Að vernda útsýnið

Að vernda útsýnið
Hér gefur að lita mikilvægan hluta af útsýninu á Sólvöllum. Á miðri mynd er svolítil opnun milli nágrannaskóga sem er mikilvægur gluggi að útsýninu til Kilsbergen. Næst á myndinni er gamalt tún sem er slegið einu sinni á sumri einungis til að halda túninu í hirðingu og koma í veg fyrir að það verði skógi vaxið. Heyrir undir nokkuð sem kallast opið landslag. Í miðju þessa túns, aðeins til hægri á myndinni, er grjóthaugur og í grjóthaugnum vex þyrping af reyniviði sem var farinn að byrgja fyrir útsýnið. Þessi reyniviður var varla sýnilegur þegar við keyptum Sólvelli fyrir fjórum árum. Við höfðum við samband við hjón í Örebro sem eiga þetta tún (sú eign er saga út af fyrir sig) og fengum leyfi til að fella reyniviðinn. Seint í fyrrahaust fórum við því á vetvang með sögina og felldum reyniviðinn og þá opnaðist útsýnið svo mikið að það varð stórbreyting. Þá kom auðvitað í ljós að nokkur birkitré sem uxu þétt saman og eru lengra frá höfðu líka stækkað helling á fjórum árum og voru hindrun í þessu útsýni. Við ákváðum því að tala við hann Arnold bónda sem á svæðið þar sem þessi birkitré eru og semja við hann um að fá að taka þau. Fyrir nokkrum vikum var Arnold að grisja í þéttum birkiskógi sem er þarna sjáanlegur hægra megin á myndinni. Ég rölti til hans og spurði hvort ég mætti ekki fella þessi birkitré til þess að halda við hinu fallega útsýni frá Sólvöllum. Arnold tók þessu gætilega eins og hann gerir alltaf. Við gengum á staðinn og þar gaf hann leyfi til að ég felldi trén og hann hirti þau svo með því sem hann var að grisja. Þá spurði ég hvort ég mætti ekki líka taka háa runnakennda þyrpingu sem var lengra niður á sléttunni en þar setti Arnold stopp. Hann hélt reyndar fyrst að ég væri að sníkja í eldinn en skildi síðar að svo var ekki. En svo dróst að ég felldi birkið. Í gær fór ég á Sólvelli til að smíða. Þegar ég fór framhjá býli Arnolds sá ég að hann var byrjaður að sækja viðinn inn í skóginn. Þar með breyttist smíðaáætlun dagsins í skógarhögg.

Meðan ég var að vinna við birkitrén kom Arnold til að eiga svolitla spjallstund. Við töluðum um skóg og skógarvinnu og um ýmsar trjátegundir. Þú, sagði Arnold rólega, hlúðu að eikunum í skóginum hjá þér. Það er ekki svo mikið af eikum hér í nágrenninu að það væri gaman að þú gæfir þeim kost á að verða að trjám. Þetta var nú við mitt hæfi, að maður eins og Arnold talaði um skóginn minn og eikurnar mínar. Mér fannst ég vera orðinn virkilegur skógarbóndi eins og Arnold og Mikki og væri með í umræðunni. Reyndar svona í laumi finnst okkur Valdísi að við séum smá skógarbændur.

Á lóðamörkunum á Sólvöllum er stór eik sem vitað er að er rétt um 100 ára gömul. Hún er því hálfgerð ungeik ennþá en þær verða gjarnan 400 ára og eldri. Í Sólvallaskóginum eru einar 12 eikur sem eru 5 til 15 metra háar og eru því ennþá meiri ungeikur. Um allan skóginn er svo urmull af minni eikarplöntum sem keppa við margar aðrar plöntutegundir um að ná sem best til sólarinnar. Jú, það er rétt hjá Arnold að það er mikið af eik á Sólvöllum. En þessi 12 tré sem eru 5 til 15 metra há voru hálf eða alveg kaffærð þegar við tókum við Sólvöllum og þá í fyrsta lagi af greni, ösp og reyniviði. Fyrstu tvö árin felldum við alveg óhemju mörg reyniviðartré til að frelsa eikur. Nú eru þær að launa fyrir þá aðgerð með sífellt stækkandi laufkrónum. Eitt sinn þegar Arnold kom til okkar í kaffi barst þetta með reyniviðinn í tal. Þá sagði Arnold að reyniviður væri bara bölvað skítatré. Það gekk alls ekki að fáu upp plöntur af reynivið sem stóð við gamla bæinn á Kálfafelli en hér kemur hann upp í mikið ríkari mæli en menn kæra sig um.

Eik, beyki, hlynur, lind og fleiri tré eru kölluð eðallauftré. Eik vex hægt en hlynur all hratt. Þar sem við Valdís erum á sjötugs aldri kaupum við stór tré ef við kaupum tré. Fyrsta sumarið á Sólvöllum keyptum við lind sem átti að verða dekurtré. Þegar við vorum búin að gróðursetja hana hugsuðum við sem svo að við fengjum ekki að sjá hana verða að stóru tré en hins vegar gætu barnabörnin okkar komið til Sólvalla á efri árum með barnabörnin sín til að sýna þeim þessa fallegu lind sem langalangamma þeirra og langalangafi hefðu gróðursett fyrir fjölda mörgum árum. En það tókst ekki vel til með þessa lind og hún hefur einhvern veginn orðið fyrir ýmsum áföllum og tíminn kemur til með að sýna hvort hún verður að virkilega fallegu eðallauftré.
GB


Kommentarer
Auja

Hæ hæ kæru hjón
Það er aldeilis ritgerð hjá þér Guðjón og gaman að lesa þetta. Maður lætur hugann reika fram í apríl og þá fljúgum við til Köben(23.04) keyrum yfir til Skåne, og spilum golf þar alla helgina og heim aftur á mánudeginum. Styttir tímann okkar þar til við komum til Örebro síðustu vikuna í júlí.
Kveðjur úr snjó og kulda í Kristnesi.
Bestu kveðjur
Auja

2008-03-06 @ 14:44:39
Guðjón

Þetta verður nú forskot á sumarið hjá ykkur því að þá verður sjálfsagt komið sumar niður í Skåne. Gaman að heyra frá þér Auja. Við vorum að koma úr sveitinni og nú er nautagúllas tilbúið og lyktar afar vel.
Með bestu kveðju frá stugufólkinu

2008-03-06 @ 19:09:26
URL: http://www.gudjon.blogg.net


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0