Ekki ári eldri en þrítugur

Ég var í versluninni Clas Ohlson í Uppsölum í síðustu viku að kaupa smánagla og eitthvað fleira smá. Þegar ég var búinn að borga gekk ég að rúllustiga og horfði upp eftir stiganum alveg upp á næstu hæð. Við það að horfa þetta upp í móti fékk ég einhvern sting í hálsinn. Ég hef oft fundið á síðustu árum að ég á ekki eins auðvelt með að líta við, til dæmis þegar ég ek bíl og þarf að fylgjast með umferð sem kemur frá vinstri við gatnamót.

Svo var ég kominn upp á næstu hæð og var eitthvað að velta þessu fyrir mér að ég væri að eldast og ýmsir hlutir væru ekki eins auðveldir og á árum áður. Svo þurfti ég að velta fyrir mér út um hvaða dyr ég ætti að fara því að færi ég út um aðrar dyr en ég kom inn um kæmi ég út úr húsinu í annarri götu. Þá yrði ekki eins greið leið að fara til baka. Ég var búinn að koma oft inn í þetta hús en hef alltaf þurft að velta svolítið fyrir mér hvaða útgang ég eigi að nota. Kannski var það aldurinn líka. Svona voru vangaveltur mínar þarna, gamall eða hvað. En þetta hefur komið fyrir mig oft áður, svona heilabrot, en niðurstaðan hefur alltaf orðið sú að ég sé fjári hress og ekki eldri en það.

Dæmi: fyrir tíu dögum keyrði ég mörgum hjólbörum af blautri mold 35 metra út í skóg. Þar jafnaði ég úr moldinni og valtaði yfir með 70 kg þungum valtara. Svo jafnaði ég aftur, sótti mold og bætti í lægðir og valtaði á ný. Enn einu sinni jafnaði ég og valtaði einu sinni enn. Svo sáði ég grasfræi og bar á áburð, sótti nokkrar hjólbörur af mold í viðbót og stráði yfir grasfræið og valtaði síðustu umferð. Jafnframt því að flytja moldina út í skóginn fór ég með nokkrar hjólbörur af grjóti eina 100 metra út úr skóginum og út að vegi. Það síðasta gerði ég með nokkrum flýti þar sem dagur var að kvöldi kominn. Þegar þessu öllu var lokið horfði ég yfir verkið sem var virkilega snyrtilega unnið og var ánægður. En -ég var ekki ánægður með eitt; ég var orðinn dauðþreyttur. Eftir smá vangaveltur komst ég reyndar að því að þrítugur eða fertugur maður mundi líka hafa orðið dauðþreyttur. Ég hafði nefnilega flutt 29 hjólbörur af mold út í skóginn og grjótið til baka að auki. Þá varð ég ánægður aftur.

Ég gekk rösklega þarna suður eftir Kungsengsgatan (Kungsängsgatan) og hugsaði til orða Jorma vinnufélaga míns sem er fáeinum árum yngri en ég. Ég hef nokkrum sinnum heyrt hann segja að hann hafi byrjað á einhverju útiverkefni heima hjá sér og hann ætli að verða svo fljótur að vinna það. En svo hafi hann komist að því að hann geti bara alls ekki verið eins fljótur og hann var áður fyrr. Ég þekki mig reyndar í þessum orðum Jorma en alls ekki eins afgerandi og hann lýsir því.

Það var mikið af fólki á ferð í götunni og ég var að draga uppi tvær konur sem gátu verið um þrítugt. Ég ætlaði að smeygja mér vinstra megin fram úr þeim en þá varð einhver karfa fyrir mér svo að ég rakst á aðra konuna. Ég leit við og sagði -fyrirgefðu- og fékk til baka svo ótrúlega fallegt bros. Það var hreint ekki hægt annað en taka eftir þessu fallega brosi og ég hugsaði með mér að svona ætti maður að gera til að fá falleg bros í Uppsölum. Á þessu augnabliki var ég ekki ári eldri en þrítugur.


Kommentarer
Valgerður

Það er gott að láta isg dreyma en ég er 47 ára og þú ert pabbi minn svo þetta passar ekki alveg ;o)

2010-06-09 @ 12:25:19
Guðjón

Ekki skemma fyrir mér :)

Nú man ég! Ég hef mína eigin klukku!



Kveðja, pabbi

2010-06-09 @ 15:25:16
Dísa gamli nágranni

Aldurinn er afstæður. Við erum öll ekki eldri en okkur finnst í það og það skiptið. 'Eg hef ekki lesið bloggið í dálítinn tíma svo ég les alltaf dálítið aftur í tímann og sá að Rósa LITLA er orðin doktor í mannfræði eða er það ekki rétt hjá mér. Þið skilið hamingjuóskum og kveðjum til þeirra hjóna og þið megið líka eiga þátt í hamingjuóskunum.

Kærar kv.úr Sólvallagötunni. Það er yndislegt veður logn og sólskin kl.15 mín. gengin í 11 að kvöldi.

2010-06-12 @ 00:16:10
Guðjón

Jú Dísa, Rósa LITLA er orðin doktor. Með bestu kveðju frá Sólvöllum.

2010-06-12 @ 00:38:10


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0