Enn frá Uppsölum

Ég birti í gær nokkrar myndir frá Borgargarðinum í Uppsölum og langaði að birta fleiri en ég komst yfir það. Þær eru hins vegar nú þegar á blogginu en bara óbirtar. Ég er bara svo gefinn fyrir að segja eitthvað að ég á erfitt með að birta myndir án texta.

Guðjón að leika tré
Hér gerði ég tilraun til að leika hlyn en gerði mig bara barnalegan. Mér finnst það hins vegar allt í lagi að gera mig barnalegan -sérstaklega ef ég geri það sjálfur og að eigin frumkvæði.

Þetta hlýtur að vera flækjufótur sem Valdís felur sig á bakvið
Svo fór Valdís í feluleik en ég fann hana. Stuttu áður fór hún að skoða einhver blóm spölkorn í burtu meðan ég var að taka myndir og ég sá ekki til hennar þegar myndatökunni lauk. Þá var ég viss um að hún hefði falið sig bakvið tré en svo var þó ekki raunin. Það er gaman að vera innan um svona trjástofna sem vel er hægt að hverfa bakvið.

Skógareik
Hér er skógareik en það voru margar slíkar þarna í garðinum. Elgurinn beit toppana af óhemju mörgum skógareikum á Sólvöllum í vetur. Einhvern tíma í vor þegar ég var að vafra um skóginn fann ég upp á því að telja eikurnar sem voru einnar til tveggja mannhæða háar og elgurinn hafði ekki bitið ofan af. Þær reyndust vera að minnsta kosti 48 og þá sá ég að ég þyrfti ekki endilega að vera að ergja mig út af þeim sem urðu að elgsmat. Ég gat vel glatt mig vegna þeirra 48 sem eftir voru og óskaddaðar. Svo eru all nokkrar eikur sem eru mun stærri en þær fyrrnefndu. Það komast ekki fyrir endalausar eikur á 6000 fermetrum þegar þær verða á stærð við stóru Sólvallaeikina, en hún er nú heldur stærri en þessi Uppsalaeik sýnist mér.

Skulptur eða hvað?
Náttúrunnar listaverk eða hvað. Þegar ég var að taka þessa mynd gekk ungur maður framhjá og sagði að þetta yrði nú fín mynd. Það liggur nokkuð í því og við Valdís dvöldum aðeins hjá þessu magnaða listaverki. Þar með var tilganginum náð; að vekja athygli okkar og fá okkur og annað fólk til að staldra við.

Rooosalega eru hjólin mörg
Eftir dvölina í þessum Uppsalagarði fór ég beint á lestarstöðina til að taka þessa mynd. Þegar ég fór með lest frá Stokkhólmi og upp í Dali í febrúar 1994 fór jú lestin um Uppsali. Þá barði ég augum þetta reiðhjólastæði í fyrsta sinn. Fólk sem kemur og fer oft með lest um þessa lestarstöð geymir hjól sín þarna. Þarna í febrúar 1994 var það næstum álíka magnað fyrir mig að sjá allan þennan ótrúlega aragrúa hjóla eins og að ferðast um neðanjarðarlestarkerfið í Stokkhólmi. Þá voru minni eða engir runnar á svæðinu og hjólin sáust mikið betur.

Aðeins meira um neðanjarðarlestarkerfi. Það var í fyrsta skipti sem ég ferðaðist um neðanjarðarkerfi og það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég kom þangað niður var að segja; hvað gera þeir eiginlega við allt efnið sem fellur til við þessa gangnagerð. Rósu og Pétri fannst það ögn broslegar vangaveltur. All nokkrum árum síðar skrifaðist inn á Vornes fyrrverandi sprengimaður sem unnið hafði í göngunum. Ég lagði fyrir hann spurninguna. Grjótið var og er meðal annars mulið niður í efsta jöfnunarlag í götur og vegagerð, mulið niður í malbik og steypumöl. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað mér leið mikið betur við að vita þetta. Hann upplýsti mig einnig um það að það færi að verða hörgull á svona efni. Ég býst við að það mál sé leyst þar sem neðanjarðarlestarkerfið og önnur göng eru í stanlausri stækkun og endurnýjun.

Þar með lýkur myndaseríu minni frá Borgargarðinum í Uppsölum. Við erum komin með gesti og ég verð að kynna þá og segja eitthvað af þeim við fyrsta tækifæri.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0