Að láta kyrrðina umvefja sig

Á tíunda tímanum á morgun ek ég úr hlaði áleiðis til Vornes. Ég geri mér vonir um að verða þar að liði þó að mér finnist núna í augnablikinu að það muni ekki verða. En það er svo skrýtið að þegar ég kem á þennan undarlega stað, þá skeður eitthvað. Eftir öll ár í Vornesi er eitthvað sjálfvirkt í mér sem fer í gang þegar ég ek þar inn gegnum trjágöngin og svo verður allt einhvern veginn öðru vísi en það var til dæmis kvöldið áður, eða um morguninn áður en ég lagði af stað. Er það ekki kamelljónið sem breytir um lit eftir umhverfinu? Ætli það sé ekki mögulegt að fólk breyti um hluta af eiginleikum sínum með tilliti til þeirra staða þar sem það er statt. Ég kem til með að duga til vinnunnar minnar í Vornesi á morgun eins og flesta daga þar á mörgum liðnum árum.
 
Annars veit ég ekki hvers vegna í ósköpunum ég fór inn á bloggið og valdi "Að skrifa" og byrjaði svo að skrifa. Mér væri nær að fara að leggja mig og vakna svo betur úthvíldur í fyrramálið. En þar sem ég nú skrifa þetta er Óli kominn í nágrennið, jafnvel inn í herbergið til mín, og þá er erfitt að standast hann. Það er ýmislegt sem er erfitt að standast. Til dæmis þegar Hannes kom til mín út á Bjarg í dag, tók í hendina á mér og sagði, "afi komdu". Svo fylgdumst við að inn haldandi hönd í hönd og svo leiddi hann mig að borði þar sem hann var að setja saman lest úr legókubbunum sem hann fékk í dag. Það er langt síðan, en í dag hef ég byggt úr legókubbum. Samt kláraði ég það sem ég ætlaði mér að gera út á Bjargi.
 
Út á Bjargi var ég að undirbúa baðgólfið fyrir flotun. Það er von á að fólk gisti á Bjargi í sumar og þá er best að það hafi baðið til afnota. Ekki neita ég því heldur að það er alltaf gaman að ljúka áfanga. Rósa lauk líka áfanga í dag. Hún tók inn þann rabbarbara sem sem hefur vaxið í sumar á hnausunum sem ég keypti í fyrra. Svo sauð hún sultu Þar sem ég nú sit hér inni í herberginu mínu og blogga, þá sitja Rósa og Pétur frammi í eldhúsi og vinna á sínar tölvur. Það er algerlega hljótt og ég tel mig vita að það fari vel um okkur öll.
 
Þar með ætla ég að láta skynsemina ráða, leggja mig og láta kyrrðina umvefja mig.


Kommentarer
Björkin.

Hvíld er góð mágur minn.Kveðja.

2013-07-03 @ 12:41:21


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0