Stór dagur

Það er nú meira hvað alltaf er verið að aðhafast eitthvað hér á Sólvöllum. Það sem var verið að vinna við í dag átti að framkvæmast í maí samkvæmt áætlun sem var í gangi í mars. Svo varð nú ekki en í dag hófst þetta verk fyrir alvöru sem hafði þó verið í undirbúningi nokkra síðustu dagana.
 
Smiðurinn Anders kom klukkan sjö í morgun og það áður en ég var búinn að borða hafragrautinn minn. Hann kom til að hjálpa við að steypa stöpla undir verönd sem á að koma við tvo veggi, eiginlega þrjá. Satt best að segja var það þannig að Anders hafði verið ráðinn til að vinna verkið alveg upp á eigin spýtur en svo urðu breytingar hér á Sólvöllum sem gerðu það að verkum að plönin breyttust. Á myndinni er Anders að velta vöngum yfir einhverju en Hannes er önnum kafinn við að moka grófri möl með rekunni sinni.
 
Hér er það hins vegar Hannes sem er að velta vöngum yfir einhverju, kannski er Anders að hugsa ennþá en eftir líkamsstellingu minni að dæma er ég að reyna að taka mig yfir rauðu snúruna sem Anders er búinn að strengja milli stöplana. Kannski er ég þarna að æfa hástökk aldraðra. Ég veit ekki almennilega.
 
Nú nennir Hannes ekki lengur að vera alltaf að velta einhverju fyrir sér. Hann er kominn á ærlegt strik við moksturinn. Finnst líklega að við hin þurfum að fara að koma okkur almennilega að verki. Að vísu er Rósa með myndavélina þannig að hún er í verki og tók margar skemmtilegar myndir af athöfnum okkar í dag.
 
Og þegar Hannes er búinn að koma öllum almennilega í gang virðist hann vera orðinn nokkuð áhyggjulaus og er farinn að slappa af. Gröfumaðurinn Maritn gróf þessar holur að hluta um næst síðustu helgi. Síðan hef ég verið að dýpka þær og laga og grafa fleiri, gjarnan liggjandi á hnjánum. Ég vandi mig á þann ósið áður en ég fékk nýja mjaðmaliðinn um árið og ég hef einhvern veginn ekki nennt að venja mig af því aftur.
 
Anders var búinn að segja mér í síma að hann ætlaði að klára að stilla upp mótunum fyrir stöplana og steypa í þau á einum degi. Þetta voru 24 stöplar og mér fannst það ótrúlegt en vissi jafnframt að þegar Anders gefur upp tíma, þá stenst það alltaf. Svo var allt búið um hádegi. Það eru viss verk þar sem Anders er eigninlega ómissandi. Hann er góður verkstjóri og mikill verkmaður. Við viss verk finnst mér hann vera full fljótur en ég verð samt glaður þegar ég borga reikningana frá honum að þeir skuli ekki vera hærri en þeir eru. Það eru mörg verkin sem ég gæti vel unnið sjálfur, en þegar það finnst maður sem er mikið, mikið fljótari að ljúka þeim en ég, þá er í mörgum tilfellum fáránlegt að fá hann ekki til að vinna þau. Svo var með þetta verk og eftir einhverja daga kemur Anders aftur til að smíða pallana á stöplana og svo verður hægt að dansa kringum hálfa Sólvallahúsið.
 
Svo þegar Anders var farinn komst allt í sinn gamla farveg þar sem ég fór hóflega hratt að vanda. Rósa og Pétur gengu í að laga til og koma skipulagi á hlutina eftir þessa snörpu vinnuskorpu. Á myndinni er ég að leggja einangrun að húsvegg gamla hússins í því skyni að útbúa sökkul undir þann hluta. Ég hef oft talað um þennan sökkul og ég held að ég fari ekki nánar út í að útskýra það, það yrði bara þvæla. En það mun breyta húsinu mikið. Einn stöplanna sem steyptir voru í dag sést þarna við hendina á mér og þrír sjást aftan við bossann á mér. Ég varð að byrja með einangrunina á þessum stað til að geta haldið áfram með veröndina. Síðar geri ég svona kringum allt gamla húsið. Eftir það verður það sem nýtt.
 
