Með gat á hnakkanum

Ég leit í tölvuna í morgun og sá þá að Páll bróðir á afmlæli í dag. Þó að ég viti kannski að 18. nóvember er afmælisdagurinn hans þarf ég að sjá eitthvað sem minnir mig á það. Þannig er það bara með mig, ég er lélegur að muna eftir afmælisdögum. Konan mín hins vegar veit afmælisdaga einhvers ótrúlegs fjölda fólks.

En þegar ég hugsaði um afmælisdag Páls þarna í morgun og að hann er elsti bróðir minn minntist ég atburðar sem er býsna gamall. Við vorum á leið út í hlöðu á Kálfafelli og fórum þá framhjá smiðjunni gömlu og svo yfir vegtroðning sem lá bakvið smiðjuna. Þarna í veginum var all stór steinn sem mjúklega ávalur stóð svolítið upp úr veginum. Rétt þegar við vorum komnir framhjá steininum varð mér fótaskortur og ég datt aftur yfir mig og lenti með hnakkann á steininum.

Páll tók mig upp og bar mig inn til mömmu og þegar við komum inn sagði hann að ég hefði fengið gat á hnakkann. ég vissi að það blæddi úr hnakkanum á mér en að vera með gat á hnakkanum fannst mér afar skrýtið. Hvernig eiginlega skyldi það líta út þegar einhver hefði fengið gat á hnakkann? Minningar mínar um þennan atburð ná ekki lengra en þetta að ég velti því fyrir mér hvernig það væri að vera með gat á hnakkanum. Þarna var Páll bara unglingur en mér fannst sem það væri fullorðinn maður sem tók mig upp og bar mig inn.

Ég er að tala um atburð sem átti sér stað fyrir meira en 60 árum og ég er sjálfsagt einn um að muna eftir honum. Engir tveir geta sagt á sama hátt frá sama atburði eftir svo langan tíma, jafnvel þótt báðir minnist hans. En þegar ég mundi í morgun eftir þessum orðum um gat á hnakkanum fannst mér næstum sem ég væri með um atburðinn öðru sinni. Að ég heyrði orðin sögð og að ég upplifði spurningu mína um það hvað það þýddi að vera með gat á hnakkanum.

Nú er ég búinn að tala svo mikið um gat á hnakkanum að ég ætla að snúa mér að öðru. Á morgun kemur Göran blikksmiður til að ljúka frágangi á niðurföllum við þakrennurnar á Sólvöllum ásamt að hjálpa mér með smálítið fleira, eða alla vega að leiðbeina mér um hvernig ég eigi að framkvæma það. Það er nefnilega þannig að maður eins og ég sem á sínum tíma var smiður út á landi hefur gert ýmislegt sem ekki tilheyrði sjálfum trésmíðunum. Má þar nefna að ganga frá þakrennum. Ég gekk líka sjálfur frá þakrennunum á fyrri viðbyggingu á Sólvöllum og einnig á Sólvallagötu 3 í Hrísey fyrir 37 eða 38 árum.

En nú í þetta skiptið fannst mér best að vera ekkert að glíma við rennurnar sjálfur og Anders smiður benti mér á þennan blikksmið. Það var gaman að sjá hann framkvæma þetta og ég bloggaði um það á sínum tíma. Svo einfalt verk sem mér fannst það í rauninni þó að ég vissi að ég hefði verið lengi að framkvæma það sjálfur. Svo þegar ég horfði á Göran sá ég að ég hafði ekki verið faglegur þegar ég gerði þetta sjálfur. Ég spurði hann líka út í fleiri hluti og komst að því að ég kann ekkert í blikksmíði. Það verður vandað til verka í þetta skiptið. Svíar hafa sinn hátt á, til dæmis hvar niðurfall á að vera við húshorn en þetta þverbraut ég. Þú mátt gera það á þinn hátt, sagði Göran, en svo gerum við nú ekki hér.

Vissa daga verða miklar útlitsbreytingar á byggingu vorri og morgundagurinn verður einn af slíkum dögum. Morgundagurinn kemur líka til með að bera ýmislegt fleira í skauti sínu en enn svo lengi eru það leyndarmál. Valdís sagði áðan hvort ég vildi ekki blogga eða bara leggja mig. Ég valdi að blogga fyrst og á morgun verð ég að blogga líka svo fremri að ekkert sérstakt komi í veg fyrir það.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0