Um borð í flugvélinni Laka

Um borð í Laka

Fyrrum fannst mér gaman að vera á flugvelli og bíða brottfarar. Það virðist vera liðin tíð. Að vera á Keflavíkurflugvelli í dag og bíða brottfarar var með öllu óáhugavert, ruglingslegt og nánast leiðinlegt. Þegar ég fékk mér tvo flatkökubita og eina væna ostaköku med góðum kaffibolla, þá upplifði ég bestu stundina á flugvellinum. Eftir það nálgaðist brottför.

Ég var með þrælvönu ferðafólki, Rósu og Pétri, og það var næstum að Hannes Guðjón skákaði mér í heimsmennsku. Hefði ég verið einn hefði ég bjargað mér áfram en nú var ég það ekki og mitt hlutverk varð því mikið að elta. Mér fannst Keflavíkurflugvöllur mjög mikið flóknari en Arlanda. Meðan við vorum í Keflavík renndi ég huganum til baka og komst að því að ég hef ekki verið á öðrum flugvöllum en Arlanda og Keflavík síðan 1994, en það ár heimsótti ég Osló og Kaupmannahöfn að auki. Jú og reyndar Bergen líka í fyrra. Samkvæmt þessu verð ég að teljast reynslilítill ferðamaður. Kannski ætti ég ekki að bera slíkar staðreyndir á borð á almannafæri en ég  læt mér í léttu rúmi liggja.

Í minni 16 daga Íslandsferð hefur margt borið á góma og margt hefur hent sem ég hef séð sem efni í blogg. Þó man ég sáralítið af því þar sem ég sit nú um borð í þotunni og er kominn austur af Íslandi í rúmlega 11 km hæð. Annað er þess efnis að ég mun einungis blogga um það einsamall í kyrrðinni á Sólvöllum með útsýni inn í hljóðlátan Sólvallaskóginn. Í myndavélinni eru margar myndir sem munu minna mig á það mesta sem mér þykir mikilvægt eftir þessa Íslandsferð. Þar er að finna dagbók ferðarinnar. Þó verð ég að segja að erindi þessarar Íslandsferðar er ofarlega í huga mér flestum stundum.

Nú er þeim erindagerðum lokið og eiginlega getur það kallast önnur kaflaskiptin í lífi mínu á stuttum tíma. Nýr kafli tekur nú við þar sem ég mun forma líf mitt að nýjum aðstæðum. Ástæðan til þess veldur mér trega en verkefnið er eiginlega forvitnilegt, ég vil ekki segja spennandi, en það er alla vega undir mér komið hvernig mér mun reiða af framvegis.

Áðan neyddist ég til að fara á klósettið aftast í vélinni. Ég þurfti að semja við flugfreyju um að bakka med söluvagninn sinn um fjórar sætaraðir. Meðan ég beið eftir að hún lyki við að afgreiða tvo farþega sem voru að kaupa smáflöskur af sterku áfengi reikaði hugur minn til baka í tíma, til þeirra ára þegar augu mín stóðu á stilkum þangað til þessi söluvagn kom að sætaröðinni minni. Núna horfði ég á þessi viðskipti og fannst þau tákna tómleika.

Heppinn ég í dag að vera ekki á því tímabili lífs míns. Þá væri ég ófrjáls maður og það er undir mér komið að halda mig á landssvædi hins frjálsa manns. Þegar ég skrifaðist út af Sogni í mars 1991 fékk ég pening hengdan um hálsinn, pening sem var hengdur í mjóan borða með íslensku fánalitunum. Við það tækifæri átti ég að lesa upphátt það sem stóð á annarri hlið þessa penings og ég las þar með hrærðum huga orðin:  "Ég er ábyrgur". Þennan pening á ég og varðveiti vel. Ég er svo sannarlega ábyrgur fyrir því að skapa mér viðunanlega framtíð.

Þegar ég byrjaði að skrifa þetta blogg yfir Suðausturlandi vissi ég ekki hvað var framundan í þessum línum. Núna yfir fjalllendinu vestan við Osló veit ég það. Ég veit ekki alltaf hvert ferð er heitið þó að það sé aðeins ég sem er ábyrgur. Ég sit mitt inn í flugvélinni og get ekki einu sinni horft niður á skýin. Samt hef ég verið á mínu eigin ferðalagi mitt í þessari ferð heim til Svíþjóðar. Ég átti um það að velja að horfa fram fyrir mig, kannski blunda aðeins, og láta tímann líða hjá. Ég á erfitt með að festa hugann við lestur þegar ég sit í flugvél. En að skrifa það sem kemur upp í hugann leiðir til einhvers. Það er eins og hugleiðingarnar taki óvæntar stefnur og það verði þar að auki fáist einhver niðurstaða Ég hlakka til að koma heim og hugleiða framtíð mína. Ég á heldur ekki ekki annarra kosta völ. Nú veit ég hvert þetta bloggferðalag leiddi mig.

Í lest
 
Þad er kominn nýr dagur og ég sit í lest á leiðinni frá Stokkhólmi til Örebro. Ég gisti hjá Rósu og fjölskyldi í nótt. Þessir hlýlegu og vinalegu sænsku skógar sem þekja meira en helming landsins þjóta hjá. Þeir eru nú í sínu safaríkasta og fegursta skrúði. Víst hendir það að mér getur fundist skógarnir taki frá mér útsýni en það er ekki oft. Héðan úr lestinni sé ég líka byggðir, akurlönd, hæðir, sund og stöðuvötn, síðan loka skógarnir á utsýnið aftur. Svo endurtekur þetta sig aftur og aftur og þegar öllu er á botninn hvolft er fjölbreytileikinn mikill.

Ég hef valið að búa í þessu landi sem ég fékk fyrst að reyna árið 1994. Ég hef valið það umfram íslensku víddirnar. Íslensku víddirnar eru hluti af mér og þær eru góðar heim að sækja ásamt fólkinu sem býr þar. Nú er ég á leið heim úr einni slíkri heimsókn og ég finn tregann iða innra með mér þegar ég er að setja saman síðustu orð þessa bloggs. Ég fann líka fyrir því í flugvélinni á leiðinni yfir hafið i gær.

Í gær var mér boðið að taka þátt í smá 17. júní fagnaði sem íslendingur í Örebro boðar til heima hjá sér í kvöld. Eftir göngu um Sólvallaskóginn og margs konar aðrar kannanir heima á Sólvöllum þegar ég kem heim, mun ég taka mig þangað og hitta landa mína. Á morgun tek ég síðan til við margs konar verkefni heima vitandi það að það er til fullt af fólki sem býður mig velkominn, bæði hér heima og einnig í landi víddanna. Ég velkomna líka þetta fólk heim til mín. Stórfjölskyldan í heild er býsna stór ef að er gáð.

Líklega birti ég líka þetta blogg þegar ég kem heim.



Kommentarer
Anonym

Gott að ferðin gekk vel mágur minn.Takk fyrir bloggið. kveðja.

Svar: Kveðja til baka.
Gudjon

2013-06-17 @ 21:52:03


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0