En það var sitthvað í gangi hér á löngum vinnudegi. Hádegismatarvinkonur Valdísar komu í heimsókn samkvæmt tveggja vikna gömlu samkomulagi. Það var samt ekki vel skipulagt að bæði þær og Anders skyldu vera hér sama daginn. Þær voru yfir sig ánægðar yfir að fá að koma og léku á als oddi. Ein þeirra er meira að segja nýkomin með kærasta og allt hennar fas er gerbreytt. Það var létt yfir henni og hún komin með hárið í þetta líka fína tagl. Rósa annaðist þessa móttöu og bakaði Valdísarpönnukökur. Ég tók mér hins vegar svolitla stund með þeim til að skoða myndir sem þeim leiddist hreint ekki.
 
Þegar kvöldaði bauð ég gestum mínum og aðstoðarfólki í mat á Brändåsen. Þau eru svo miklir kokkar hér heima að ég verð öðru hvoru að grípa inn í með einhverjum úrræðum til að halda virðingu minni. Þarna eru Hannes og mamma hans í mjög athyglisverðum samræðum og ég sé að hann nafni minn talar með öllu andlitinu.
 
Leiðn frá Sólvöllum til Brändåsen er mjög falleg og kvöldið gefur ferðinni og öllu umhverfi sinn sérstaka blæ. Eikur, hlynir og lindar virðast haf það gott þarna á gamla jökulásnum sem myndaðist væntanlega á síðari hluta ísaldarinnar fyrir um tíuþúsund árum. Svo liðast vegurinn eftir há ásnum endilöngum.
 
Þau hafa ekki verið að fæðast í gær þessi tré og þau hafa verið vitni að mörgu gegnum áratugina eða jafnvel aldirnar. Vinnustrit, örlög, sorgir, ástir og ævintýr manna og kvenna eru greypt í árshringina þeirra. Það er hins vegar ekki svo mikið skráð í minningabankann minn á þessari stundu. Hann Óli lokbrá er búinn að vera að sveima hér inni og honum hefur tekist að ná miklu valdi yfir mér og hann er búinn að loka minningabankanum og hæfileikanum til að koma orðum á blað. Ég á því bara um einn kost að velja og það er að fara að leggja mig og óska mér fallegra drauma að lokinni kvöldbæninni ef mér þá tekst að koma henni á framfæri.
 
Ég vil svo gjarnan að verkin á Sólvöllum fari að minnka og í staðinn get ég vel hugsað mér að sitja meira við tövuna á tímum sem Óli er ekki að narta í mig og skrifa þá læsilegri blogg eða gera eitthvað annað sem ekki tilheyrir bara hreinu púli. Verkin eru líka að minnka og eftir að verandirnar verða tilbúnar nálgast það meira að það séu bara smá hlutir að vinna að og svo venjulegt viðhald og að sjálfsögðu umhyggja varðandi skóginn. En þó að ég tali um púl, þá er það alls ekki af hinu illa. Mikið af því sem ég kalla púl hér í þessu bloggi hafa verið verkefni sem voru samt sem áður skemmtileg og alveg sérstaklega þegar þeim var lokið. Það er gaman að ganga aðeins til baka og horfa á tilbúið verk og vera ánægður með árangurinn.
 
Ps. Þetta blogg skrifaði ég að mestu í gær og þá hálf sofandi. Nú er ég búinn að bæta og laga með afar fallegt útsýni fyrir framan mig.


Kommentarer
Björkin.

Rosalega ert þú mikið hraustur og duglegur mágur minn.Verkin tala.Sólvellir eru að verða flottari en Slottin hjá kóngafólkinu.Stórt krammmmmmmmmmmm .Ekki slæmt að hafa gott aðstoðarfólk.

Svar: Ég er við mjög þokkalega heilsu mágkona en hvort ég er duglegur! Ég mundi frekar velja að segja að ég seiglaðist og þráaðist. En þetta gengur allt vel. Kveðja héðan í bæinn þinn og kram frá Sólvöllum.
Gudjon

2013-07-24 @ 13:36:10


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0