Af Brodda og ýmsu öðru

 
Hún Karin vinkona Rósu og Péturs kom í heimsókn til þeirra í gær. Hún auðvitað gisti í gestaherberginu á Bjargi og gaf því úrvalseinkunn. Karin er fróð um alls konar matjurtir, berjarunna og margt fleira. Hún deildi út þessari vitneskju sinni meðal okkar og hún fór einnig með Rósu í berjatínslu í gær. Smá stund voru þær og komu heim með svo mikið að við kláruðum það ekki sem eftirrétt. Eftirrétturinn var íslenskt skyr sem er orðin vinsæl fæðutegund hér og út í skyrið blönduðum við bláberjunum sem voru líka svolítið blönduð með viltum jarðarberjum. Nammi gott var það.
 
Síðdegis í dag fór svo Rósa með Karin á járnbrautarstöðina í Hallsberg. Hannes fór með og nú fær hann að sitja í bílastólnum sínum í framsætinu og þykir ekki leiðinlegt. Hann vildi að vísu ekki horfa á mig þegar ég tók myndina þannig að við fáum ekki að sjá á honum ánægjusvipinn.
 
Ég baukaði við að loka undir húsið, þetta verk sem ég hef oft talað um áður. Það er óþægilegt skítverk sem hefur legið lengi á mér en nú er það hafið. Þegar því verður lokið liggur mér við að segja að eftir það geti ég gengið dags daglega á sunnudagafötunum hér á Sólvöllum. En Pétur sýslaði við annað. Í fyrradag réðist hann í að fjarlægja einhver hundruð greina sem fylgdu birkitrjánum fimm sem felld voru um helgina.
 
Þetta er heilmikið verk og í dag hélt Pétur því áfram og dró líka einhver býsn af greinum út í skóg. Það eru margs konar störf sem þarf að inna af hendi í sveitinni, líka þó að ekki væri verið að bauka við byggingarvinnu.
 
Rósa fór i litla kartöflugarðinn og sótti þessar fínu kartöflur í kvöldmatinn. Hún setti líka niður aðra umferð af kartöflum um helgina ef mögulegt væri að fá aðra uppskeru áður en haustið gengur í garð. Það er alla vega tilraunarinnar virði.
 
Svo er það þetta með broddgaltartilraunina. Hún virkar svo vel að nú eru broddgeltir hér á vappi, ekki bara einstaka sinnum, heldur heldur fram og til baka nánast allan eftirmiðdaginn í dag. Þeir eru bara svo velkomnir greyin og skemmtilegir eru þeir. Karin sýndi þeim líka stóran áhuga meðan hún var hérna. Broddgeltir eru síðdegis- og kvölddýr.
 
Svo er það ekki bara einn broddgöltur. Þeir hafa mikið verið tveir á ferðinni í einu í dag.
 
Óli L smeygði sér inn til mín svo lítið bar á en þó að það færi lítið fyrir komu hans finn ég heldur betur fyrir henni. Ég er orðinn grútsyfjaður. Ég ætla að hlýða honum og þegar ég verð búinn að birta þetta skal ég bursta og pissa og leggja mig svo á koddann. Ég reikna ekki með að ég geti lesið, það verður mér um megn.


Kommentarer
Björkin.

Mikið eruð þig dugleg Sólvallarfjölskylda.Við vorum að koma úr vikudvöl í Skorradalnum ,pússa og bera á glugga og slá og klippa.Góða nótt og knús á ykkur öll.Þeim hefur fjölgar Broddunum hjá ykkur.Fallegir greyjin.

2013-07-20 @ 23:30:50


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0