Laugardagskvöld á Sólvöllum

Þegar ég kom heim úr vinnunni í dag stóð lítil skurðgrafa eina sjö metra sunnan við húsið og sysðst á lóðinni stóð vörubíll, ég giska á tíu til fimmtán tonn. Það var eins og eitthvað ætti að fara að ske. Mér var svo sem ekkert ókunnugt um að þessi tæki væru hér, en gröfueigasndinn kom með þetta á föstudaginn, í gær, þegar ég var farinn í vinnuna og svo ætlar hann að byrja á mánudaginn. Á mánudaginn kemur smiðurinn líka. Ég kem heim úr vinnunni um níu leytið og þá verður samráðsfundur. Síðan hefjast byggingarframkvæmdir á fullu.

Ég finn alveg að fyrir mitt leyti ég er að verða hugarfarslega tilbúinn fyrir þetta. Ég hef alls ekki verið það ef ég segi alveg satt frá. Ég hef fundið alla mögulega agnúa á að byrja og að ég þurfi að vera búinn með þetta og hitt áður en verkið fer af stað. Samt hef ég verið svolítið óánægður með að þeir komi ekki og byrji þessir kallar. Nú legg ég bara spilin á borðið og segi satt og rétt frá; ég var svolítið huglaus. Núna vona ég bara að þetta gangi hratt og borga svo reikninginn og eftir það höldum við smá veislu með til dæmis jarðaberjum og rjóma.

Ég heyri í sjónvarpinu að það er enn verið að tala um prinsessugiftingu og mannfagnaði því tengda. Valdís er meiri konungssinni enn ég en sjálfur er ég svona miðlungs konungssinni. Ég horfði á sjálfa giftinguna og óneitanlega var sú athöfn ósköp snotur. Biskupinn sem gaf þau saman er sá sami og gaf okkur Valdísi oblátuna í Uppsaladómkirkju á jóladag þannig að við eigum það sameiginlegt með prinsessunni að hafa notið þjónustu sama biskups.

Það hefur verið talað um það að kostnaður við giftinguna nemi um 330 miljónum íslenskra króna. Það hefur oft verið talað um þetta hér og í morgun las ég það í íslensku blaði. Það er blöskrast yfir þessum kostnaði. Það er minna sagt frá því að áður áætlaðar tekjur af giftingunni voru 33 miljarðar íslenskra króna. Þessar tekjur áttu að koma inn frá erlendum ferða- og fréttamönnum ásamt sölu mikils magns af minjagripum. Einnig var reiknað með að mikið af sænskum peningum færi á hreyfingu sem skapaði verslun og atvinnu. Nú er talið að þessar tekjur hafi verið mjög ofáætlaðar en þó að þær verði bara 10 % af áætluninni nemur upphæðin samt sem áður 3,3 miljörðum íslenskra króna. Það ætti þvi að verða hægt að borga nótuna án lántöku. Ég er stundum hissa á fréttaflutningi en ætti að láta mér standa á skít sama.

Aftur að okkar málefnum. Ég hlakka til að leggja af stað heim úr vinnunni á mánudagsmorguninn. Þar með verð ég kominn í tveggja vikna frí og á þeim tíma vonum við að mikið komist í verk í sambandi við viðbygginguna á Sólvöllum. Eftir viðbyggingu viljum við Valdís fara að komast í meiri ró. Við viljum til dæmis fara að gera ferðadrauma okkar að veruleika og það eru ýmis önnur hugðarefni sem við getum hugsað okkur að sinna. Samt verður þetta ár annríkisár. Á fimmtudag í næstu viku koma systir Valdísar og gamall Hríseyingur vinkona hennar í heimsókn. Það verður því eitt og annað sem lyftir hversdagsleikanum hjá okkur á næstunni.


Kommentarer
Guðmundur Ragnarsson

Sæl verið þið, Valdís og Guðjón. Nýbúin að byggja við Sólvelli og ætlið að byggja meira? Það er aldeilis kraftur í ykkur. Eruð þið kannski að hugsa Sólvelli sem framtíðarheimilið ykkar? Það væri örugglega yndislegt.

Bestu kveðjur,

Guðmundur

2010-06-20 @ 12:39:18


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0