Það er samt fimmtudagsmorgun

Ég ætlaði að setjast örstutta stund við tölvuna og skrifa fáa og stutta minnispunkta fyrir kvöldið og dunda mér svo við að skrifa pínulítið fyrir svefninn. En ég missti stjórn á mér og minnispunktarnir urðu lengri en ég hafði ætlað mér. Á meðan hækkaði sólin á lofti og þurrkaði næstum upp rennblauta jörðina eftir dögg næturinnar.
 
 
 
Ég hef haft það sterkt á tilfinningunni í morgun að það sé laugardagur en ég veit samt að það er fimmtudagsmorgun. Venjulegra ellilífeyrisþegalíf er að færast yfir hér á Sólvöllum í Krekklingesókn eftir sumar þar sem lífið hefur ólgað og ég hef tekið þátt í því. Mér finnst sem ég hafi verið þarfur og staðið undir því að vera það. Sumir á mikið betri aldri en ég virðast ekki hafa heilsu eða getu til að vera lifandi þátttakendur í drifhjóli samfélagsins en lögjafinn setur lög og reglur til að fá þetta fólk í lengstu lög til að vera með, eða hreinlega þvinga það til þátttöku. Það er skorið á möguleikana til framfærslu og síðan blasir við eymd sem leiðir til ennþá meiri krankleika og þjáninga.
 
Hvað er hvað í þessu sambandi get ég ekki skilgreint en það er bara staðreynd að það er ekki öllum gefið að vera með í drifhjólinu. Nokkuð seint í fyrrakvöld hitti ég snaggaralegan mann í Vornesi, mann sem þá um kvöldið kom nokkur hundruð kílómetra suðaustan úr landi til að taka þátt í þriggja daga námskeiði. Við stóðum um stund úti á hlaðinu og komum á lítils háttar kynnum á milli okkar. Ég sagði honum að ég væri ellilífeyrisþegi síðan sjö ár til baka en væri enn í töluverðri vinnu.
 
Já, svaraði hann, ég er líka ellilífeyrisþegi, og svo hét hann áfram. Ég bý í Kalmar en á mánudaginn kemur á ég að vera í Norrköping til að keyra rútu um mið Svíþjóð í þrjá daga. Síðan á ég að keyra vörubíl fyrir fyrirtæki í Linköping þangað til í vikulokin. Það er oft hringt í mig til að fá mig í vinnu og mér finnst allt í lagi að gera þetta. Ég get vel gert þetta en svo eru margir að reyna að vinna sem virðast alls ekki geta það.
 
Við þekktum okkur vel í hvor öðrum og áttum nokkrar góðar mínútur þarna á Vorneshlaðinu. Síðan fór ég til að sinna mínu en hann ætlaði að fara að búa sig í háttinn. Líklegast er að við hittumst aldrei meir en það er samt aldrei að vita. Það er svo margt sem ég ekki veit.
 
Ég hins vegar bæði veit og sé að mörg tré hérna utan við gluggann minn eru farin að láta á sjá eftir nokkurra mánaða ötula starfssemi fyrir lífið á jörðinni. Þau eru búin að hreinsa mikið af úrgangsefnum úr loftinu í sumar og skila frá sér miklu súrefni sem án afláts streymir inn um loftræstingarventlana á svefnherberginu mínu. Annar ventillinn er rétt fyrir ofan og framan mig og ég finn hvernig hreint og svalt loftið streymir í bylgjum niður til mín þar sem ég sit.
 
Eikurnar bera af. Flestar þeirra eru jafn grænar og þær voru um miðjan júní en einstaka ein er þó byrjuð að sýna merki um þreytu eftir annríki sumarsins. Ég er ekki hissa þó að ég sé aðdáandi þessara trjáa. Að baki eikinni sem best blasir við mér er beykitré. Það er ennþá jafn grænt og það var um miðjan maí. Ég er líka aðdáandi beykitrjánna. Ef ég renni stólnum aðeins til hægri blasa við mér fleiri eikur og fleiri beykitré. Beykitrén eru af stærðinni einhvers staðar milli fimm og sjö metrar en mest áberandi eikurnar eru af stærðinni tíu til fimmtán metrar. Svo er stóra Sólvallaeikin langt yfir það hafin. Hún er búin að lifa tvær heimstyrjaldir, Kötlugos og mörg önnur gos og atburði.
 
Eikurnar að húsabaki fresluðum við Valdís úr klóm reyni og grenitrjáa fyrir sex til átta árum síðan. En beykið gróðursettum við af mikilli elju og umhyggju, líka fyrir sex til átta árum. Allir þessir einstaklingar hafa launað vel fyrir alúðina og fyrirhöfnina og hafa verið ötulir þátttakendur í drifhjóli náttúrunnar fyrir betri lífsskilyrðum á jörðinni. Á þessari morgunstund er eins og mér þyki vænna um eikurnar og beykið en sannleikurinn er sá að mér þykir vænt um þennan skóg allan.
 
Ég tala oft um að morgunsólin lýsi upp hreyfanlegar ljóshallir úti í skóginum. Í heilan klukkutíma hef ég fylgst með einni svona höll spölkorn út í Sólvallaskóginum. Hún er ofarlega í skóginum, svo ofarlega að hún hefur ekkert þak. Hún er opinn móti heiðum himni. Ég veit hvaða einstaklingar eru undir þessum sólarsal, einstaklingar sem án afláts teygja sig upp á móti til að nálgast ljósið, sólarljósið sem er þeim nauðsynlegt til að geta sinnt starfinu mikilvæga, að hreinsa sameiginlega andrúmsloftið okkar og framleiða súrefnið sem enn heldur áfram að koma í bylgjum inn um loftventilinn stutt fyrir ofan mig.
 
 
 
Ég byrjaði þennan rólega morgun liggjandi á bakinu í rúminu mínu með hnakkann upp á dýnunni sem er við höfðagaflinn minn. Þá var ég búinn að líta út um nokkra glugga, sjá þétta döggina liggja yfir öllu og lág þétt ský, nánast lágir þokubakkar, kúrðu yfir öllu og virtust vilja halda rakanum og kyrrðinni sem lengst niðri á jörðinni áður en sólinni yrði sleppt fram. En sólin vann og byrjaði síðan að lýsa upp skóginn. Viljinn til að vilja vera með sigraði mig og ég dró frá glugganum og settist við tölvuna. Nú er setunni þar lokið og mörg ellilífeyrisþegaverkefni bíða mín. Það er liðið á morgun.
 
 
 
 
 
Innviðir plómutrés.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0