Til móts við efri árin

Martin kom í gær eins og ég talaði um í fyrradag. Hann kom til að laga kringum Bjarg sagði ég en það var fleira á verkefnalistanum. Nokkur 20 metra há birkitré hérna bakvið húsið voru miklir langskankar. Það er að segja að krónan á þeim byrjaði ekki fyrr en mjög langt uppi. Þannig verða tré gjarnan í illa hirtum skógi. Þegar Martin kom hér um daginn sýndi ég honum þessi tré og spurði hann hvort hann gæti hjálpað mér við að ná þeim niður án þess að þau brytu mikið og brömluðu kringum sig. Hann hélt það nú.
 
Martin vildi byrja á þessu með trén og svo gerðum við. Á myndinni er hann að koma með eitt þeirra út úr skóginum, reyndar það síðasta. Hann spurði hvort það væru fleiri tré að taka niður og þegar ég sagði svo ekki vera sagði hann að hann vildi gjarnan halda þessu áfram því að þetta væri svo gaman. Ég skildi hann alveg. Hann hélt þeim standandi í jafnvægi meðan hann var að koma út úr skóginum og það hefur sjálfsagt verið eins og að iðka jafnvægisíþrótt. En fleiri tré fékk hann ekki að taka og svo hófst vinnan við Bjarg.
 
Svona var þar á bakvið, ótútlegt og illa hirt. Tréð þarna út við hornið er eik sem er búin að vera mörg ár að vaxa -áratugi. Eikur vaxa ekki hratt. Hinu megin við hornið er líka eik sem ekki fæddist í gær. Jafnöldrur gæti ég trúað að þær væru -eða hafi verið
 
Svona leit það út eftir að Martin hafði verið þarna á ferð með tæki sín og verkvit. Hann er lipur tækjamaður og maður með gott verkvit. Það er gott að spyrja hann ráða.
 
Ég að vísu spurði hann ekki ráða hvað magnið af möl varðar í planið þarna bakvið húsið. Ég held að hann hafi nú talið að ég væri full ónýskur á efnið en ég vildi bara hafa þetta vel úr garði gert. Á planinu bakvið Bjarg á að kljúfa við, hafa viðarskýli, geyma það sem ekki er hægt að setja í hús og svo ætla ég að smíða lipran kassa yfir vélsögina mína og hafa hana þarna.
 
Pétur hefur svitnað við að klippa og saga greinar af trjánumm sem voru felld í gær, einnig að bera greinar út í skóg. Hann var líka til hjálpar við fráganginn kringum Bjarg eftir þörfum. Það var mjög kynskipt verkaskipting hér í gær og frameftir í dag. Það féll nefnilega í hlut Rósu að sjá okkur karlpeningnum fyrir mat og miklu vatni að drekka. Það var ekki til umræðu, það bara varð þannig. Martin var hér framundir hádegi í dag og ég að mestu með honum. Svo hef ég verið að undirbúa sáningu og byrja að sá.
 
Þegar maður á heima á "sveitabæ" þarf að ýmsu að hyggja og nú er að verða fullbyggt á Sólvöllum. Það er fullt af minni verkefnum út þetta ár og eitthvað lengur en umfang þeirra fer nú minnkandi. Að einu ári liðnu verða það bara einföld viðhaldsverkefni sem gott verður fyrir gamlan og skrýtinn kall að annast til að halda sér lengur í formi. Svo verður skógurinn alltaf til staðar til að hlú að og veita félagsskap. Skógurinn má ekki verða illa hirtur aftur eins og hann var þegar við eignuðumst Sólvelli 2003. Það er um að gera að hafa dálítið að sinna annars verða efri árin léleg og ég hrörlegur og skorpinn. Ég tel mig vel undir þetta búinn.


Kommentarer
Björkin.

Mikið verður flott á Sólvöllum þegar þetta er allt orðið grænt.Dugnaður í fólkinu .Stórt knússs.

2013-07-14 @ 22:23:19


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0