Mikið fólk

Í dag var ég að saga þykkt einangrunarplast til að einangra með undir íbúðarhúsið. Ég sagaði það við austurglugga á miðju húsinu og svo mátaði ég utan við dyr norðarlega á sömu hlið. Hannes kom út í opinn gluggann þar sem ég sagaði plastið og talaði við mig á meðan. Svo þegar ég fór að máta plastið utan við dyrnar var hann mættur þar áður en ég kom þangað og þá lék hann ljón, eða vildi sýna vináttu. Svona gekk þetta lengi og alltaf hljóp hann á milli og þótti skemmtilegt að vera orðinn að ljóni þegar við hittumst þarna við dyrnar, ég að máta plastið eða ganga frá því og hann krjúpandi á gólfinu sem ljón -eða sem góður vinur sem vill vera nálægur.
 
Það fer að styttast dvölin hjá Stokkhólmsfjölskyldunni. Þessi mynd er ekki tekin heima, heldur þegar við fórum út að borða einn góðviðrisdaginn þegar búið var að vera annríki heima. Ég veit ekki alveg hvað Hannes er að leika á þessari mynd en ekki er það ljón. Kannski górilla sem honum þykir vænt um að einhver annar leiki þegar hann vill fara í eltingarleik.
 
Mér datt það í hug í dag að það er búið að koma talsvert af fólki á Sólvelli í sumar. Það var nú eitthvað sem kom upp í huga mér þegar ég var að hugsa um að brátt færu Rósa og fjölskylda heim. Tveir eru búnir að gista Bjarg og gefa því góða einkunn. Rósa og Pétur eru líka búin að nota Bjarg sem vinnustað þegar þau hafa þurft næði. Hlutverk Bjargs var einmitt þetta tvennt auk þess að vera geymsluhúsnæði fyrir allt mögulegt sem þarf að vera til í sveitinni. En aftur að heimsóknum á Sólvelli.
 
Þau Auður og Þórir hafa verið hér oft á ferð og voru mjög mikilvægir gestir snemma á vordögum þegar sem erfiðastir dagar voru hér á Sólvöllum. Eva, sem er til hægri, var líka mikilvægur gestur á þeim tíma en svo flutti hún frá Örebro og kom því ekki eins oft og skyldi. Ég hef verið þessu fólki svo þakklátur fyrir að halda sambandi við mig en sjálfur hef ég verið hversu lélegur sem helst við að endurgjalda heimsóknir þeirra. Tíunda reynsluspor AA samtakanna segir að við höldum áfram sjálfsrannsókn og viðurkennum umsvifalaust þegar við gerum eitthvað rangt. Ég viðurkenni hér með að ég á að vera betri vinur vina minna.
 
Þessi skólasystir mín og jafnaldra kom í skemmtilega heimsókn fyrir nokkrum vikum. Hún hefur komið hingað í þrjár eða fjórar heimsóknir á allra síðustu árum en ég hef enga heimsókn endurgoldið henni. Hún notar tækifærið til að koma þegar hún er hjá dóttur sinni í Västerås og það er 120 km akstur fyrir hana að koma í heimsókn þaðan. Lífið hefur ekkert borið hana á gullstól en samt á hún gleði til að gefa af og gleðja aðra. Hún Kristín skólasystir mín er trygglynd og ég er búinn að lofa henni að endurgjalda heimsóknir hennar. Ég vil ekki láta vináttu hennar renna út í sandinn af neinum trassaskap af minni hálfu.
 
Þær eru líka trygglyndar þessar vinkonur Valdísar sem sitja þarna með Rósu dóttur minni. Þær borðuðu hádegismat með Valdísi einu sinni í mánuði í mörg ár og þó að Valdís sé nú horfin úr hópnum vilja þær ekki yfirgefa að fullu staðinn sem áður var heimili hennar.
 
Þarna með Rósu og Pétri situr hún Binna mágkona mín og með henni komu Þorbjörg dóttir hennar og tengdasonurinn Tomas. Þau þrjú komu frá Vernamo einn af þessum afbragðs góðviðrisdögum sem við höfum haft svo marga í sumar. Á borðinu er rjóma/jarðarberjaterta bökuð af Rósu og Pétri. Hvað skyldi ég hafa bakað ef ég hefði verið einn heima. Jú, ég hefði örugglega bakað pönnukökur handa þessu tengdafólki mínu.
 
Það eru alls ekki allir sumargestir með hér og til dæmis ekki hún Annelie, hin sérstaka vinkona Valdísar. Annelie er fimmtug og þó að sá aldursmunur væri á þeim, henni og Valdísi, þá ríkti alveg einstök vinátta milli þeirra. Það var erfitt símtal að hringja til hennar snemma morguns og tilkynna henni andlát Valdísar. Viðbrögðin sýndu að það var engin hversdagsvinátta sem ríkti þar, það var vinátta eins og hún bara getur best orðið. Annelie vill halda tryggð við heimilið sem eitt sinn var heimili Valdísar. Henni er velkomið að gera það. Maður hennar er með litla trésmiðju og réttir fram hjálparhönd þegar ég þarf að fá eitthvað gert sem ég ræð ekki við með þeim tækjum sem ég hef yfir að ráða. Ég á enga góða mynd af Annelie og þess vegna vantar mynd af henni. Ég mun tala meira um sumar og vorgesti síðar.
 
*          *          *

Að lokum þetta: Það er búið að rigna í dag, heila átta millimetra. Það hefði svo gjarnan mátt rigna meira en samkvæmt spá sænsku veðurstofunnar á að rigna svo lítið á morgun að það mælist ekki. En ég geri þó frekar ráð fyrir að gróðrinum hafi munað aðeins um þessa átta millimetra í dag  og ekki síst vegna þess að það komu fimm mm í fyrradag.
 
Að svo búnu verður þetta blogg að stoppa hér, enda eins gott. Mín blogg verða gjarnan of löng. Sumargestirnir mínir allir eru gott fólk og ég vil hampa þeim svolítið í þakklætisskyni fyrir að vera það fólk sem þeir eru. Á þessu augnabliki ríkir angurværð innra með mér og ég finn fyrir þörf að stefna móti hinu góða. Hið gagnstæða við hið góða sem búið hefur eða býr í mér vil ég brenna til ösku og kasta því svo út í eilífðina og aldrei sleppa því til baka meir.
 
Guð
gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.


Kommentarer
Björkin.

Takk fyrir gott blogg.Gaman og gott að fá að fylgjast með ykkur kæra fjölskylda.Hugsuðum mikið til Sólvalla í gærkveldi þegar við horfðum á Skansinn.Mjög góður þáttur.Líði ykkur sem best mín kæru .Stórt krammmmmmmm. Hún Eva er búin að heimsækja mig tvisvar í fríinu sínu á Íslandi mjúk og góð kona.Er að prjóna fyrir hana.

Svar: Já, Eva svíkur engan. Gangi ykkur vel og með bestu kveðju.
Gudjon

2013-07-31 @ 12:54:26


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0