Kannski er ég bara stór skrýtinn

Ég fór í kvöldgöngu út í skóg í gærkvöldi og var vel vakandi yfir áhrifunum sem gangan mundi hafa. Áhrifnin voru þessi venjulegu, grænt, grænt og grænt og mikið fuglalíf, kyrrð og notalegheit. Það sem kom mér reyndar á óvart var hið milda ga-gú hljóð gauksins eða var það kannski bara a-ú. Ég reyndi að heyra hvort var en varð ekki viss. En þetta hljóð er einfaldlega hluti af kyrrðinni. En skrýtið. Ég hélt að ástarlífstími fuglanna væri um garð genginn undir lok júní eða er þessi ástartími gauksins lengri en annarra fugla? Ég fékk ekkert svar við þeim hugleiðingum annað en að þær gerðu þessi hljóð svolítið rómantísk. Einhver var að kalla á eða til elskunnar sinnar.
 
Burknahöfin eru sérstaklega heillandi í skóginum um þessar mundir. Þeir ná mér víða í mitti og upp á miðja síðu. Já, óneitanlega heillandi.
 
Í dag hefur það verið eins og aðra síðastliðna daga að ég hef verið óskipulagður. Málið er bara að mér fannst það allt í lagi í dag. Ég leit til ungu grannanna sunnan við. Þau voru búin að setja húsvagninn aftan í bílinn en þau voru ekki farin. Ég ætlaði að fara út og hreinsa til bakvið Bjarg þegar ég yrði einn á svæðinu. Þessi miðsumardagur er Svíum svo óskaplega mikilvægur að ég vildi ekki ganga fram af þeim með brambolti. Ég beið því með að fara út og leit á feisbókina, fyrirsagnir í blöðum og vappaði svolítið fram og til baka.
 
Svo fóru ungu grannarnir sunnan við að heiman og stuttu eftir að þau fóru varð ég var við bíl á veginum. Það voru grannarnir hinu megin sem hafa ekki verið hér í tvo daga. Þau óku inn á stíginn heima hjá sér og fóru óvenju langt inn á hann. Það boðaði að þau ætluðu að halda dagnn hátíðlegan hér og að þau fengju líka gesti. Sú varð líka raunin á og ég tók nýja ákvörðun. Ég nota daginn til að útrýma reyniviði. Síðan tók ég greinaklippur og klippti niður ótrúlegt magn af reyniviðarplöntum og þá tala ég um hundraðatal. Það var hljóðlátt verk en tiltektin sem ég ætlaði í hefði verið að tína mikið af grjóti upp í hjólbörur og það fer ekkert hljóðlega fram.
 
Ég hélt jafnframt uppteknum hætti og vappaði fram og til baka inn á milli, horfði á tré, hugaði að verkefnum framtíðarinnar sem lúta að því að hlú að skóginum. Ég fór inn og leit á feisbókina, leit í blöð og fékk mér te. Í einni af þessum ferðum mínum inn tók ég færeyskan lax út úr frystinum og lagði á disk. Svo vatt ég mér út úr dyrunum og áleiðs móti skóginum. Nú ætlaði ég í eina gönguferðina enn. Þá gekk ég framhjá luktinni hennar Valdísar sem stendur við rósirnar hennar. Ég kveiki á kerti í kvöld hugsaði ég, en það logaði á kerti í þessari lukt svo gott sem allan tímann frá andláti hennar þangað til við fórum til Íslands. Um leið og þessi hugsun greip mig setti það í gang einhverja bækistöð í tilfinningalífi mínu. Svo hélt ég áfram hugsandi um það að táradalurinn væri ótæmandi.
 
Eftir ein fimmtíu skref kom ég að tegund hlyns sem bara er til sem plöntur hér á Sólvöllum. Ein þeirra er þó sýnu stærst og hún er bakvið Bjarg, tæplega mannhæðar há. Þegar ég kom að henni blöstu við mér fallegir blómaklasar sem prýða þessa plöntu, mikið seinna en á örum tegundum hlyns hér í skóginum. Við það að horfa á þessi undur fallegu blóm fékk það huga minn til að hvarfla að öðru en sorg og trega. Þau eru ótrúlega falleg og eru búin að vera það í marga daga.
 
Ef þessi hreinleiki lyftir ekki upp huganum, hvað þá?
 
Eftir að ég kom til baka úr skóginum hélt ég áfram slag mínum við reyniviðinn vel fram á eftirmiðdaginn, eiginlega fram undir kvöld. Svo vökvaði ég grænmeti, dreif mig í sturtu og hóf matargerð. Laxinn frá Færeyjum leit girnilega út.
 
Maturinn tilbúinn í ofninn. Mundi einhver vilja borða þetta með mér? Tvær tegundir af tómötum, paprika, timjan og kóriander. Undir eru 250 grömm af færeyskum laxi. Trúlega hefði ég átt að setja timjan og kóriander undir tómatsneiðarnar og paprikuna. Svo hellti ég náttúrlega matargerðarrjóma yfir allt saman.
 
Salatið úr grænmetisræktinni hennar Rósu er líka gott, með bara öllu! Svo ef avakadó er haft með öllu saman eins og ég geri stundum verð ég stór og sterkur -kannski loksins fullorðinn líka.
 
Svo getur maturinn líka litið svona út. Það er rauðspretta undir rauðmetinu, rauðspretta sem var kvöldmatur í fyrradag. Allt er þetta hollt nammi.
 
Kvöldhúm hefur lagst yfir Sólvelli og sveitirnar i kring og mikil kyrrð er ráðandi. Gaukurinn er líka hljóður. Hann heldur líklega utan um elskuna sína núna. Þó að það sé einhver veisla hjá nágrönnunum norðan við er ósköp hljóðlátt hjá þeim. Það var rétt af mér að sýna þeim nærgætni í dag á þessum stóra hátíðisdegi þeirra.
 
Ég hef velt því fyrir mér hvers vegna mér líkar svo vel að vera einn um þessar mundir. Það er kannski ekki bara að ég sé stór skrýtinn. Það er búið að vera mikið umleikis undanfarnar vikur og mikil samtöl við alla mögulega og mikil samvera með fólki. Ég er svo sem ekki áhyggjufullur af sjálfum mér. Ég get líka sagt að ef einhver rólyndis manneskja hefði bankað upp á hjá mér þegar ég byrjaði að borða kvöldmatinn og spurt hvort ég vildi félagsskap við borðhaldið, þá hefði ég örugglega sótt annan disk með glöðu geði. Lífið fer þrátt fyrir allt góðum höndum um mig.
 
Um sex leytið kveikti ég á kertinu í luktinni hennar Valdísar. Það mun loga í nokkra daga. Ég hef bloggað mikið um Valdísi og margt kringum þann lokaferil allan. Það er væntanlega mál að linni. Það er þó eitt sem ég á eftir að blogga um en ég vil þó ekki ljóstra því upp hvað það fjallar um, annað en að það fjallar um trú. Áður en ég birti það blogg, sem ég veit ekki hvenær verður, mun ég fyrst birta aftur blogg sem ég birti í fyrra, bara til að fá samhengi í hlutina.
 
Fyrr í vikunni bloggaði ég um félagslega þáttinn og í kvöld talsvert um mat. Ég vona þar með að fólk sjái að ég spjara mig.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0