En ég vil vera hér

Það var liðið vel fram yfir hádegi í dag, sunnudag, og Rósa var úti og var að ljúka við að líta eftir verkfærum og leikföngum Hannesar. Hannes og pabbi hans voru hins vegar inni í herberginu þar sem þau búa þegar þau eru hér. Pabbi Pétur sagði við Hannes að þeir yrðu að ganga frá í herberginu því að þau færu bráðum heim. Þá sagði Hannes með mikilli áhreslu: En ég vil vera hér. Það var auðvitað notalegt fyrir mig að heyra þetta en ég vissi jafnframt að þegar þau væru komin heim, þá þætti Hannesi best að vera þar.
 
Vikan var búin að silast áfram hjá mér. Mér fannst sem ég væri að byrja að merkja það að ég væri að verða gamall, alla vega eldri. Eða var ég bara latur? Eða var ég bara að vorkenna mér? Ég vildi afsanna þetta allt saman og hélt áfram við mitt eftir bestu getu. Svo kom föstudagseftirmiðdegi og fjölskyldan frá Stokkhólmi var á leiðinni. Ég hélt niður til Hallsberg til að sækja þau á járnbrautarstöðina. Ég hlakkaði til að fá heimsókn og mér fannst ég líka vera hressari en undanfarna daga.
 
Þegar þau stigu frá borði vildi Hannes koma í fang mitt, tók innilega utan um hálsinn á mér og ég fann að við vorum báðir með kvefskít og hósta. Þá fór ég að átta mig á því að ég var alls ekki búinn að ná mér eftir hálsbólgu og kvef frá því um síðustu helgi þegar ég var að vinna all stífa törn í Vornesi. Þegar við komum svo að Sólvöllum gekk Hannes rakleitt að dótaskápnum sínum og tíndi fram björgunarþyrlu og trukka ásamt fleiri græjum sem hann hefur sjálfur sett saman úr legókubbum.
 
Hann veit nákvæmlega hvar hlutina er að finna hér á bæ og gengur að þeim jafn skjótt og hann ber hér að garði. Eiginlega er þetta eina myndin sem ég tók um helgina og kenni ég um sinnuleysi mínu þar sem ég er ekki nógu hress. Ég er alls ekki veikur en heldur ekki vel hress. En ég veit núna hvað er á ferðinni; kvefskítur og óhreinindi í hálsi sem sækir mig mjög sjaldan heim.
 
Ég tók á móti þeim á föstudaginn með þorski úr norðaustur Atlantshafi og grænmetisávöxtum úr sólvellskri mold. Þau launuðu fyrir sig daginn eftir með bleikju úr norðaustur Atlantshafi ásamt sænskum kartöflum og tómötum sem þau meðhöndla af kunnáttu sem ég er ekki enn farinn að tileinka mér. Við spekúleruðum, gerðum að gamni okkar, borðuðum pönnukökur og sýsluðum eitt og annað.
 
Svo í dag dreif fleiri gesti að garði. Auður og Þórir komu ásamt íslenskum konum sem eru í helgarferð hjá þeim í Örebro, þeim Jónu og Sif. Einnig kom með þeim hún Elín Kristín, íslenska sem hefur búið í Svíþjóð í tuttugu og þrjú ár. Auður og Þórir eru Sólvöllum trygg og koma gjarnan hingað með fólk sem heimsækir þau. Ég virði þau virkilega fyrir þann góða sið. Ég reikna fastlega með að Íslendingum sem koma til Svíþjóðar þyki fróðlegt að sjá hvað landar þeirra aðhafast hér í þessu landi.
 
Það var hljótt þegar ég kom til baka eftir að hafa farið með helgargestina mína á járnbrautarstöðina í Hallsberg. Ég plokkaði fram þykk síldarflök og hitaði upp kartöfluréttinn frá í gær og borðaði einfaldan mat til að setja ofan á meira góðgæti sem var hér á borðum um miðjan dag. Ég kveikti á sjónvarpinu og horfði á fréttirnar og mann ekkert af þeim. Um tveimur timum seinna var ég orðinn þreyttur á kliðnum frá sjónvarpinu, slökkti á því og las yfir bloggið mitt.
 
Þetta er búin að vera mjög góð helgi og góð var kyrrðin eftir að ég slökkti á sjónhvarpinu.
 
 
 
Ps. Það var all ítarleg frétt í sænska sjónvarpinu í vikunni um gosið í Holuhrauni og stórkostlegar myndir fylgdu fréttinni. Mér þótti sænska sjónvarpsfólkinu takast ótrúlega vel til með hin erfiðu íslensku orð eins og til dæmis Vatnajökull, Holuhraun og Bárðarbunga.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0