Aftur í heimsókn við Hjälmaren

Í gær birti ég blogg með myndum frá þorpinu Hampetorp við Hjälmaren. Á leið heim frá vinnu í dag heimsótti ég Hjälmargården sem er í öðru þorpi við Hjälmaren, þorp sem heitir Leppe. Þennan stað eiga fríkirkjurnar í mið Svíþjóð og reka þar meðal annars mikið æskulýðsstarf. Það voru hundruð tjalda þarna á öllum grasflötum í dag og iðandi af fólki um allt. Mikil ró var yfir öllu og enginn lögregla sjáanleg. Við Valdís komum þarna með margan Íslendinginn til að borða hádegisverð og það hefur alltaf verið sama sagan að það hefur alltaf verið ró yfir öllu á þessum stað. Nokkrum sinnum höfum við sem vinnum í Vornesi borðað jólaborð á Hjälmargården.
 
 
Það er stór veitingasalur á þessum stað, í húsinu á efstu myndinni, og svo er þar lítið, gamalt en vel hirt hús sem heitir Kaffistofan. Ég fékk mér væna brauðsneið á Kaffistofunni og settist svo út í sumardaginn með brauð mitt og kaffibolla. Kaffi var það í þetta skiptið og hálfan sykurmola setti ég út í kaffið til að gera síðdegið notalegra. Útsýni hafði ég þarna frá borðinu austur yfir Hjälmaren til eyja og annesja sem þar eru. Svo borðaði ég mína brauðsneið í ró og næði, naut blíðviðrisins og horfði á fjölda manns sem var á stjái um allt.
 
 
Hér er séð norður yfir Hjälmaren frá Hjälmargården og niður á vatnsbakkanum var hljómsveit að koma fyrir græjum sínum. Það á greinilega að vera ball þarna í kvöld. Helst sýndist mér að það ætti að verða barnaball. Það má eiginlega segja að það er mikið fallegra á þessum stað en myndavélin kemst yfir að sýna.
 
 
Frá Leppe hélt ég vestur á bóginn til Dimbobaden. Þar er bílastæði þar sem margur Íslendingurinn hefur stoppað með okkur til að horfa yfir Hjälmaren og það var frá því bílastæði sem ég tók þessa mynd í dag í heiðursskini við alla þá sem þar hafa komið með okkur. Sá elsti sem ég man eftir var Sigmann Tryggvason frá Hrísey. Það hefur verið sumarið 1997 eða 1998 sem við vorum þar með honum og Lilju Sigurðardóttur konu hans og Margréti dóttur þeirra. Ég nefni þetta fólk sérstaklega vegna þess að Sigmann var þá kominn á hán aldur og þegar ég horfði á hann ganga þarna um fannst mér sem það væri eiginlega ekki alveg raunverulegt. En vissulega var það raunverulegt.
  
Hér er svo komið í Krekklingesókn í Lekebergshreppi. Hér er Hjälmaren löngu að baki og tekið við mjúköldótt landslag sem sumir kalla draumalandslagið. Það er mikið mjöl sem er að vaxa á akrinum á þessari mynd og á ökrunum bæði hægra og vinstra megin við það sem sést á myndinni. Einnig á ökrunum sem voru aftan við mig þar sem ég stóð. 
Enn hef ég nálgast Sólvelli og mjúköldótta landslagið heldur áfram og enn vex mjöl á ökrunum.
 
 
Langa, rauða húsið hægra megin á myndinni er hlaðan hans Mikka bónda á Suðurbæ. Lengra til vinstri upp á hallanum eru Sóvlellir.
 
Það einhvern veginn þannig að Sólvellir eru alltaf bestir og gott að koma heim. Sjónarhornið er ekki nýtt á blogginu mínu en myndina tók ég við heimkomuna áðan þannig að hún er ný. Ég setti töskuna mína inn í forstofuna um leið og ég kom heim og hélt svo í athugunarferð um eignina, setti út eina eggjarauðu handa broddgeltinum og fékk mér aðra. Til öryggis, ef ég skyldi komast svo snemma frá Vornesi á morgun að ég geti heimsótt Fiskeboda við Hjälmaren, þá er ég búinn að setja myndavélina aftur í töskuna mína. En nú þarf ég að vera fljótur að bursta og pissa og svo er ég búinn að semja um það við Óla L að koma snemma til að vagga mér í ró. Ég vil vera úthvíldur og hress í Vornesi á morgun. Svo verð ég heima í fjóra daga.


Kommentarer
Björkin.

Á fallegar og góðar minningar frá þessum frábæru stöðum með ykkur hjónunum.Krammmmmmmmmm.

2013-06-28 @ 23:37:15


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0