Ég veit ekki hvað ég skal segja

Ég fór í vinnu upp úr hálf tíu í fyrradag og kom heim um hádegi í gær. Ég hef gert þetta mörg hundruð sinnum áður en ég man ekki eftir því að hafa orðið svo rosalega þreyttur sem ég varð eftir að ég kom heim í dag. Kannski átti ég bara að leggja mig en ég gerði það ekki. Ég fann svo mikla brennandi þörf fyrir að byrja á verki sem ég er búinn að hugsa um í fáein ár, en það er lokafrágangur á sökklunum undir elsta hluta íbúðarhússins. Að ég vildi endilega byrja þarna í gær byggðist að nokkru á því að í gær fékk ég endanlega hugmynd um hvernig ég skyldi framkvæma þetta.
 
Ég fór í bláu "skriðbuxurnar" mínar, tók mér tommustokk í hönd, máta sem ég útbjó, trébýjant og einn járnvinkil. Síðan lagðist ég á jörðina, "á skriðbuxunum" og horfandi upp undir útvegginn byrjaði ég að sannreyna hugmyndina sem ég hafði fengið. Mýfluga með hátíðnihljóði kom samstundis á vetvang og snerist kringum andlitið á mér. Mér fannst hún geta lent í augunum en ég var svo sem ekki hræddur um að hún stingi mig til óbóta. En þetta með augun var ónotalegt og svo er hljóðið í þeim er einstaklega óyndislegt.
 
Ég byrjaði að slá til hennar en hún var fim og hélt greinilega að ég væri að leika mér við hana. Að lokum tókst mér að greiða henni náðarhöggið og hún lá kyrr í sandflekk sem var þarna við vegginn. Svo hélt ég mínum spekúleringum áfram og innan tíðar hófst hátíðnihljóðið á ný. Annað hvort var mýflugan gengin aftur eða þá að það höfðu leynst tvær mýflugur á Sólvöllum þennan dag. Það var ekki erfitt að giska á hvort heldur var.
 
Ég er að skrifa þetta á föstudagsmorgni. Ég lagði mig seinna í gær en ég hafði hugsað mér en ég er hreinlega þannig og veit ekki hvort það er nokkur ástæða til að fást um það. Ekki var ég lengi að ganga til fundar við Óla L og þegar ég var kominn þangað var ég þar án minnstu truflana í draumalandinu í sjö og hálfan tíma. Það var greinilega góður tími því að lífið leit allt öðru vísi út þegar ég vaknaði.
 
Í fyrsta lagi var ég vel úthvíldur og fann fyrir þessum afslappaða, hógværa púlsi mínum sem var trúlega kringum 54, eða eins og hjá góðum íþróttamanni. Eftir rólegheit á koddanum og hugleiðingar um lífið tók ég mig fram úr rúminu og dró frá austurglugganum. Skógurinn var endurnærður eftir rigningu gærdagsins og það var hægur andvari sem hreyfði við laufverkinu og gerði það fallegra en nokkru sinni fyrr. Einkennilegt hvað þetta "fallegra en nokkru sinni fyrr" getur komið dag eftir dag og ár eftir ár. Það er mikill ríkidómur að svo geti verið.

Rósa er búin að hengja út á snúruna þvottinn sem ég ætlaði að vera búinn að hengja upp áður en aðrir kæmu á stjá. Tipplandi fótatak Hannesar barst mér framan úr stofu fyrr en ég reiknaði með og þegar ég heyrði hann spyrja eftir afa stóðst ég ekki mátið og opnaði hurðina þangað fram. Það var glaðlegt og fallegt andlit sem birtist mér í dyragættinni og það fannst bara einn möguleiki; að elska þessa smávöxnu mannveru.
 
Það er kominn minn tími til að elda hafragraut. Eftir rólegan morgunverð ætla ég að halda áfram við fráganginn á sökklunum sem ég talaði um hér fyrir ofan. Þar mun ég njóta sólar fram yfir hádegi og ásamt öðru heimilisfólki hér mun ég þar njóta samvista við einstaka flugu, mikið af bjöllum, og fjöldan allan af fjölfætlum af misjöfnum lengdum sem hlykkjóttar taka sig ótrúlega hratt fyrir. Þær eru ekkert sérataklega sólgnar að komast upp í buxnaskálmar og það er ég mjög sáttur við. Náttúran er ekki bara iðandi laufverk, hún er ótrúlega fjölbreytt og lifið alveg makalaust ef að er gáð. Ég finn alltaf fyrir sársauka þegar ég sting sundur ánamaðka.
 
Að lokum vissi ég hvað ég skyldi segja.
 
Ps. Þetta með púlsinn hef ég ekki fengið af íþróttamannsferli mínum. Mikið gekk ég og hljóp í gamla daga og kannski skilaði það einhverju, en mér hefur einfaldlega verið gefin góð heilsa verð ég bara að segja og mikið er ég þakklátur fyrir það.


Kommentarer
Björkin.

Farðu vel með þig mágur minn.Hvíld er góð.Vorum að koma úr Skorradalnum eftir törn í gluggum og slátti,klippinguog planta trján...Heyrumst.

2013-07-05 @ 23:57:08


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0