Ég vaknaði upp og fór að hræra aftur

Ég var að leita að einhverju í ísskápnum mínum í morgun og velti allt í einu fyrir mér af hverju ákveðnar krukkur voru á þeim stað þar sem þær voru. Jú, alveg rétt, ég hafði fært þær síðast þegar ég bakaði pönnukökur til að koma pönnukökudiskinum með afgangspönnukökunum fyrir þar sem ég vildi hafa hann í ísskápnum.
 
En það er langt síðan hugsaði ég. Rosalega er langt síðan ég bakaði pönnukökur. Ég baka mér pönnukökur í kvöld hugsaði ég og ég fann ilminn af þeim, fann hvernig það er að rúlla upp volgri pönnuköku og fann þetta indæla mjúka bragð sem hefur gert bragðlaukana glaða í sjötíu ár. Já, ég ákvað að baka mér pönnukökur í kvöld. Ég skyldi borða góðan hádegisverð, svolítið seint, og svo skyldi ég hafa pönnukökur í kvöldmat. Lífið varð bara gott.
 
Annars er lífið bara gott. Víst kem ég stundum inn í þá stemmingu, kannski dálítið oft, að ég óskaði mér þess að aðstæðurnar væru öðru vísi en þær eru. En það eru bara vissar aðstæður eins og þær eru og sumu af því verður ekki breytt og svo er spurning hvort það sé rétt að breyta öðru. Hafragrauturinn var byrjaður að sjóða í pottinum, ég lækkaði strauminn og hrærði hægt í grautnum og var annars hugar.
 
Ég var alveg með það á hreinu hvað ég ætlaði að fara að gera eftir rólegan morgunverð. Ég var harðánægður með það sem ég ætlaði að fara að gera og það besta var að ég hafði byrjað á því í gærkvöldi. Það er svo gott að vera kominn af stað með suma hluti. Það er bara að byrja og þá hverfa hindranir úr vegi. Ég er alveg að verða kominn á það stig hér heima á Sólvöllum að allt sé eins og það á að vera. Svo get ég haft það notalegt og snúið mér að mörgum smáatriðum sem ég á eftir en sem ég tek ekki eftir nema öðru hvoru. Aðkomufólk sér það alls ekki. Svo get ég líka leikið mér frjálslegar en ég geri í dag.
 
Það eru rúmlega tvö og hálft ár þangað til ég verð sjötíu og fimm ára og ef ég fæ að vera með um það, sem ég vil svo gjarnan, þá get ég verið ánægður með það sem ég hef tekið mér fyrir hendur hér á Sólvöllum. Hvert ár eftir það verður svo bara ríkidómur og bónus fyrir það sem ég hef gert. Engin krafa er falin í neinu, bara að vera þakklátur og sáttur við aðstæðurnar eins og þær eru. Konan sem var á Sólvöllum áður en við Valdís keyptum var hér á hverju ári frá maí og fram í september í rúmlega fjörutíu ár. Mörg síðustu árin var hún ein, án bíls og síma.
 
Þá voru höggormar undir húsinu og hún náði til þeirra, dró þá fram og DRAP þá. Síðasta sumarið sitt hér var hún áttatíu og fjögurra ára. Hún var áttatíu og fjögurra ára. Ja hérna. Ég var ekki alveg heima þegar hér var komið og grauturinn var farinn að festast við botninn  í skaftpottinum. Sleifin var kyrr í hendi mér. Ég hafði dottið út, vaknaði upp og fór að hræra aftur.
 
 
 
Það er komið kvöld og ég er búinn að baka pönnukökur, pínulitla uppskrift af pönnukökum. Svo borðaði ég pönnkökur í þvílíku magni að mér dettur ekki íhug að segja frá því. Eitthvað verð ég að hafa út af fyrir mig. En það var algjör hátíð. Ég fór í sturtu fyrst og í sunnudagafötin. Svolítið var ég lágur í dag, en þegar þessi pönnukökuhátíð gekk í garð, þá bara kom sólin upp þó að kvöld væri komið. Stundum þarf svo lítið. Ég hefði átt að kveikja á kerti líka.
 
Ég baukaði bakvið Bjarg í dag. Þar hef ég lagt margt frá mér alveg frá því síðastliðnum vetri. Og ég hef ekki bara lagt frá mér, ég hef hreinlega kastað hlutum þangað, hlutum sem ég hef ekki gefið mér neinn tíma til að ganga frá. Þannig á ekki að vera á Sólvöllum eins og ég hef oft komið inn á áður. Á Sólvöllum á umhyggja að ríkja á öllum sviðum. Þá get ég svo sannarlega haldið stórhátíð sumarið sem ég verð sjötíu og fimm ára. Ég þarf ekki að drepa neina höggorma því að ég sé þá aldrei, sé bara snáka hér. Það komast heldur ekki nein dýr undir húsið lengur. Ég mundi líka draga það við mig að drepa höggorm. Ég hefði gert það fyrsta árið mitt hér en þá var ég heldur ekki nema hálffullorðinn maður. Núna er ég fullorðnari.
 
Hér með ætla ég að horfa á þátt í sjónvarpinu, ekkert sem ég geri daglega, en í dag voru pönnukökur á Sólvöllum og ég læt einn sjónvarpsþátt fylgja með í kaupunum. Svo ætla ég að ljúka verkefninu bakvið Bjarg á morgun og svo get ég gengið nokkur skref til baka og horft yfir vetvanginn og verið glaður. Það getur aftur gefið tilefni til að borða afganginn af pönnukökunum.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0