Að syngja fyrir heiminn með henni ömmu sinni

Undir stofugluggunum heima hjá Rósu og Pétri í Uppsala eru rammar með fíngerðu en stæltu neti fyrir framan ofnana. Hannes Guðjón var búinn að uppgötva að það var hægt að losa netið í römmunum og það var voða gaman að brasa við það, en þá var líka hætta á því að hann klemmdi sig og meiddi á hvössum köntunum á netinu. Ég tók að mér að festa netið rækilega í rammana til að koma í veg fyrir óhapp.

Hannesi þykir mjög gaman að horfa á þegar verið er að gera eitthvað og kemur á mikilli ferð þegar hann verður þess var að eitthvað er í gangi. Hann horfði því á af miklum áhuga þegar ég var að festa netin og þá sat hann á hnjám ömmu sinnar og sneri að henni. Hún tók í hendur hans og söng fyrir hann og þau reru sér svolítið fram og til baka með söngnum. Svo fór hann að syngja líka. A-a-a-a-a aa a-a-a-a aa a og hann horfði á ömmu sína og leit öðru hvoru til mín. Og svo hélt hann áfram að syngja a-a-a-a-a-a a aaa a. Það var enginn prakkarasvipur á honum, ekkert sprell, engin krafa um neitt, hann vildi bara syngja a-a-a-a-a. Það voru lítil tónbrigði en það var einfaldlega fallegt. Þessa stundina var eins og það væri bara til sakleysi í þessum heimi.

Hann var svo ótrúlega góður, hlýr og vingjarnlegur þarna að það var ekki hægt annað en verða snortinn. Hvað langar mann svo til við svona aðstæður, svo fullkomlega góðar og hlýjar? Jú, að geta hlúð að þessu góða og fallega, að hjálpa litlu barni að rækta það góða í hjarta sínu, að sjálfur verða góður. Heimurinn þarf svo mikið á því að halda. Og svo hélt hann áfram að syngja og öðru hvoru sveiflaði hann höndum sínum og ömmu sinnar sitt til hvorrar hliðar í takt við sitt fallega a-a-a-a.

Á svona stundum má ekki bregða út af því sem verið er að gera og að taka mynd var fráleitt. Það hefði verið til að brjóta niður það fallega sem listamaðurinn var að gefa heiminum á þessari stundu og svoleiðis gerir maður bara ekki. Þakka þér fyrir fallega sönginn þinn Hannes minn.

Skoða, skoða, það er verið að ryksuga
Pabbi að ryksuga! skoða! skoða! Amma, hjálpa mér þangað, fljótt!

Málefni rædd
Faðir og sonur ræðast við, ámokstursvélin í gangi og dótakassinn við hendina. Í baksýn eru rammarnir með netinu sem gat verið varasamt.

Að syngja á Hótel Amaranda
Eftir morgunverð á Hótel Amaranda í Stokkhólmi, morguninn eftir doktorsdaginn, fóru afi og drengur á gönguferð um afgreiðsluna. Svo fór drengur að syngja sitt a-a-a-a-a og mér sýnist á myndinni að afi sé farinn að syngja a-a-a-a-a líka.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0