Gott fólk

Ég var á fundi í Fjugesta áðan. Á þessum fundi voru fimm menn og konur sem sögðu sannleikann um líf sitt. Þeir sem koma á þessa fundi, eru heiðarlegir og segja sannleikann, þeim vegnar vel. Er þetta ekki einfalt? Jú, það er einfalt. En það finnst eitt skilyrði sem verður að uppfylla til að þetta komi að gagni. Viljinn verður að koma frá hjarta hvers og eins, það er að segja; það kemur engum að gagni nema hver og einn vilji það sjálfur. Það er til setning sem hljóðar svo: Enginn getur hætt drykkjuskap nema vilja það sjálfur.
 
Þannig er nú það.
 
Í fyrrakvöld ákvað ég að bretta upp ermarnar að morgni og vera duglegur hér úti. Svo kom þessi morgun, það er að segja í gærmorgun, og þegar ég vaknaði fann ég á mér að ég mundi ekki bretta upp ermarnar af þeim krafti sem ég hafði ákveðið kvöldið áður. Ég vildi samt ekki viðurkenna það fyrir sjálfum mér og lauk við að taka upp úr ferðatöskunum. Svo eldaði ég hafragrautinn og þegar ég var að blanda hvönninni sem ég fékk hjá honum Bjarna Thór í Hrísey út í grautinn þá hringdi dyrabjallan. Það glaðnaði yfir hjarta mínu þar sem ég sá fram á gestakomu og þá þyrfti ég ekki að fara alveg strax út að vinna. Gaman, gaman.
 
Inn stigu hjón, þau sem seldu okkur Sólvelli. Þau koma einu sinni til tvisvar á ári í heimsókn. Þeim þykir ennþá vænt um þennan stað og þau vilja gjarnan fylgjast með hér og það er þeim svo velkomið. Svo borðaði ég grautinn en þau drukku fläderblomsaft sem ég átti í ísskápnum og það urðu líflegar umræður um allt mögulegt. Mér líkaði þetta vel því að ég fékk þar með fullgilda afsökun fyrir því að fara ekki strax út til að flytja til eldivið og eldiviðarskýli áður en hann Martin gröfumaður kemur til að laga til kringum Sólvelli. En svo kom að því að þessi hjón færu og stundin nálgaðist þegar ég mundi verða að leggjast á fjóra fætur til að tína eldiviðinn upp í hjólbörur bakvið Bjarg.
 
En lánið lék við mig. Þegar gestirnir voru í þann veginn að rísa á fætur klingdi aftur í dyrabjöllunni. Ég gekk fram og leit út. Jú, þarna var hún komin hún Eva. Eva er íslensk sómakona sem á marga kunningja í Örebro en nú býr hún sjálf í héraði norðan við Stokkhólm. Hún var á ferð í Örebro og notaði tækifærið til að heimsækja kunningja og vini svona eins og gengur. Hjónin fóru og við Eva settumst út í sumarblíðuna með tebollana okkar. Svo var komið hádegi og Eva fór.
 
Rétt þegar Eva var farin hringdi síminn. Það var mikil vinkona Valdísar sem var á línunni og hún vildi bara vita hvernig það hefði gengið á Íslandi. Svo töluðum við saman all nokkurn tíma og hún fékk skýrslu um það hvernig allt hefði gengið fyrir sig með minningarathöfn í Reykjavík og athöfn í Hrísey.
 
Svo er það nú málið hvers vegna ég er að gefa þessa skýrslu um heimsóknir og félagsskap þann sem ég hef hér á Sólvöllum. Inn í það vil ég líka taka fundinn sem ég sat í kvöld. Jú, ef það eru einhverjir ættingja og vina á Íslandi sem velta því fyrir sér hvernig mín félagslega staða er hér, þá er þetta svolítið svar við því. Fólkið sem kom og vinkona Valdísar sem hringdi bentu mér á að þau fyndust ef ég þyrfti á fólki að halda. Svo hafa fleiri boðið upp á og ég mun ekki verða í vandræðum á næstunni ef ég tel mig þurfa félagsskap. Það er mikið til af góðu fólki. Í dag hringdi líka skólasystir mín frá Skógum sem býr meira og minna í Svíþjóð. Hún hefur heimsótt okkur hingað og henni og Valdísi var ágætlega til vina.
 
En út fór ég seinni partinn í gær, glaður og þakklátur fyrir heimsóknir og athygli. Ég bardúsaði við viðinn og færði til tvö viðarskýli í gær og í dag. Svo á ég eftir að færa eitt í viðbót. Mér liggur ekki lífið á þar sem Martin kemur ekki fyrr en á sunnudag, en þá ætlum við að ræða saman um verkefnið og áætla magn af drenrörum, möl og mold. Svo kemur hann seinna til að vinna það. En að byrja í tíma forðar mér frá því að lenda í tímaþröng. Það er nefnilega eitt af því sem ég hef unnið við að fá inn hjá fólki í Vornesi, að draga ekki til síðustu stundar. Það gerir okkur stressuð. Ekki hefur mér alltaf tekist þetta sjálfum en alla vega svo oft að ég sé mér er fært að breiða út boðskapinn.
 
Klukkan er rúmlega tíu að kvöldi og það er búið að rigna 5 mm síðustu tímana og enn er rigning. Hitinn er siginn úr 24 stigum niður í 17 og ég get rétt ímyndað mér hversu þakklátur gróðurinn er fyrir þessa vætu, þetta græna haf bæði á láði og í lofti liggur mér við að segja, gras, mosi, lyng og blóm og allur þessi endalausi aragrúi laufblaða sem eru í óða önn að vinna mannkyninu lífsnauðsynlegt súrefni. Þetta fallega græna haf sem ég er fullkomlega ástfanginn af. Það verður gaman að líta út á morgun.


Kommentarer
Björkin.

Gott að eiga góða vini mágur minn.Líði þér vel.

Svar: Takk sömuleiðis.
Gudjon

2013-06-20 @ 13:09:40


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0