Byrjunarframkvæmdir á Sólvöllum

Einhvern tíma í vor bloggaði ég um öll mín blogg varðandi byggingarframkvæmdir á Sólvöllum, þessa fáeinu tugi fermetra sem við höfum byggt og erum að byggja við. Ég held að ég hafi sagt að ég skrifaði meira um byggingarframkvæmdir okkar hér á Sólvöllum en skrifað er allt í allt um byggingu tónlistarhnús í Reykjavík. Að ég vel þarna tónlistarhúsið kemur auðvitað til af því að það er ansi stórt hús. Ég hef alls ekki séð skrif um tónlistarhúsið nýlega utan að það hefur verið talað um fjármögnunarvandræði. Já, en hvað um fjármögnun á Sólvöllum? Ég kem kannski að því síðar.

Nú höfum við beðið all lengi eftir framkvæmdaaðilum sem munu koma við sögu hér á Sólvöllum í ár. Svo tilkynntu þeir að allt yrði sett á fullt á miðvikudaginn var. En þá urðum við að afþakka komu þeirra þar sem ég, ellilífeyrisþeginn, hafði ekki tíma til að vera viðstaddur þennan dag vegna anna. Ég var búinn að lofa vinnu og AA maðurinn getur ekki svikið það sem hann er búinn að lofa. Það er bara alls ekki í samræmi við prógrammið. Ég hélt að þeir mundu þá gefa skít í verkefnið hér þangað til hreinlega einhvern tíma eða einhvern tíma. En viti menn! Tveimur dögum seinna stilltu þeir upp tækjum sínum hér á lóðina og svo héldu þeir upp á helgina. Í morgun, mánudag, þegar ég kom heim úr vinnu í Vornesi voru tækin komin á fulla ferð.

Ó hvað þetta verður fínt
Þegar þessi mynd var tekin var Peter í gröfunni en hinn tuttuguogeins árs gamli Jónas lagði drenrör og tók á móti perlumöl niður í grunninn. Annars segir Peter að Jonas sé ekki minni gröfumaður en hann er sjálfur. Þeir þurftu ekki að eyða mörgum orðum í það sem þeir gerðu, þeir vissu greinilega hvað þeir voru að gera þessir strákar. Hitinn var yfir 20 stig.

Svo þarf að borga fyrir veisluna
Vibrator, skurðgrafa, sendiferðabíll, vörubíll og tveir menn voru hér að verki í dag. Þriðji maðurinn, byggingarmeistarinn, var aðeins skamma stund. Valdís bauð þeim upp á mat og kaffi og ég reyndi að sniglast eitthvað í kringum þá. En veislan kostar eitthvað og ég gaf það í skin áðan að ég mundi kannski tala eitthvað um peninga -en alls ekki um skort á peningum. Hann Anders Borg fjármálaráðherra veit að ég er ellilífeyrisþegi sem vinn all mikið. Sem verðlaun fyrir að vinna all mikið þarf ég ekki að borga svo mikinn skatt af vinnunni. Hann veit að þá munum við byggja og gera hluti sem veitir öðrum vinnu.

Og aftur í verðlaun fyrir að byggja fáum við það sem kallað er ROT frádrátt. Það þýðir að við Valdís getum hvort fyrir sig fengið 50 000 sænskar krónur til baka af skattinum sem við greiðum til að borga vinnulaun þeirra sem koma til að vinna hjá okkur. Svona er nú Anders Borg sniðugur og hann vissi að við Valdís mundum bíta á agnið og byggja. Svo borga þessir strákar skatt af vinnulaununum og ennfremur söluskatt af einkaneyslunni og þeir nota meira af peningum af því að þeir fá að vinna á Sólvöllum. Að sjálfsögðu fáum við ekki meira til baka af skattinum en það sem við borgum en vegna þess að ég vinn kemst ég upp í 50 000. Ég ætti líklega að borga Vadlísi laun fyrir að annast mig. Þá mundi hún borga meiri skatt og fá meiri frádrátt.

