Góðir gestir

Dvölin í Uppsölum, sem ég hef nú bloggað um í tveimur síðustu bloggum, varð ekki til bara vegna þess að við Valdís ákváðum að vera ferðamenn þar. Það voru Flugleiðir sem gerðu okkur að ferðamönnum þar. Það hlýtur að vera stór saga út af fyrir sig hvernig brottför Flugleiða frá Keflavík getur frestast í níu tíma án skæðra hermdarverka og í sumarblíðu. Þá sögu kann ég hins vegar ekki. Við ætluðum að líta yfir íbúðina hjá Rósu og fjölskyldu í gær og ganga þar frá einu og öðru og fara svo til Arlanda og taka á móti gestunum okkar. En svo varð þessi gríðarlega frestun á brottför frá Keflavík og ákvarðanir teknar þar um í mörgum áföngum. Hins vegar var hreint ágætt að skoða sig um þarna en tilefnið var hreint ekki svo sniðugt. Það hlýtur að hafa verið bæði þreytandi og ergjandi fyrir alla farþega sem biðu. Í staðinn fyrir 21,20 í gærkvöldi lenti svo Flugleiðavélin á Arlandaflugvelli klukkan 6,15 í morgun. Við Valdís gátum lagt okkur eftir skrúðgarðaskoðunina og sofið dágóða stund og var ekki svo mikil vorkun.


Fagnaðarfundir á Arlanda
Svona getur það litið út á Arlanda. Anna Björg til Vinstri og til hægri Árný Björk mágkona mín að heilsa Valdísi. Endanlega voru gestirnir komnir fram. Flestir gengu afar heimsmannalega beina leið í gegnum salinn og litu hvorki til hægri eða vinstri. Þarna var hreint ekki struntað áfram. Þær heilsuðu af innileik.

Á bryggjunni í Marefred, Mälaren í baksýn
Þarna erum við komin til Mariefred á leið til byggðanna milli Örebro og Fjugesta. Þær eru ekki bara fjallkonur þessar stelpur, þær eru líka hálfgerðar sædrottningar, aldar upp við gutlandi kvikur í fjöru og stundum berjandi úthafsöldu. Við Valdís gerðum með þær eins og flesta sem við sækjum til Arlanda, að koma við í Mariefred og rölta svolítið um bryggjurnar þar, og síðan að aka fram og til baka yfir háu brúna hjá Strengnesi (Strängnäs). Bakvið þær sjáum við Mälaren og háa brúin við Strengnes liggur yfir eitt af mörgum sundum Mälaren. Frá henni er frábært útsýni til hægri og vinstri.

Komnar á samkomu á fyrsta degi
Þarna eru þær Anna Björg og Árný Björk komnar á Jónsmessuhátíðahöld skammt frá Sólvöllum stuttu eftir komuna til Sólvalla. Núna standa þessi hátíðahöld yfir sem hér eru kölluð miðsumarhátíð. Það safnast saman mikill fjöldi fólks vítt og breytt um Svíþjóð svipað og um verslunarmannahelgina á Íslandi. En þessi hátíðahöld byggjast upp af mikið meiri hefðum á margan hátt, svo sem í mat, dönsum, söng og klæðaburði.

Miðsumarkvöld
Hér situr skarinn og hlustar og nokkrir Íslendingar eru þátttakendur. Slétt flöt og skógur að baki er einkennandi við Krekklingesókn. Margir kalla landslagið hér draumlínulandslagið.

Meira miðsumarkvöld
Hér er hins vegar skarinn risinn  á fætur og nú skal dansa kringum maístöngina sem búið er að reisa þarna. Maístöngin er skreytt blómum, hún ber þarna í skóginn og er lítið áberandi. Allt frá smábörnum upp til langömmu og langafa tóku þátt í dansinum.

Svo koma dagarnir að líða einn af öðrum og við munum reyna að gera þá sem eftirminnilegasta. Nú er verið að horfa á miðsumardagskrá í sjónvarpi og borða jarðarber dreyptum með svolitlum rjóma.


Kommentarer
þóra H Björgvinsdóttir

Sælt veri fólkið gaman að skoða myndir af ykkur á ferðalaginu sé að þið eruð hress og kát ,við erum núna stödd í Laugarási í útilegu í svaka fínu veðri .

kveðja til ykkar

Þóra og fjölskylda

2010-06-26 @ 19:35:18


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0