Ellilífeyrisþegi að fullu þessa dagana

Nú er föstudagskvöld og ég hef verið ellilífeyrisþegi í fullu strfi í tvo daga. Það er kannski hægt að misskilja þetta en ég hef ekki verið í vinnu í tvo heila daga og þá hef ég bara verið ellilífeyrisþegi. Notalegt hefur það verið og ég vinn við að ná í skottið á mér hvað varðar allt mögulegt sem sat á hakanum hjá mér.
 
Þetta eru brómberjarunnar þarna á myndinni. Ég átti til dæmis eftir að reita frá öllum runnum og blómum sem hér er að finna. Það er að vísu lítið af blómum og það var ég þakklátur fyrir í gær meðan ég hamaðist við að reita. Sem dæmi um annríki ellilífeyrisþegans, þá hafði ég ekki tíma til að taka þessa mynd fyrr en það var orðið dimmt. Að vísu ýkt. Grasið var komið allt of langt upp með runnunum sem segir að jörðin er frjósöm.
 
Núna er það í fyrsta sinn á sumrinu sem ég hef slegið lóðina nákvæmlega eins og ég vil gera. Hún var orðin of loðin sums staðar og ég er búinn að slá suma bletti þrisvar sinnum, bara til að salla niður grasið. Ég vildi ekki raka því saman og bera í burtu, ég vildi að lóðin fengi það til næringar og svo varð. Allt sem ég hef reitt hef ég kastað út á grasið, látið það þorna og svo hef ég farið með sláttuvélina nokkrum sinnum yfir það og þar með hvarf það. Einnig smá moldarkögglar sem fylgdu með. Þegar ég var að reita fann ég að jörðin var enn á ný orðin mjög þurr. Ég er búinn að losa mjög margar garðkönnur í gær og í dag. Það er eins gott að það eru til níu könnur. Ég læt vatnið standa um tíma í könnum því að ég vil ekki vökva með ísköldu vatni.
 
Valgerður bað um að fá að sjá brómberin og fleira af því sem móðir jörð hefur verið að gefa af sér hér í sumar. Ég fer einu sinni til tvisvar sinnum á dag með glas og tíni brómber sem eru að þroskast mjög hratt núna. Á myndinni sést að sum berin eru ekki fullþroskuð. Ef ég geymi þau í birtu hálfan til einn dag verða þau svört. Ég spurði á Facebook í dag hvernig ég ætti að bera mig að því að frysta brómber og ég fékk svar frá gömlum atvinnuliðsforingja. Hann er ábyggilegur maður og ég gerði eins og hann sagði. Um daginn fór ég með brómber til Stokkhólms og Rósa notaði þau í berjapæ sem smakkaðist mjög vel í fimm ára afmæli.
 
Hér er líka uppskera. Til vinstri grænt zucchini, þá grasker og svo gult zucchini. Næst eru brómberin. Það eru kannski til önnur nöfn yfir þetta en ég geri það einfalt og kalla mikið zucchini. Súkkíní segi ég. Græna súkkíníið sem er lengst í burtu lenti að stórum hluta í matarpottunum mínum áðan. Ég leitaði að uppskrift með ýsu og súkkíní. Svo átti ég ekki allt sem til þurfti samkvæmt uppskriftinni og ég breytti því mesta, mikið fyrir eigin sérvisku. Uppskriftin sagði þorskur en ég var búinn að þýða ýsu.
 
Ég átti að nota krossaða tómata en notaði tómata sem ég brytjaði niður og svo tómatsósu með. Ég átti að nota sítrónu en átti ekki og kreysti því safa úr einni klemtínu í pottinn í staðinn. Svo bætti ég eplum í að eigin geðþótta og svolítinn rjóma notaði ég, líka vegna eigin sérvisku. Sérviskan tók líka með dálítinn bita af engifer. Þegar suða var komin upp í sullinu lagði ég ýsuna ofan á og sauð í fimm mínútur. Úr varð mikið góður matur og afgangur til hádegisins á morgun. Þetta varð svolítið sætt en engan notaði ég þó sykurinn. Ég kenndi um tómatsósunni og klementínunni. Ég er viss með að gera þetta aftur en þá þarf ég að vera búinn að kaupa hvítlauk. Svo get ég líka bætt í brokkólí.
 
Einangraða moltukerið til hægri keypti ég og setti upp fyrri hluta sumars. Nú er það búið að fá maka sem líka er einangraður. Kerið til vinstri keypti ég um mitt sumar en setti það ekki upp fyrr en í dag. Það virðist vera halli á kerjunum en svo er ekki. Ég notaði hallamál. Þau eru langt frá því að vera gefins þessi ker en öll gróðrarmoldin sem ég er búinn að kaupa í sekkjum í sumar og öll keyrslan með hana er ekki gefins heldur. Ég á moltukvörn sem ég get mulið greinar með og ég á næstum óendanlegt magn af greinum. Úr þeim ásamt öðru get ég fengið mikið af mold. Ég vona bara að ég nái góðu lagi á að framleiða þessa mold.
 
 
 
Þetta er smá skýrsla yfir hluta af ellilífeyrisþegabauki mínu. Það er margt annað og allt er mér það einhvern veginn áhugavert. Fyrir nokkrum árum eftir fyrstu bygginguna okkar hér á Sólvöllum náði óreiðan langleiðina fram undir veg. Svo færðist hún upp að húsveggnum nær veginum, síðan inn með húsinu og svo bakvið húsið, og nú nálgast að óreiðan sé að verða komin að skógarjaðrinum. Þegar hún kemur alveg að skógarjaðrinum verður engin óreiða eftir. Þá verða Sólvellir eins og draumsýnin hefur alla tíð verið um þennan stað. Það hefði verið gaman ef Valdís hefði fengið að vera með alla leiðina því að þetta var draumurinn hennar líka.
 
Ég vona að mér takist að komast í týtuberjatínslu á morgun. Málið er að verða með góðan týtuberjaforða í frysti fyrir veturinn en ég er bara kominn með þrjá lítra enn sem komið er.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0