Að lifa lífinu og dreyma græna drauma

Það var spurning í morgun hvort ég hálf skammaðist mín. Það var orðið vel áliðið í gærkvöldi þegar ég var að monta mig af því á blogginu mínu hvað ég væri búinn að koma miklu í verk. Svo ætlaði ég aldrei að komast af stað þennan blíðviðrisdag sem nú er hálfnaður en samt biðu mín ótal verkefni. Og þegar ég hugsaði ótal verkefni komst ég að þeirri frábæru niðurstöðu að búa til lista yfir verkefni nánustu framtíðar hér á Sólvöllum. Að skrifa niður í belg og biðu að byrja með og ganga svo í það síðar að raða niður i forgangsröð.
 
Svo sneri ég mér að því að ganga frá ýmsu hér innanhúss, hengja út ullarfeldina mína og enn eina þvottavél líka, taka mat út úr frysti handa fólkinu sem ætlar að koma til mín í dag og svo framvegis. Ekkert gerði ég af dugnaði heldur dundaði ég við þetta. Svo þegar ég var búinn að hengja út á snúruna tóku tær mínar stefnu út í skóg og hinn hlutinn af mér fylgdi á eftir. Ég staldraði við á mörgum stöðum, horfði upp eftir trjám, sá að sums staðar þurftu ákveðin tré að víkja fyrir öðrum og sums staðar var ég ekki viss um það hver ætti að víkja fyrir hverjum.
 
Svo allt í einu var eins og ég kæmi heim aftur eftir fjarveru. Draumar mínir þarna í öllu græna hafinu höfðu numið mig á braut og þar virtist ég hafa dvalið um stund. Svo þegar ég var kominn til baka aftur þótti mér sem grænir draumar væru einungis mikið góðir draumar. Ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af skuldbréfaeign minni þar sem ég á engin, ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af óreiðu af neinu tagi, ég var ekki í ósætti við nokkra manneskju, ég kveið ekki fyrir morgundeginum og hafði ekki samviskubit vegna gærdagsins. Því var bara svo gott að dreyma græna drauma og svífa um á vængjum þeirra, bara vera til um stund og lifa á stund augnabliksins eins og okkur raunar öllum ber að ástunda sem mest.
 
Bara ef lífið almennt væri svo einfalt. Þeir sem hafa áhyggjur af skuldabréfaeign sinni, þeir sem eru í ósátt við náungann eða nágrannaþjóðina, berjast við að ná undir sig sem mestu af hráefnum heimsins því að þeir þurfa að græða meira, þeir sem hafa áhyggjur af morgundeginum og eru bitrir út í gærdaginn og sérstaklega þeir sem eru dauðhræddir við lífið og tilveruna, þeir berast á banaspjótum og fella mann og annan. Þess vegna eru til stríð. Í grænu draumunum mínum úti í Sólvallaskóginum í morgun var ekkert af þessu fyrir hendi og þar fundust engin stríð. Hins vegar er von á gestum og hann nafni minn hefur kíkinn sinn með sér þar sem hann ætlar að sjá og rannsaka öll dýr sem hrærast kringum Sólvelli.
 
Áðan settist ég niður við tölvuna til að skrifa niður tvo minnispunkta fyrir hugsanlegt blogg seinna í dag. En svo hófust nýir draumar. Nú dreymdi mig að ég væri heimspekingur og að orð mín væru svo mikilvæg að ég mætti ekki hætta að skrifa fyrr en ég væri búinn að bjarga heiminum. Nú er ég vaknaður aftur og listinn sem ég talaði um áðan þarf að verða til. Ef eitthvað truflar mig eru það verkefnin sem ég hef ekki alveg reiður á. Þegar ég verð búinn að skipuleggja þau get ég látið mig dryma græna drauma eða látið mig dreyma við að sjá orðin fæðast á skjánum fyrir framan mig. Samtímis get ég litið út í ferskan skóginn sem bærist undur mjúklega í hægum sumarandvaranum. Það byggist í fyrsta lagi á sjálfum mér hversu vel ég get lifað lífinu, það er að segja svo lengi sem mér er úthlutað góðri heilsu.
 
Fólkið sem er að koma til mín er farið af stað frá Stokkhólmi og ég er þegar búinn að fá símsenda mynd af honum nafna mínum um borð í lestinni. Fólk hefur alltaf vikið góðu að mér, finnst mér alla vega á þessu augnabliki. Og nú undanfarið hefur fólk vikið ennþá meira góðu að mér. Ég á góða að og ég á alveg dásamlega vini. Það stóð einu sinni á deginum mínum í afmælisdagabók að ég ætti fáa vini en góða. Mér fannst löngum sem þessi orð væru ótrúlega sönn. Nú held ég að þau séu sannari en nokkru sinni fyrr. Mér þykir mikið vænt um fólk.
 
Nú þarf ég að undirbúa gestakomu.


Kommentarer
Björkin.

Góður gestgjafi,og vinur.Kær kveðja til allra á Sólvöllum.

2013-07-01 @ 21:52:16


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0