Gusugangur

Þegar það var aðeins farið að bregða birtu mundi ég eftir því að ég ætlaði að gefa broddgeltinum eggjarauðu. Ég tók fram egg, braut og losaði á undirskál. Svo saug ég rauðuna upp í plastflösku, lagði flöskuna til hliðar og tók undirskálina til að losa hvítuna í vaskinn. En hvítan vildi ekki vera svo lengi á undirskálinni og fór í löngum boga út á eldhúsbekkinn. Fyrst dró ég það mesta í vaskinn með hendinni. Þá tók ég borðtusku, setti undir kranann og bleytti. Svo þegar ég ætlaði að vinda hana jós ég stórri vatnsgusu í annan boga út á eldhúsbekkinn. Með rósemi tókst mér þó koma þessu í lag og eggjarauðunni kom ég út í von um að broddi njóti hennar.
 
En þessu gat ég tekið með æðruleysi þar sem margt annað hefur gengið vel hjá mér í dag. Til dæmis það sem sést á myndinni fyrir neðan.
 
Við keyptum sams konar vegghengt klósett fyrir íbúðarhúsið árið 2006 og það sem sést á myndinni. Það kom í þremur pakkningum og var nokkurn veginn samansett og tilbúið til uppsetningar. Þetta klósett sem ég keypti á Bjarg kom í einum stórum kassa og í þeim kassa voru margar pakkningar og það var beinlínis óskiljanlegt hversu margir hlutir ultu út úr þessum pakkningum. Það var varla byrjað að setja það saman. Svo fylgdi teikning og hún var með öllu óskiljanleg. Mér féllust hendur og það drógst á langinn að ég fengi í mig kraft til að byrja.
 
Svo herti ég mig upp hér um daginn og tók einn hlutinn af öðrum í hendurnar og reyndi að komast að samkomulagi við teikninguna. Það gekk ekki. Þá reyndi ég að bera hlutina hvern við annan og þá allt í einu komst ég af stað. Svo tók þetta alls ekki svo langan tíma og nú er burðargrindin komin upp á vegg og frárennslið tengt. Þegar ég horfi á myndina get ég varla trúað því hvernig þetta leit út þegar ég tók það úr pakkningunum í upphafi.
 
 
Og inni á baðinu sjálfu er allt tilbúið til að sparsla og ganga frá veggnum. Svo má píparinn koma og vinna sitt verk. Ég hefði hins vegar alls ekki tímt að borga honum fyrir það sem ég er búinn að gera. Hann sagðist heldur ekki botna neitt í neinu þegar ég sýndi honum þetta um daginn, stuttu fyrir Íslandsferðina.
 
 
En meðan ég lauk við að setja saman og setja upp burðargrindina fyrir klósettið suðu svið inni í eldhúsi. Þegar ég var tilbúinn út á Bjargi voru sviðin líka fullsoðin. Svo bar ég matinn út í kvöldsólina og borðaði í ró og næði. Hefði einhver Svíi komið til mín meðan máltíðin stóð yfir, þá hefði sá hinn sami kastað upp geri ég frekar ráð fyrir. Ég reyndar skil það alveg. Maður verður örugglega að alast upp við sviðaát til að geta látið þau inn fyrir sínar varir.
 
 
Þetta hafði ég fyrir augunum meðan ég borðaði kvöldmatinn. Ekki sem verst þó að ég væri einn.
 
Ég held að ég hafi stór gott af hvannaafurðunum sem ég fékk hjá honum Bjarna Thór í Hrísey um daginn. Ég er ánægður með það sem ég hef komist yfir í dag. Ég er líka búinn að þvo, þurrka og strauja fernar buxur og þrjár skyrtur. Þar að auki er ég búinn að fara í innkaupaferð því að það koma gestir á morgun og sitthvað fleira hef ég komist yfir. Í morgun hefði mér ekki dottið í hug að þetta kláraðist. Já, ég hef nú trú á hvönninni.
 
Og í morgun horfði ég á sjónvarpsmessuna. Mér fannst hún Moni prestur kannski alveg eins góð og síðasta sunnudag. En ég sá nokkuð í messunni sem fangaði huga minn. Maður einn sat undir svo sem átta ára syni sínum í kirkjunni og þarna sungu þeir feðgar saman, innilega og af lífi og sál. Þannig var það ekki þegar ég fór með foreldrum mínum í kirkju á Kálfafelli fyrir meira en hálfri öld. Þannig var það heldur ekki þegar ég fór með mínum börnum í kirkju í Hrísey fyrir fjörutíu árum eða svo. Ég verð nú samt að segja að ég hefði svo gjarnan viljað að það hefði verið þannig. Það er frábær samvera hjá fjölskyldu þegar fólk getur gert þetta. Ég hef grun um að þetta muni hjálpa feðgunum oft á lífsleiðinni í samskiptum sína á milli.


Kommentarer
Björkin.

Það er alltaf nóg að gera hjá þér mágur minn.Duglegur strákur.Krammmmmmm.

Svar: Kram til baka
Gudjon

2013-07-01 @ 13:07:16


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0