Gleðin og sorgin

Sjáðu fuglinn í opinu sagði Valdís núna undir kvöldið í gær og benti á fuglahólk í tré skammt austan við húsið. Það var rétt, það var lítið höfuð í opinu á fuglahólknum. Við vissum að það var hreiður þarna en hingað til höfum við bara séð foreldrana fljúga ótt og títt út og inn um þetta litla op. Væntanlega með mat inn, og út til að sækja mat. Og svo ótrúlegt sem það er þá hitta þeir alltaf á þetta pínulitla op og hreinlega fljúga inn á fullri ferð.

Undir kvöldið var eitthvað öðru vísi. Lítið höfuð var í opinu og skimaði greinilega í kringum sig á veröldina utan við. Fuglarnir tveir sem við teljum að hafi séð um veiðar og aðflutning komu að opinu og það var eins og þeir spjölluðu við þann sem skimaði út og svo fóru þeir aftur og biðu álengdar. Að lokum kom hann alla leið út, sá með höfuðið í opinu, og flaug með það sama. Það var greinilegt að þetta var ungi sem hafði ekki full tök á fluginu en honum tókst þó að setjast á nálæga grein. Samstundis og hann var floginn kom annað höfuð í opið og það sama endurtók sig. Sá með litla höfuðið í opinu var hikandi eins og sá fyrri, en að lokum flaug hannn líka.

Eitthvað virtist stjórna því að þeir komu þarna einn á eftir öðrum, einmitt á þeirri stundu, eins og það var þó búið að bera í þá í gær. Stundin var runnin upp -fyrir þá alla. Það var ys og þys á nálægum trjágreinum og það var heil mikið um að vera, það virtist ríkja gleði. Það var hátið. Eins og þegar barn er skýrt, eða barnið verður eins árs, eða þegar barnið allt í einu segir mamma, eða þegar barnið brosir í fyrsta sinn. Er það ekki stórkostlegt þegar lífið brýst út í þessu fallega brosi. Foreldrarnir verða glaðir og segja sínum nánustu frá sem einnig verða glaðir. Barnið skynjar þessa gleði og verður örlátara á brosið. Brosið er barnsins önnur fæðing segir hinn áttræði Martin Lönnebo fyrrverandi biskup.

En það er óútreiknanlegt þetta líf. Eftir svo mörg falleg bros frá barninu sínu knúði sorgin dyra hjá Pétri og Rósu, sorgin sem er andstaða brosins. Stjúpmóðir Péturs dó skyndilega fyrir viku og það var áfall, ekki síst þar sem enginn átti von á því þegar stundin kom. En þar var ekki staðar numið. Sex dögum síðar, í gær, dó einnig faðir Péturs. Þá varð það einum of mikið. Sorgin varð að ennþá meiri sorg en eitt sinn brostu þau þó bæði móti heiminum og glöddu sína nánustu, þessi maður og þessi kona. Við Valdís fundum fyrir djúpri sorg þegar við skynjuðum sorg Péturs og Rósu. Blessaður er sá sem þorir að taka lykil táranna í hönd sína segir Martin Lönnebo einnig. 

Í dag eru Pétur og Rósa á leið til Íslands með sinn litla Hannes Guðjón. Þá flýgur hann í fyrsta sinn eins og fuglarnir í gær. Hann mun hitta ný skyldmenni og fleira fólk og brosa fyrir marga þó að hann muni ekki fá að brosa fyrir afa og ömmu í Reykjavík. En þau voru búin að frétta af brosinu hans og þau skiptu um myndir af honum á skápnum eftir því sem hann varð eldri og nýjar myndir bárust þeim. En Hannes Guðjón á samt sem áður ömmu í Reykjavík og ég efa ekki að hann muni brosa fallega fyrir hana. Þá veit ég að hún verður mikið glöð.

Síðan mun sorgin mildast, ganga yfir segjum við, en sorgin er ævinlega álengdar. Við bara lifum ekki í sorg. Hver skyldi geta orðið fullorðinn sem ekki þekkir sorgina? Brosið er á endanum sterkara en sorgin og gleðin er sterkari en treginn. Í sjónvarpi nú í kvöld var faðir brúðar spurður hvað honum þætti. Hann svaraði afar litlu og sýndi enga svipbreytingu, eins og honum þætti ekki svo mikið til koma, og svo leit hann á konu sína. Hún svaraði innilega með breiðu brosi að þau væru bæði svo glöð yfir brúðkaupi dótturinnar. Ég varð líka afar glaður þegar ég sá Hannes Guðjón brosa í fyrsta sinn. Mér fannst meira að segja að ég væri svolítið sérstakur að sjá þessa litlu lífveru brosa á örmum mér. Sama var með ömmu hans sem sá hann sex vikum á undan mér. Þá sagði hún mér frá brosinu hans.

Svo kemur Hannes Guðjón fljúgandi yfir stóra hafið frá Íslandi með pabba og mömmu og þá verður hann búinn að fljúga voða mikið eins og ungarnir sem yfirgáfu hreiðrið í gær. Þá verða amma og afi í Svíþjóð glöð að sjá hann aftur. Svo heldur fjölbreytt lífið áfram og sólin mun koma upp í austri á hverjum morgni eins og hún hefur gert svo lengi og hver vill ekki verða betri manneskja af að lifa lífi sínu?


Kommentarer
Dísa gamli nágranni

Hún Rósa verður líklega ekki á ferð fyrir norðan íþetta skipti.Gaman að sjá myndirnar sem þú sendir af ungu hríseysku konunum sem eru búnar að standa sig svo vel í útlöndum og eru landi og þjóð til sóma. 'Eg ætla svo að segja ykkur þær gleðifréttir að Sara okkar er búin að eignast stelpu 12. júni 15 merkur og 52 sm. Bestu kveðjur. Dísa

2010-06-15 @ 21:57:01
Guðjón

Nei, ég á ekki von á að Rósa fari norður, það verður margt og óvænt hjá þeim að sinna í þessari Íslandsferð. Ég reyndi að gera þeim góð skil ungu hríseysku konunum eins og þú segir, mér fannst þær eiga það skilið báðar. Til hamingju með barnabarnabarnið Dísa og Ottó.



Með bestu kveðjum frá Valdísi og Guðjóni

2010-06-15 @ 22:48:03


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0