En kannski hefði ég getað notað hjólbörurnar mínar
Svo eru auðvitað umhverfismálin í hávegum höfð á Sólvöllum. Fyrst grafan var hér og það var tími afgangs fór Peter í það að jafna bakvið húsið meðan Jonas náði í meiri perlumöl. Peter notaði hluta af því sem kom upp úr grunninum til að fylla upp ójafna og leiðinlega lægð sem var þarna. Við héldum að við yrðum að sitja uppi með nokkra stóra steina sem hefðu þá staðið upp úr lóðinni en Peter sagði bara að ef við vildum losna við þá, þá mundum við losna við þá. Ég sem er búinn að flytja efni fram og til baka á hjólbörum, fleiri hundruð ferðir, jafnvel yfir þúsund ferðir, einnig Pétur tengdasonur. Ég hugsaði þegar ég sá þennan á að giska 250 kílóa stein fara svona léttilega í burtu að hvernig hefði farið um hann á hjólbörunum.

Peter veit greinilega hvað hann er að gera
Tveir trjástubbar með stórum rótarflækjum voru líka fastir þarna í óræktinni. Peter reif þá upp með klónnni eins og steinana og henti í haug með þeim. Svo þegar hann kemur til frekari framkvæmda á Sólvöllum eftir fáeinar vikur ætlar hann að fjarlægja grjótið og stuppana. Árans munur er nú á þessum vinnubrögðum miðað við hjólbörutæknina.

Hvernig hefði nú þetta komist upp í hjólbörurnar mínar
Á tímabili var ég farinn að halda að hann hefði ekki skilið hvernig við vildum hafa þetta en ég lét á engu bera. Ég hef nefnilega reynslu af því frá sjálfri Hrísey að góðir tækjamenn vita upp á hár hvað þeir eru að gera, jafnvel þó að vinnubrögðin geti lítið óskiljanlega út. Svoleiðis var það til dæmis þegar hann Unnsteinn lagfærði Syðstabæjarhólinn með litlu jarðýtunni hreppsins. Við gengum þar um áður en hann byrjaði og töluðum um hvernig hægt yrði að láta hólinn líta út. Ekkert botnaði ég svo í því hvernig hann flutti moldina og aldagamla öskuhauginn sitt á hvað en allt í einu small allt saman og varð svo ótrúlega fallegt.

Jahérnanahér, margar hjólbörur komnar á sinn stað á hálftíma
Þannig nefnilega endaði þetta líka hjá Peter. Það er svo fínt hérna á bakvið húsið og á miðvikudag verður sáð grasfræi og valtað yfir með nýja valtaranum. Mikið verður gaman að sjá þegar þetta verður grænt. Það er stór gaman að framkvæma fyrir verðlaun frá Anders Borg skuliði bara vita. Á myndinn er Peter að fjarlægja stein sem mér datt ekki í hug að þessi litla grafa mundi ráða við.

Burðugur eða hvað?
Annars hefði líka verið hægt að framkvæma þetta með hjólböruaðferðinni og vera að því í tvö ár. Þið sjáið nú hvað hann er hress og spengilegur ungi maðurinn þarna með hjólbörurnar.

Þó að þetta sé skrifað með spaug í huga er allt satt sem fram kemur með ROT frádrátt og fleira. Ef við værum að byggja nýtt hús frá grunni fengjum við frádráttinn ekki. En viðbygging, bílskúr, viðhald og fleira fellur undir hann. Þeir sem byggja stærra og ríkulegar eru trúlega taldir hafa efni á því hvort sem er.


Kommentarer
Rósa

Rosalega er mikið að gerast í stugunni. Spennandi, spennandi!



Kveðja úr Reykjavík,



R

2010-06-21 @ 22:57:27
Guðjón

Já, það er mikið að gerast. Smiðurinn kemur á miðvikudaginn í næstu viku. Hefði gjarnan viljað sjá hann fyrr en hann er á leið i annan landshluta á jarðarför vinar síns og svo er það midsommar. Við getum líka notað tímann til að gera heil mikið hér í kring.



Kveðja frá Sólvöllum



GB

2010-06-21 @ 23:13:14


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0