Allraheilagramessa

Það er allraheilagramessa, jörðin er silfruð af frosthrími og kyrrðin í sveitinni er nánast fullkomin. Svíar taka þessa helgi nokkuð alvarlega, fara hljóðlegar, setja kerti á leiði og i minnislundi kirkjugarða. Kertið sem Valdís kveikti á í gærkvöldi er skógarmegin við húsið og lifir enn. Það mun væntanlega lifa alla helgina. Ég var ákveðinn í því þegar í gær að taka morguninn rólega og gera ekkert fyrr en eftir messu og þá verk sem ekki skapa mikinn hávaða. Um átta leytið teygði ég mig eftir bók sem heitir Hjartans lyklar og er skrifuð af gamla biskupnum Martin Lönnebo. Ég sló upp af handahófi og hafnaði á síðu 120 og las nokkrar línur þar sem Martin skrifar um kærleikann og segir eftirfarandi:

Kærleikurinn er kjarkurinn og krafturinn í hinum niðandi flúðum og hinum dynjandi fossi, hann hefur styrk sinn í að láta sig falla móti þungamiðju sinni. Kraftur vatnsins fyrirfinnst ekki í lónunum heldur í fossunum: barn fæðist, þú neitar að beygja þig fyrir ofureflinu, þú fellur á kné fyrir kærleikanum, þú neitar að búsetja þig í smáatriðunum þar sem maður á að hugsa i vinsældum, taka eftir litlu, kaupa hamingju, þagga niður samviskuna. Þú tekur að þér mikilvægt verkefni, annast það sem þér ber, vökvar blómin, ferð út með hundinn og tekur hinar stóru ákvarðanir.

Athygli mín var vakin svo ég hélt áfram að lesa og síðan segir hann:

Kærleikurinn fyllir tómleikann, hann gerir engan myrkfælinn, hann gefur lyddum kjark, hann sendir hlaupara með boðskap: Þú ert.

Ennfremur:

Kærleikurinn er alheimsins fallegasta blóm, já, Fegurðin sjálf. Hann er stolthet skrúðgarðins, gróðursettur í miðju Alheims, í blómabeði nálægt öxl hins Stærsta, englarnir læðast fram til að finna þess sæla ilm.

Og áfram:

Kærleikurinn er einfaldur, montar sig ekki, hann hreykir sér ekki, hann trúir öllu, hann stendur út með allt, hann krefst einskis, hann upphefur það litla.

Og að lokum:

Kærleikurinn er sól, hann lýsir yfir vonda og góða, hann er regn sem fellur yfir réttláta og rangláta, hinn guðdómlegi kærleikur er sameinaður með óendanleika alheimsins.

Ég hélt bókinni í hendinni nokkra stund eftir að ég hafði lesið einar fimm blaðsíður og var hugsi. Vissulega hafði ég aðeins stundað það efnislega lengi og látið hjá líða að sinna því andlega. Síðan fór ég fram og kveikti upp í kamínunni. Vegna ákveðins veðurlags sló reyknum niður og það varð mikill reykur inni. Það var kuldatappi í skorsteininum. Ég sótti dagblað með hraði, böglaði einni opnu saman og setti yfir logann og svo annarri opnu. Þar með lokaði ég kamínunni og leit svo í kringum mig. Það var mikill reykur inni en nú sá ég að kuldatappinn hafði gefið sig í skorsteininum. Ég setti loftræstinguna í gang og var ekki ánægður með það sem hafði skeð. Og einmitt þarna með höfuðið inn í miðju reykjarkófi hugsaði ég: Ef ég hefði ekki verið búinn að lesa þennan texta hefði ég trúlega hreytt út út mér alla vega einu kröftugu blótsyrði.

Síðan fór ég inn í svefnherbergið og þegar ég hafði rétt lokað hurðinni byrjaði reykskynjarinn að íla frammi með óþolandi hávaða. Ég fór fram, tók hann niður, batteríið úr og lagði hann á stól. Ekki þá heldur hreytti ég út úr mér blótsyrði. Þakka þér fyrir Martin. Núna, nokkrum mínútum síðar, er reykurinn horfinn og lyktin nánast líka.

-----------------------------------------------

Meira skrifaði ég ekki í morgun. Við horfðum á messuna, ég við matarborðið borðandi morgunverðinn, en Valdís sat hins vegar sem negld niður framan við sjónvarpið og haggaðist ekki fyrr en messunni var lokið. Stundum söng hún með. Það voru ekki bara sálmar sungnir, það voru vel flutt heilu söngverkin. Messan var kaþólsk. Presturinn talaði heil mikið um kærleikann eins og Martin hafði gert í textanum sem ég las. Hann talaði líka um að það sé erfitt að skilja heilagleikann og að það væri einmitt þess vegna sem hann heillar svo mikið. Það var athyglisvert að heyra. Hann talaði líka um það að í vor tið sé mikilvægara að hafa en að vera. Þetta var líka í textanum hans Martins. Merkilegt þetta og ég sem opnaði bókina af handahófi.

Ég kem til með að sinna hinu efnislega í fullu starfi enn um sinn, það er að segja byggingarvinnunni. En ég á mér draum og þann draum dreymdi mig líka í morgun að loknum lestrinum. Þegar okkur tekst að ljúka byggingarframkvæmdunum með aðstoð Anders, þá vil ég kaupa stóla í Varsam, en Varsam er verslun sem selur stóla sem henta ellilífeyrisþegum vel. Þeir hafa arma sem gera auðvelt að setjast niður í þá og að standa upp úr þeim og þeir eru góðir fyrir bókalestur. Draumurinn er að geta tekið góðan tíma til að sitja í Varsamstól í nýbyggðu, góðu húsi með bókina hans Martins og aðrar svipaðar bækur í höndum og orðabók á litlu borði við hliðina. Síðan dreymir mig um að lesa, lesa og nota orðabókina eftir þörfum. Ég varð þess nefnilega að vísari í morgun að orðalagið hans Martins er þess eðlis að ég þarf að taka mig á og læra meiri sænsku.

Svo get ég lutað mér móti stólbakinu og hugsað; hvað meinti hann nú með þessu, hvað meinar hann nú hér. En sannleikurinn er sá að ef maður les eitthvað sem erfitt er að skilja og gefst ekki upp, þá allt í einu opnast skilningurinn og málið verður einfalt. Þetta heitir andlegheit. Ljósið sem Valdís kveikti í gærkvöldi til minningar um þá nánu ættingja og vini sem hafa kvatt jarðlífið lifir enn. Það mun væntanlega lifa nóttina einnig og lýsa í morgunskímunni í fyrramálið þegar við förum á stjá.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0