Þessi frábæri staður

Ég var eftirvæntingafullur vegna heimkomunnar síðustu dagana og ekki minnst á leiðinni heim. Þegar ég fór að heiman síðasta daginn í maí gat ég ímyndað mér að sumarið væri komið að þremur fjórðu eða svo. Þegar ég var svo að aka síðustu kólómetrana heim að Sólvöllum í dag sá ég vel að sumarið var komið að fullu. Og þegar ég kom inn gegnum hliðið á grjótveggnum sem er á lóðamörkunum vestan við húsið sá ég Sólvelli í meiri skrúða en nokkru sinni fyrr. Það var enginn vafi.
 
Á slíkum stórum augnablikum verð ég hrærður. Ég tala oft um að vera hrærður. Einhvern tíma held ég að það hafi verið sagt að það væri "kellingalegt". Hins vegar held ég að það hafi verið útskýring okkar karlmanna á því að það væri ekki karlmannlegt að vera með tilfinningavellu. En sannleikurinn er bara sá að þegar ég kom á bílnum inn um hliðið og þegar ég var kominn út úr bílnum og horfði á umhverfið hér heima -þá var ég hrærður.
 
Hvílíkur ríkidómur að hafa skóginn fyrir granna hér á Sólvöllum. Áður en við eignuðumst Sólvelli hafði ég mótað með mér draum um það hvernig umhverfi frístundahúss okkar Valdísar ætti að líta út. Sá draumur finnst líka niðurskrifaður á blaði. Þar segir að vegurinn þangað heim eigi að vera bugðóttur, að skógur eigi að vera gróskumikill og hóflega viltur að baki húsinu og jafnvel að hluta fyrir enda þess en að frá framhliðinni eigi að vera víðáttumikið útsýni. Frá framhliðinni á að halla niður í móti góðan spöl og niður á jafnsléttunni þar fyrir neðan á að vera stöðuvatn. Það má segja að nokkurn veginn allt í þessari lýsingu standist utan að síðasti vegarspottinn heim að húsinu er beinn og stöðuvatnið vantar inn í myndina.
 
Þar sem ég stóð hjá bílnum og virti þetta fyrir mér ákvað ég að fara í gönguferð um fremsta hluta skógarins áður en ég færi inn með matvörurnar sem ég hafði keypt á leiðinni heim. Ég heimsótti nokkra einstaklinga í þessum skógi, snerti þá, rannsakaði vöxt og virti þá nákvæmlega fyrir mér. Svo áttaði ég mig á því hversu vel skógarálfarnir mínir höfðu hlúð að Sólvöllum meðan ég var á Íslandi. Skógarálfarnir heita Auður og Þórir. Og það var ekki nóg með að þau hefðu hirt allt svo ótrúlega vel, þau höfðu líka skrifað dagbók fyrir hvern dag sem þau dvöldu hér. Það gladdi mig mjög að þeim virðist hafa liðið mjög vel þann tíma sem þau voru hér.
 
Ekki er ég viss um það hvernig tíminn leið en allt í einu var komið að því að fara á 17. juní fagnaðinn sem stofnað var til á heimili einu í Örebro. Ég pakkaði aðeins að hluta upp úr töskunum, setti marvörurnar í ísskápinn, fór í sturtu og mætti hálftíma seinna í fagnaðinn en til stóð. Það voru all nokkrir saman komnir þarna en ég hafði ekki hitt nema fáa af þeim.
 
Nokkrir þjóðháttíðargestanna. Dugnaðarforkurinn hún Rósa Ólafsdóttir situr þarna fyrir endanum, en það er hún sem á heima þarna og var driffjöður að þessu kvöldi. Hann Guðni, maður sem ekki sést á myndinni, hafði slegið hugmyndinni upp á fb og svo vildi eiginlega hvorugt þeirra, Rósa eða Guðni, taka á sig æruna. En þau fá bæði plús í kantinn frá mér fyrir framtakið og sérstaklega Rósa fyrir að lána heimili sitt. Á myndinni er allt Íslendingar nema mennirnir sem eru lengst til vinstri og hann fyrir endanum við hliðina á Rósu. Ég hef hengt mikinn alvörusvip á andlitið á mér samkvæmt þessari mynd. Ég þarf eiginlega að fá mér nýjan svip svo að ljós mitt fari líka að lýsa.
 
Hér með er komið kvöld á Sólvöllum með viðeigandi rútínum. Á morgun verð ég svo að klára að taka upp úr töskum og koma skipulagi á heimilið. Það var skipulag á því þegar ég kom heim en ég sprengdi það í dag þegar ég var að búa mig í veisluna í Örebro.


Kommentarer
Rósa

Fínn hópur þetta.

Kveðja,

R

Svar: Já, nákvæmlega, fínn hópur.
Gudjon

2013-06-18 @ 00:03:19


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0