokinni messu mátti ég ekki fara í fýlu svo að ég fór að hugsa um annað.

Með Patrik rafvirkja var ungur maður, lærlingur að nafni Alex. Ég hafði séð hann áður þar sem hann vann í málningarverslun í Fjugesta í sumar. Annar eigenda þessarar verslunar heitir Per og hefur verið mér hjálplegur eins og allt fólk sem vinnur í þeirri verslun. Eitt sinn þegar ég var að koma þangað fyrir nokkrum árum stóð Per þessi út á bílastæðinu og fyrir framan hann stóð svo sem tólf ára stúlka sem hlaut að vera dóttir hans. Hún var á fullu að semja um eitthvað við pabba sinn og af einhverri ástæðu höfðu þau farið út úr versluninni til að draga sig undan. Þegar ég gekk framhjá sagði ég við stúlkuna: þú átt reglulega fínan pabba. Hún leit undrandi á mig, þennan undarlega gamla kall sem blandaði sér inn í þeirra mál á þennan hátt. Svo hallaði hún höfði sínu í hálsakot pabba síns og sagði feimin að hún vissi það.

Þessi stúlka er systir Alex. Þegar við borðuðum svo hádegismat hér heima komu þeir inn með nestistöskurnar sínar, Alex og Patrik, og borðu með okkur. Þá sagði ég þeim frá þessu og þegar ég var hálfnaður með frásögnina stoppaði ég um stund eins og ég væri hættur og hélt bara áfram að borða. Þá varð Alex hissa og skildi ekki neitt í neinu og svo leit hann ráðleysislega á Patrik og úr augnaráði hans skein þessi bæn: Patrik, hjálpaðu mér, hvað er kallinn eiginlega að fara? Svo hélt ég áfram og lauk frásögninni. Þá gat Alex ekki leynt því hvað honum þótti vænt um bæði systur sína og pabba. Hann er sérstaklega prúður og þægilegur strákur -og ég segi sérstaklega.

Ég er ekki vitund reiður út í rafvirkjann, ég nenni því ekki. Hann er kominn í vetrarfrí til Tælands og ég óska honum góðra daga. Hann var alveg svakalega duglegur þegar hann var hér að vinna um daginn. Á morgun kaupi ég sérstakt límband sem maður notar til að gera við svona skemmdir.

Ég er búinn að hlaupa úr einu í annað í hálfgerðum minnispunktafærslum. Það er komið þriðjudagskvöld og það er búinn að vera hryssingslegur dagur. Fyrst í morgun þegar ég leit út var töluverður norðvestan blástur og hryssingslegur skafrenningur. Af og til í allan dag hefur verið skafrenningur og það er eiginlega eins og vetur sé ákveðið að boða komu sína. Við Valdís erum sammála um að við höfum ekki áður upplifað hér í Svíþjóð svona hryssingslegan skafrenning sem hefur verið í dag og enn gnauðar vindurinn úti.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0