Að búa í Krekklingedalnum

Þegar Rósa og fjölskylda komu þann 1. júlí var ég með færeyskan lax grillaðan í ofni handa þeim. Og hvað svo? Jú, síðan hef ég ekki komið nálægt matargerð utan að elda hafragraut á morgnana, hafragraut með rúsínum og aprikósum. Svo er ég nokkuð duglegur við að ganga snyrtilega frá.
 
Nú er ég vel meðvitaður um að svona létt er ekki hægt að sleppa frá ábyrgðinni til lengdar. Því bauð ég fólkinu í kvöldmat á Brändåsen í kvöld. Það er staður sem þjónar sama hlutverki og til dæmis Staðarskáli en að Staðarskála ólöstuðum er Brändåsen mjög góður staður heim að sækja. Fjölbreytnin er ekki svo mikil en staðurinn er bara svo ótrúlega notalegur.
 
Ferðirnar fram og til baka voru líka alveg frábærilega fallegar og í síðdegissólinni var það hrein unun að aka rólega eftir endilöngum Krekklingedalnum sem stundum er kallaður matarkistan.
 
Krekklingedalurinn er akurlönd, akurlönd og ennþá meiri akurlönd hvert sem litið er og allur gróður sem sést á myndunum er korn af ýmsu tagi, einnig repja, að frátöldum skóginum.
 
Mér fannst að vísu erfitt að sjá það þegar við eignuðumst Sólvelli að Krekklingedalurinn væri dalur. En hann er þó dalur sem hefur lága ása á báðar hliðar. Hæsti staðurinn á ásunum sem mynda dalinn er þar sem Sólvellir standa. Við höfum því útsýni sem margir mundu vilja hafa og ég er mikið stoltur af Sólvöllum eins og oft hefur komið fram.
 
Þegar við komum heim eftir notalega máltíð á Brändåsen var nýi fjölskyldumeðlimurinn, Broddi, mættur til matar síns, fyrr en nokkru sinni fyrr. Það þýðir að hann er farinn að líta á matargjafir okkar sem sjálfsagðan hlut. Á myndinni er Broddi að fela sig og virðist halda að þarna sé hann ósýnilegur. Við höfum rætt um það hvers vegna Broddi er alltaf einn og höfum komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé kannski "hún Brodda" og sé ef til vill ófrísk. Ef svo er, er ábyrgð okkar mikil. Þá verðum við að forðast að styggja Broddu og fjölskyldu vegna þess að ef of mikil styggð kemur að fjölskyldunni getur farið svo að hún éti unga sína í ofurstressi. Það væri mikið leiðinlegt og ef rétt er, er það á allra fyrsta skeiði unganna sem það getur skeð. Við vonum það besta.
 
Nú er ég búinn að bursta og pissa og er á leið í rúmið þar sem hann Martin gröfumaður ætlar að koma klukkan sjö í fyrramálið. Það er mikið spennandi verk sem hann kemur til að framkvma og ég hlakka mikið til. Það er að laga til kringum Bjarg og nú þegar eru fimm bílhlöss af ýmsu efni á lóðinni sem nota á í þetta. Það er mikill ljóður á fallegum stað ef hann er ekki vel úr garði gerður og léttur að halda snyrtilegum. Eftir morgundaginn hef ég enga afsökun ef hér lítur ekki vel út.
 
Að vísu þarf að fara hlýjum höndum um þetta allt saman þegar Martin verður búinn með sitt. Það þarf að raka til mold og jafna, valta og raka til og jafna aftur og því verður að halda áfram þar til svæðið verður tilbúið til sáningar, slétt og vel út garði gert. Svo þarf að vökva vel þangað til grasfræið kemur upp og auðvitað eitthvað lengur. Þetta verður svolítið að skapa nýtt landslag og það er mannbætandi að fást við slíkt ef það er gert af umhyggju.


Kommentarer
b

Ekki efast ég um að nýræktin fái hlýjar hendur.Bíð spennt eftir myndum.Alltaf er notarlegt sé ég í Staðarskála.Á góðar minningar þaðan.Góða nótt og gangi ykkur vel á morgun.Stórt krammmmmmmmmmmmþ

2013-07-13 @ 01:44:50


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0