Hannes Guðjón á Sólvöllum

 
Sumarið 2011 var hann Hannes Guðjón nafni minn hér í heimsókn, aðeins tæplega tveggja ára gamall. Þá var hann mikill áhugamaður um allt sem hrærðist á jörðu niðri og maurarnir sem voru á fullu í slóðinni sem við gengum út í skógi tóku hug hans sterkum tökum. Ég er ekki viss um hvor okkar ókyrrðist meira þegar maurarnir tóku að skríða upp eftir fótum okkar en það kom ekki í veg fyrir að það væru farnar fleiri athugunarferðir.
 
Þegar Hannes hins vegar var tæplega eins árs gamall hreinsuðum við steina úr sári sem kom þegar skurðgrafa hafði grafið fyrir nýjum rafmagnskapli heim á Sólvelli. Þá kom jarðfræðingurinn upp í honum. Hann tók gjarnan steinana sem ég tíndi upp í fötu, skoðaði þá á allar síður, sýndi mér, ræddi um þá og talaði mikið sem ég skildi kannski ekki alveg, en það var á hans heimspekimáli sem hann ræddi þessa hluti. Svo henti hann steinunum aftur á jörðina og tók svo til athugunar næsta stein úr fötunni. Hann flýtti ekki fyrir mér en einlægum áhuga hans var erfitt að vísa á bug.
 
Í gær, þremur árum síðar, kom Hannes Guðjón með fjölskyldu sinni til að eiga sumarfrísdaga hjá afa sínum og nafna hér á Sólvöllum. Það er ekki svo langt síðan við hittumst en samt vildi hann vera í faðmi mömmu áður en hann heilsaði mér. Svo gekk hann til mín þar sem ég sat á hækjum mér, hallaði sér upp að mér, og síðan hljóp hann að leikturninum sínum og kleif upp í hann.
 
Það liggur klifurbraut upp í turninn frá annarri hlið og þar fór hann fyrst upp. Síðan renndi hann sér niður rennibrautina en þótti síðan meiri áskorun í því að fara upp hála rennibrautina aftur í staðinn fyrir klifurbrautina. Það gat hann ekki gert á skónum sínum þannig að hann klæddi sig úr þeim, síðan úr sokkunum, setti sokkana snyrtilega í skóna og lagðí þá til hliðar eins og sjá má. Það var engin spurning að sokkarnir skyldu niður í skóna og að gengið væri frá skónum. Afi var hrifinn af þessari röð og reglu á hlutunum.
 
Uppi í turninum höfðu verið geymd tól og tæki. Eftir nokkrar ferðir upp rennibrautina renndi hann þessum tækjum sínum niður hana. Sum þeirra þörfnuðust viðgerðar og hann tók til við það. Skórnir tóku jafnframt að þeytast til og frá en það kom ekki í veg fyrir að hann hafði gengið snyrtilega frá þeim í upphafi. Síðan urðum við svöng og það var borðaður kvöldmatur. Á eftir borðaði Hannes pönnukökur hjá afa.
 
Eftir erilsaman dag verða duglegir menn óhreinir. Þarna var kominn svefngalsi í Hannes og hann ætlaði að fela sig fyrir myndavélinni en tókst ekki. Nokkru síðar var hann sofnaður.
 
Ég vistaði þessar myndir inn á bloggið í gærkvöldi, all nokkru eftir að Hannes sofnaði, en þá var orðið áliðið og ég alveg óskaplega syfjaður. Ég bara gat ekki skrifað texta við þær svo að ég ákvað að byrja morguninn snemma og skrifa þá. Þetta snemma svaf ég dyggilega af mér og þegar ég var svo að skrifa texta við fyrstu myndina heyrði ég kallað frammi: Hvar er afi! Þá var klukkan orðin níu og afi nýlega vaknaður. Standið á honum afa að sofa svona lengi. Engin fyrirmynd í háttarlagi hans.
 
En nú er mál fyrir hafragraut með banana, rúsínum og apríkósum og hvönn frá Hrísey. Það er mikið gott samsull en svoleiðis vill Hannes ekki borða með mér en mamma hans gerir það í staðinn. Líklega sleppir hún þó hvönninni frá Hrísey en það er aldrei að vita. Grautargerðin hefur alltaf verið mín sérgrein og nú er mál að taka til starfa.
 


Kommentarer
Rósa

Enga hvönn fyrir mig, takk!

Svar: Og svo boðraði Rósa enga hvönn:(
Gudjon

2013-07-02 @ 10:24:36
Björkin.

Litli gleðigjafinn mættur í sveitina til afa..Gaman...Krammmmm

Svar: Já, gaman.
Gudjon

2013-07-02 @ 13:10:06


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0