Doktor Rósa

Hún hafði gaman af að hoppa í pollinum á Austurveginum í Hrísey, þessum stóra sem um tíma var móti Njálshúsinu, og þá var hún á rauðu stígvélunum sínum og við áttum heima á Bjargi. Hún hristi líka hliðgrindina hjá afa sínum og ömmu í Hrísey þegar mamma og pabbi voru að fara eitthvað og hún átti að vera þar í pössun. Hún ætlaði sannarlega að fara með okkur. Þegar hún var tólf ára vorum við á leið Suður á Fólksvagninum og vorum búin að fara fyrir Hvalfjörðinn. Svo kom Kollafjörðurinn og hún hélt að hann yrði jafn djúpur og Hvalfjörðurinn. Þá sagði hún að það yrði nú að tala um þetta við þingmennina.


Þegar við komum inn í sal 2D í Kungliga Tekniska högskolan (KTH) í Stokkhólmi á föstudaginn var, 4. júní, blasti nafnið hennar við okkur á dúknum þarna. Það var ekki alveg án tilfinninga að sjá það og áðurnefndar minningar æddu fram. Í salnum voru líklega hátt í 30 manns og það voru einhverjar mínútur í það að Rósa Guðjónsdóttir frá Hrísey verði doktorsritgerðina sína um samskipti manns og tölvu með mannfræðilegu ívafi.

Andmælandi Jonathan Grundin
Frá Bandaríkjunum hafði komið maður, Jonathan Grudin að nafni, og hann var andmælandi við þessa doktorsvörn. Hann er þarna ný byrjaður á sínu 60 mínútna langa kynningarerindi um ritgerðina. Þessi langskeggjaði, tágranni maður sem vinnur hjá Microsoft var léttur í máli og skemmtilegur á að hlýða þó að ég skildi sáralítið af því sem hann sagði. Jonathan hafði einnig verið háskólakennari í nokkur ár.

Andmælandi og doktorsnemi
Það virtist fara vel á með Jonathan andmælanda og Rósu doktorsnema meðan vörnin stóð yfir. Þarna hefur hann lokið kynningarerindi sínu og eftir það spurði hann Rósu margra spurninga sem hún varð að svara í áheyrn viðstaddra. Þegar ég tók þessa mynd var hún að svara spurningum úr sal og meðan hún svaraði þeim kinkaði Jonathan kolli næstum án afláts og hló oft. Ég heyrði á fólki þegar við vorum á leið út úr salnum að vörninni lokinni að Rósa kynni að vera skemmtileg í annars alvarlegum svörum sínum.

Klukkan hálf átta kvöldið fyrir þennan stóra dag undirrituðu Rósa og Pétur kaupsamning að rúmlega 100 fermetra íbúð í Stokkhólmi sem þau fá afhenta um miðjan september. Það voru tveir stórir dagar þarna hvor á eftir öðrum.

Næst á myndinni eru fulltrúar Danmerkur og Noregs, hvort tveggja Íslendingar
Ég var klaufi að taka ekki mynd yfir allan salinn en hér gefur þó að líta fulltrúa Danmerkur og Noregs við þessa doktorsvörn (sagt svolítið í gamni), en þau eru bæði Íslendingar. Ég blogga um þau síðar ásamt fleiri Íslendingum en verð þó að segja að konan sem er að teikna þarna hinu megin við karlmanninn er Fanney Erla Antonsdóttir frá Hrísey.

Mamma, ég er hérna og hjálpa þér
En mamma! ég er hérna! Það er allt í lagi elsku mamma mín því að ég er með þér! Þegar ég sá þessa mynd fannst mér sem Hannes væri að segja eitthvað svona við mömmu sína þar sem hann hallar sér fram og horfir á hana. Amma var lengst af med Hannes medan vörnin stóð yfir, síðan afi um stund en svo varð hann það órólegur að pabbi var fenginn til að koma. Þetta var skrýtinn dagur fyrir unga drenginn en duglegur var hann. Til hægri á myndinni er Ingigerður vinkona Rósu að bíða eftir eiginhandaráritun á ritgerðina. Þessi mynd er tekin fáeinum mínútum eftir að viðstöddum var tilkynnt að Rósa hefði staðist prófið og væri orðin doktor.

Handleiðarinn hennar Rósu og íslensk kona, Elísabet Corters
Til vinstri á þessari mynd er Yngve Sundblad prófessor og Íslendingurinn Elísabet Eir Cortes hljóðfræðingur til hægri. Yngve var leiðbeinandi Rósu við ritgerðarvinnuna og hann stuðlaði að því að Jonathan kæmi frá Bandaríkjunum til að vera andmælandi. Myndin var tekin við íþróttasvæði þar sem fólk kom saman að vörninni lokinni og gæddi sér á mat og drykk og spjallaði mikið saman. Yngve og konan hans sátu all lengi við borðið hjá okkur Valdísi og -ja hvað skal ég segja? Hann talaði afar fallega um Rósu og dugnað hennar. Um það gæti ég skrifað langt blogg. Aðstoðarleiðbeinandi Rósu var maður að nafni Henrik Artman en ég hef því miður ekki mynd af honum, þeim þægilega manni.

Andmælandi og doktor, með öðrum tveir doktorar
Hér eru þau svo Jonathan andmælandi og doktor Rósa að spjalla saman í samkvæminu. Þau taka sig alveg prýðilega út þarna.


Hér eru svo að lokum Elísabet Eir hljóðfræðingur og doktor Pétur Helgason hljóðfræðingur og stoltur eiginmaður doktors Rósu. Þetta var stór dagur fyrir marga. Doktorsritgerð er gríðarleg vinna. Ég er búinn að vera vitni að því og hefur ekki alltaf staðið á sama.


Kommentarer
Valgerður

Gaman að fá smá kíkk á þessa miklu athöfn fyrst mér tókst ekki að vera viðstödd. Fínar myndir og sætt blogg.

VG

2010-06-08 @ 10:42:44


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0