Nú má veturinn koma

Hann talaði um það blikksmiðurinn hann Göran í morgun að það væri nauðsynlegt að hafa eitthvað gott að sýsla við svo að maður héldi sér í formi. Hann talaði líka um að hann ætlaði ekkert að hætta að vinna þegar hann verður ellilífeysrisþegi sem hann verður eftir tvö ár. En hann ætli hins vegar að minnka við sig og skoða sig um hérna innanlands. Þegar við töluðum um þetta vorum við að enda við að borða heitar vöfflur hjá Valdísi, en hún lætur engan fara hungraðan héðan sem hefur verið okkur til hjálpar. Þeir minnast hennar örugglega fyrir ilmandi baksturslykt og heitar vöfflur eða pönnukökur allir sem hafa komið hér til vinnu frá því í vor.

Þegar Göran var búinn að ganga frá sínu í morgun gengum við inn til að fá kaffið hjá Valdísi. Það var einhvern veginn hráslagalega kalt þó að að væri lítið frost og þegar við komum inn í þvottahúsið sagði Göran að hér væri hlýtt og gott og móðir væri greinilega búin að kynda vel. Það var líka satt hjá honum. Meðan við vorum að borða vöfflurnar sagði hann allt í einu að konan sín væri með krabbamein og væri í lyfjameðferð og færi brátt í geislameðferð líka. Þetta var þegar byrjað þegar hann var hjá okkur fyrr í haust en hann er hress og þróttmikill þessi kall sem er fimm árum yngri en við og lætur ekki bugast.


Ég ætlaði að taka mynd af honum við vinnu en var of seinn. Hann var nákvæmlega búinn að ljúka erindinu þegar ég kom með myndavélina. Er þér ekki kalt á höndunum spurði Göran en ég sagði svo ekki vera. Hann var með kaldan málm í höndunum en ég með þurran smíðavið svo að það var ekki saman að jafna.


Svona göngum við frá niðurföllum hér í landi þegar húsin eru með hvít horn sagði blikksmiðurinn. Hann hafði líka sagt áður að ég gæti samt ráðið því hvernig ég mundi vilja gera.


Svona gerði ég á fyrri viðbyggingunni en ég styð Göran, hans aðferð er mikið snotrari. Ég hefði nú átt að vera búinn að sjá þetta á sænskum húsum sjálfur en gerði ei. Ég á örugglega eftir að breyta niðurföllunum mínum og þá hækkar húsið sjálfsagt í verði.


Svo þegar ég fór að príla í stiga kallaði ég á Valdísi og bað hana að taka myndir af mér. Svona barnalegur er ég. Ég er svolítið moðpokalegur þarna í stiganum en það er eflaust rétt að það heldur ellilífeyrisþega í formi að fást við allt mögulegt og þar með að brölta í stiga.


Til og með að skrönglast upp á þaki heldur manni í formi og ekki hvað minnst. Þarna er ég að enda við að ganga frá svörtum blikkrenningum, þar til gerðum, sem loka bilinu milli vindskeiðar og þakpönnu. Þetta er eiginlega í verkahring blikksmiðsins en ég skildi vel á honum að hann vildi láta mér þetta eftir og spara mér þannig nokkrar krónur. Þar með er þak fullfrágengið og það má snjóa og snjóa mikið og rigna mikið líka og inni heldur samt áfram að vera þurrt og hlýtt. Sólvellir eru tilbúnir fyrir vetrarkomu.


Kommentarer
Hrafn Karlsson

Þetta er aldeilis orðið flott hjá þér Guðjón, allt hundrað prósent. Finnst samnt smekklegra að hafa rennuna á kantinum, fyrirgefðu afskiptasemina, kær kveðja til Valdísar.

Krummi

2010-11-19 @ 22:06:51
Þórlaug

Til hamingju með þennan áfanga, húsið ykkar er alltaf að verða fallegra og fallegra.



Kærar kveðjur úr Gnípu,

Þórlaug

2010-11-19 @ 22:44:49
þóra H Björgvinsdóttir

Sæll Guðjón það er aldeilis að Sólvellir hafa stækkað ,mjög flott viðbygging kemur vel út , það er gaman að sjá kvað verkið hefur gengið vel hjá ykkur.

kveðja til ykkar

Þóra

2010-11-19 @ 23:31:06
Guðjón Björnsson

Takk þið öll. Krummi, það er fallegra að hafa það á kantinum eins og þú og Göran segið og ég mun breyta því á eldra húsnæðinu.



Kveðja, Guðjón

2010-11-20 @ 00:15:14
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0