Á hótel RósaPéturHannesG

Við erum nú í Uppsala og búum í íbúð Rósu og fjölskyldu. Við komum hingað korter yfir tólf í nótt og vorum hreinlega lengur á leiðinni en til stóð. Það er svona þegar ég ek á löglegum hraða að það tekur lengri tíma en sögurnar sem ég heyri hingað og þangað. En ég er löngu hættur að skammast mín fyrir að vera lengur. Svo skammast ég mín heldur ekkert fyrir að hafa aldrei valdið tjóni í umferð að öðru leyti en því að ég bakkaði á tré eitt sinn og fékk stimpil á afturstuðarann. Það var þegar ég ætlaði að sýna konum riddaraskap á mjóum vegi.

En nú er ekkert karlagrobb lengur. Við Valdís fórum út á göngu í dag og skoðuðum okkur um og tókum nokkrar myndir (reyndar margar). Við erum nefnilega að sækja gesti á Arlanda, hana Árnýju systur Valdísar og hana Önnu Björgu vinkonu hennar og nágranna okkar í Hrísey fyrir mörgum árum. Svo hefur fluginu seinkað um fleiri klukkutíma þannig að við höfum góðan tíma hér í Uppsölum. Flugið er núna sagt koma til Arlanda klukkan þrjú í nótt.

Hér dveljum við
Þetta er nú hurðin inn til Hótel RósaPéturHannesG. Aðal nafnið þarna er dálítið skrýtið, en það er nafn á fegrunarlækni sem leigir þeim tímabundið. Þau eru búin að ganga frá kaupum á íbúð í Stokkhólmi og þau flytja þangað í september. Svo höldum við áfram að skoða Uppsali.

Valdís svolítið úfin eftirmiðdegisblund
Við hliðina á aðalinnganginum inn í húsið þar sem þau búa í Uppsala rekur han Joel lítið veitingahús. Við vorum búin að leggja okkur fyrr um daginn til að undirbúa okkur undir næturferð á Arlanda og svo fórum við niður til Joels og fengum okkur að borða. Valdís kom svolítið úfin afkoddanum og það gerði ég líka en ég birti bara mynd af henni. Minn úfni haus var enn verri.

Stæðilegt beykitré og stæðileg kona
Svo fórum við út í mjög fallegan skrúðgarð þar sem við röltum líka um um jólin þegar ég var enn að æfa mig eftir mjaðmaaðgerðina í fyrrahaust. Það var enginn smá munur maður minn frá snjónum í vetur og í allt laufskrúðið núna. Þarna stendur Valdís upp við gamalt og magnað beykitré. Það vantar mikið á að við fáum að upplifa beykitrén á Sólvöllum í þessum gildleika. En svona er það. Við manneskjurnar verðum líka að vinna að því sem við fáum aldrei að sjá sjálf, annars verður ekki svo mikið fyrir komandi kynslóðir að sjá. Þeir sem byrjuðu á teiknivinnunni fyrir Uppsaladómkirkju á þrettándu öld vissu líka mæta vel að þeir fengju aldrei að sjá ávöxtinn af þessum verkum sínum. Það bugaði þá ekki og þess vegna höfum við þennan stórfenglega helgidóm í dag.

Beykin okkar eiga eftir mörg ár í þennan vöxt
Ég er svolítið beykisjúkur og þess vegna birti ég líka þessa mynd þó að hún sé nokkuð lík þeirri fyrri. Takið eftir beykitánum


Margir úti með nestiskörfurnar
Það voru margir úti í dag með nestiskörfurnar sínar og sóttu undir stórar trjákrónurnar til að fá svolítinn svala en samt að vera úti í góða veðrinu og í nágrenni við hið magnaða líf sem gömul tré sannarlega eru.

Mörg falleg sjónarhorn
Það eru mörg sjónarhorn að finna í þessum garði sem er á bökkum Fyrisárinnar.





Þarna þurfum við endilega að borða. Þeir hljóta að hafa fisk.
Þarna sjáum við fljótandi veitingahús á Fyrisánni. Það hlýtur að vera gott um fisk í þessu veitingahúsi. Við verðum að prufa það við tækifæri. Við erum og léleg við að nýta okkur allt það sem þetta land hefur upp á að bjóða.

Íslandsfoss með meiru
Hér sjáum við upp eftir Fyrisánni móti Íslandafossi og Íslandsbrúnni. Rósa og fjölskylda búa í húsinu fyrir miðri mynd á horninu efst til vinstri. Þeirra svalir eru handan við hornið og sjást ekki á myndinni.

Nú er klukkan rúmlega tíu að kvöldi og við ætlum að leggja okkur aðeins fyrir ferðina til Arlanda. Þess vegna hef ég sett þetta inn af meiri hraða en mér er tamt og ég finn að ég hef ekki unnið þetta blogg af nægjanlegri alúð. Ég birti það samt.


Kommentarer
Rósa

Þetta er fínt blogg þó svo að þú hafir flýtt þér. Það hefur verið fínn dagur í Uppsala sé ég. Hér er líka bongóblíða.



Kveðja,



R

2010-06-24 @ 22:39:09
Valgerður

Einng blíða hér og á annað þúsund drengir ásamt fylgimönnum og konum. Ína dóttir Soffíu og Pálína dóttir hennar gista m.a. hjá mér því hún á dreng á mótinu.

VG

2010-06-25 @ 11:27:11
Guðjón Björnsson

Halló, halló!

Það er bara blíða á norðurhveli jarðar og góðir gestir á Sólvöllum og í Vestmannaeyjum. Ég hlóð inn myndum í gær og kannski kem ég þeim á framfæri núna.

Með bestu kveðju frá Guðjóni

2010-06-25 @ 16:14:33
URL: http://gudjon.blogg.se/
Guðjón Björnsson

Það er enginn svaka hiti hér en 21 gráða í algerum skugga bakvið hús.

GB

2010-06-25 @ 16:15:44
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0