Fyrstu jólaljósin á Sólvöllum

Það er kannski svolítið snemmt en nú loga fyrstu jólaljósin á Sólvöllum fyrir þessi jól. Ég sagð í bloggi í gær að ég mundi hengja gamla jólaseríu upp í dag. Það er auðvitað ekki hægt annað en standa við það sem ég segi í bloggi eða hvað? Annars er jú ekkert að marka allt bullið í mér. Þessi jólasería er að verða jólaserían víðförla. Við byrjuðum með hana í Hrísey þar sem hún fékk að gleðja fólk í mörg ár og svo fylgdi hún okkur til Sverdsjö í sænsku Dölunum. Þar var hún aldrei tekin upp úr kassanum. Síðan hafnaði hún i Falun og þar lýsti hún yfir svölunum hjá okkur jólin 1995 og 1996. Síðan á tveimur stöðum í Örebro í 14 ár. Hvað meira getur ein jólasería óskað sér og nú fær hún meira að segja að lýsa á nýju förstofunni á Sólvöllum.


Til að þetta verði reglulega fínt þarf ég að klæða meira á bakvíð seríuna en það verður ekki gert næstu dagana en vonandi fyrir jól. Í glugganum vinstra megin við forstofuna gefur að líta jólagardínur sem Valdís hengdi upp í dag meðan ég var í vinnunni.

Í morgun tæplega sjö þegar klukkan hringdi var ég langt inn í draumalandinu. Ég óskaði mér svo sannarlega að ég mætti sofa lengur og ég hafði á tilfinningunni að ég hefði sofið óvenju værum svefni. En það var ekkert að semja um, ég dreif mig fram og opnaði útihurðina til að gá til veðurs. Það hafði snjóað eina 15 sentimetra í nótt og ég hreinlega sá á snjónum að hann var bæði þurr og léttur. En það var vetrarlegt og eitthvað minnti mig á síðasta vetur. Þá ætlaði ég að athuga fimm daga spána á textavarpinu en um leið sá ég að það voru fréttir um veðurhorfur vetrarins. Veðurfræðingar hér tala nú um að veturinn í vetur muni ekki gefa eftir vetrarhörkunum í fyrra og ég las um ástæðuna fyrir því en skildi ekki flóknar skammstafanirnar. Ég lét mér því bara nægja að treysta því sem þeir segja og taka svo þeim vetri sem verður í boði.

Í framhaldi af þessu með veðurspána fór ég í það eftir jólaseríuuppsetninguna núna í kvöld að bera í hús meiri eldivið en ég hef gert áður í vetur. Þurr eldiviður hitar betur en rakur og svo þarf bara að skammta loftstreymið inn í kapisuna svo að hann brenni ekki of hratt upp. Það er gott að búa vel, meðal annars hvað varðar eldivið.

Í sjónvarpsdagskrá áðan var talað við sænska forsætisráðherrann. Hann var meðal annars spurður hvað hann hefði djammað með mörgum konum. Hann sagðist hafa hitt sína konu svo snemma að hann hefði eiginlega ekki haft tíma til að djamma með öðrum konum en henni. Annað svar gaf hann ekki.

Fyrr í kvöld var talað um fjármál ýmissa Evrópulanda. Í framhaldi af því vil ég segja að 1994 og áfram var niðurskurður í Svíþjóð undir óvinsælli fjármálastjórn Göran Persson álíka ofsafenginn og á Íslandi í dag. Fólki var sagt upp og vinnuálag var aukið á allar mögulegar starfsstéttir. Síðustu misseri og sérstaklega síðustu mánuði hafa Svíar lánað eða gefið loforð fyrir lánum til annarra þjóða sem eru í vandræðum fyrir meira en 50 miljarða sænskra króna. Inn í því er lán til Íslendinga sem hefur verið lagt fram að hálfu samkvæmt upplýsingum sænska fjármálaráðherrans. Þetta eru yfir 830 miljarðar íslenskra króna.

Það finnst ljós í myrkrinu og jólaseríur loga líka á kreppuárum. Það er ekki svo langur tími síðan við Valdís vorum að reyna að skilja fréttirnar af þessu þá nýkomin til Svíþjóðar. Síðar urðum við fullgildir þátttakendur í leiknum. Þetta kom áþreifanlegast niður á mér sem óöryggi með vinnu, en lengi vel gat komið að því að Vornesi yrði lokað í næsta mánuði eða svo. Vornesi var aldrei lokað og við hér í Svíþjóð virðumst vera orðin aflögufær samkvæmt ofanrituðu.


Kommentarer
Rósa

Þetta er frábær staður fyrir seríuna! Það eins og forstofan var búin til til þess að geta haft seríuna þarna. En eru ekki litaðar perur í henni? Það sést ekki á myndinni.



Kveðja,



R

2010-11-25 @ 22:53:20
Guðjón Björnsson

Jú, þær eru litaðar en sperran á bakvið er svo ljós að það verður allt hvítt þegar hún lýsist upp. Það breytist þegar rauður panell verður kominn framan á sperruna.



Kveðja,



pabbi/afi

2010-11-25 @ 23:15:30
URL: http://gudjon.blogg.se/
Valgerður

Voða voða fínt. Er svo búið að finna stað fyrir hekluðu bjöllurnar?

VG

2010-11-26 @ 11:51:15
Guðjón Björnsson

Þær eru þegar komnar upp og búnar að vera lengi yfir fyrrverandi glugga innan á suðurstafninum.



Kveðja, pabbi

2010-11-26 @ 13:30:39
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0