Verðmæti

Það hefur verið heil mikið annríki á Sólvöllum undanfarið, kannski full mikið. Ég get fyllst af því að sum verkefni verði að klárast bara núna ef mögulegt er. En þá er það bara það sem ég skapa mér með ákafa mínum. Svo hef ég verið að vinna töluvert í Vornesi og kannski gengst ég upp í því að ég virka ennþá í meðferðarvinnunni og ég held bara ekki síður en fyrir ellilífeyrisaldur. Jú, ég þori nú að segja betur að sumu leyti.
 
En ég verð þó að segja að ég hef gefið mér dálítinn tíma fyrir fólk. En kannski ekki nægan tíma fyrir þá sem búa með mér hér á Sólvöllum um þessar mundir, en þegar fólk hefur komið í heimsókn erum við þó öll saman með gestunum.
 
Þessi vingjarnlega kona kom í heimsókn á sunnudaginn var eftir að ég kom heim úr vinnu í Vornesi. Hún heitir Kristín Guðmundsdóttir og er ein af Skógaskólaliðinu sem skrifaðist út árið 1959. Því liði tilheyri ég líka. Ég hef fyrir því öruggar heimildir að árgangurinn okkar var talinn mjög góður og ég er líka sannfærður um að svo var. Stór hluti af þessum hópi var saman á heimavistarskólanum í þrjá vetur og þá verður auðvitað mjög náinn kunningsskapur með fólkinu. Svo voru aðrir sem ekki voru öll árin með okkur en skrifuðust út sama vor, en þeir hinir sömu sameinuðust liðinu samt á þennan innilega hátt að það er ekki hægt að gera sér grein fyrir því að þau hafi ekki verið hluti af liðinu öll þrjú árin.
 
Það hefur hreinlega verið fjölskyldustemming í þessum hópi þegar við höfum hittst á fimm ára fresti. Ég hef sjaldnar verið þátttakandi í þeim mætingum en margir hinna, hef haft lag á því að búa langt í burtu, og stundum hefur liðið fjöldi ára milli þess að ég hafi séð suma. En á örskotsstundu er samt eins og við höfum verið saman fyrir stuttu síðan. Það er virkilega gaman að þessu og það eru mikil verðmæti í því fólgin að eiga þennan hóp að. Ég minnist þess að einn kennaranna í Skógum sagði að þessi skólaár yrðu mjög verðmætur hluti af lífinu þegar fram liðu stundir og hann hafði rétt fyrir sér.
 
Dóttir Kristínar er læknir í Västerås sem er eina 120 km austan við Sólvelli. Hún dvelur oft hjá þessari dóttur sinni og hefur verið dugleg við að líta við á Sólvöllum. Valdís og hún urðu góðir kunningjar. Ég hef ekki verið jafn duglegur við að líta við hjá þeim i Västerås. Þakka þér fyrir trygglyndið og vináttu þína Kiddý mín.
 
Á mánudaginn var kom svo þetta fólk á Sólvelli. Þarna er Þorbjörg systurdóttir Valdísar, svo mamma hennar Brynhildur og að lokum Tomas, sænskur maður Þorbjargar. Þorbjörg og Tomas eiga heima í Vernamo í Smálöndum og þar hefur Brynhildur verið í heimsókn síðustu vikurnar. Svo komu þau hingað í heimsókn á mánudaginn var og stoppuðu í nokkra klukkutíma.
 
Það er ekki ég sem bakaði jarðarberjatertuna sem er þarna á borðinu. Nei, alls ekki. Það voru nefnilega Rósa og Pétur sem bökuðu hana og nú eru þau setst við sitt hvorn endann á borðinu. Þau voru gestgjafarnir og þau voru það líka þegar hún Kristín kom, hún sem er á fyrstu myndinni.
 
Svo er þarna enn annað fólk sem kom í vikunni, Auður og Þórir. Ástæðan til að ég nota þessa mynd er ungi ákveðni maðurinn sem er þarna á ferðinni. Mér fannst ég bara mega til með að nota hana þar sem hann er svo algerlega önnum kafinn við einhver málefni sem ég átta mig ekki á.
 
Nú hefur hann snúið við ungi maðurinn og reyndar voru það fleiri sem samkvæmt beiðni minni sneru sér við til að horfa í myndavélina.
 
Þetta eru svo Pétur og Rósa, alvörugestgjafarnir á Sólvöllum um þessar mundir. Og lax var það í kvöldmatinn þegar ég kom heim úr vinnu einn daginn í vikunni. Grænmetið í skálinni sem Rósa heldur á þarna er komið úr grænmetisræktinni hennar við skógarjaðarinn. Bakvið þau eru hins vegar kryddjurtirnar.
 
Þessir strákar eru að hjálpast að við að gefa honum Brodda fyrr í vikunni. Broddi er ekki gestur á Sólvöllum,  hann er ábúandi. Hann hefur hins vegar ekki deilt lífinu svo mikið með okkur. Broddi er kvölddýr og er oft ekki á ferðinni fyrr en eftir að birtu fer að bregða. Það er þekkt að það er hægt að hæna þessi dýr að sér með því að gefa þeim mat og Hannes á bók þar sem góð ráð eru gefin við þá matargjöf. Egg og avakadó eru ofarlega á listanum í bókinni, en í þessu tilfelli sem myndin er af er það egg og kattamatur sem við bjóðum upp á. Svo þegar matarborðið er tilbúið rennum við því undir stólinn til að hlífa því fyrir rigningu.
 
Þegar Broddi kom í gærkvöldi var Hannes ekki sofnaður en hann var háttaður og kominn í rúmið. Hann var því sóttur til að hann gæti áttað sig á því hvaða þýðingu matargjöfin hefði. Vafinn inn í teppi og fylltur áhuga og gleði kom hann svo með mér út til að kynnast hinum hljóðláta ábúanda á Sólvöllum. Fyrst ætlaði Broddi að láta sig hverfa inn í skóg en við gengum í veg fyrir hann. Þegar það er gert staðnæmast broddgeltir oft og sjá til hvað setur. Það gerði Broddi þarna í gærkvöldi og þegar við vorum búnir að ræða um hann og við hann um stund gáfum við honum frelsi og stuttu síðar sneri hann sér að matnum aftur. Rósa var nálæg með myndavélina.
 
Á þennan hátt geri ég ráð fyrir því að Broddi verði gæfur. Honum verður útbúinn bústaður í skógarjaðrinum nálægt þessum stað og það verða birtar myndir af því síðar.
 
Svo er gott að enda þessa myndasyrpu með mynd af bláberjartínslu. Þá var ég enn ekki kominn heim úr vinnunni en góðfúslega fékk ég þessa mynd frá Rósu. Mikið er ég feginn að stórborgarbarninu líður vel á Sólvöllum, svo nærri svo mörgu góðu sem örugglega á eftir að setja góð spor í hann sem einstakling í hinu stóra samfélagi framtíðarinnar. Megi allt gott vaka yfir honum.


Kommentarer
Björkin.

Takk fyrir bloggið mágur minn.Gaman að það er fjör og gestagangur á Sólvöllum.Bæði menn og dýr.Líði ykkur öllum sem best og stórt KRAMMMMMMMM

Svar: Þakka þér fyrir mágkona.
Gudjon

2013-07-11 @ 13:16:01


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0