Góðviðrisdagurinn 25. júní 2013

 
Það var fallegur morgun að vakna til í Vornesi í dag. Paradísarrunninn á baklóðinni þar er nú í sínum fegursta blóma og ég var reyndar með myndavélina með mér. Hinu meginn við þennan runna sátu nokkrir sjúklingar í náttfötum og slopp og reyndu að gera sitt besta úr morgninum. Slíkt hið sama gerði ég og var á rölti um hús, milli húsa og meðal fólks þangað minn tími var kominn til að fara heim um klukkan tíu. Þá renndi ég úr hlaði.
 
 
Ég ók rakleiðis til staðar sem heitir Hampetorp eina 20 km frá Vornesi. Þar er lítið höfn við Hjälmaren fyrir ferju og smábáta. Ferjan gengur út í byggða eyju spölkorn þar frá. Ég ákvað að líta þar við og gá að myndefni. Þarna er ég á leiðinni niður að bryggjunni sem er neðst í þessu snyrtilega þorpi.
 
 
Þetta er ekki beinlínis dæmigerð íslensk ferja. Eiginlega langaði mig að aka um borð og skreppa út í eyna, Vinön. Við Valdís fórum einu sinni þangað en þá á ís þar sem akstursleiðin var stikuð á ísnum og margir notfærðu sér það.
 
 
Austan megin við bryggjuna. Skógi vaxnar eyjar hingað og þangað, fólk að dorga og fólk á ferli.
 
 
Vestan við bryggjuna. Áfram skógi vaxnar eyjar og fjærst sér í ströndina norðan megin. Ef að er gáð sést hús næstum fyrir miðri mynd, lengst til vinstri á eyjunni sem næst er. Þessa mynd dró ég svolítið að þannig að fjarlægðír eru ekki alveg raunverulegar.
 
 
Á leiðinni frá ferjubryggjunni aftur upp í þorpið Hampetorp. Ég var að reyna að reikna það út í fyrra hvað ég væri búinn að fara oft gegnum þetta þorp og komst að því að það væri ekki minna en 3000 sinnum. Líklega oftar. Þarna átti ég eftir eina 55 km heim. Það er lengra fyrir mig í Vornes núna en þegar við bjuggum í Örebro.
 
 
Þegar ég kom svo heim var allt eins og vant er. Hlynirnir þarna biðu eftir mér. Nú er ég búinn að birta svo margar myndir frá Sólvöllum að ég hef held ég engin ný sjónarhorn til að birta myndir af.
 
 
Út í skógi fann ég þó þennan stað og var alveg viss um að ég hefði aldrei birt mynd af honum. Það var hljótt og gott að koma heim og spássera í kyrrðinni. Ég vistaði þessar myndir inn á bloggið í gær en mér vannst enginn tími til að setja við þær texta þá. Ég skrifa línurnar samt eins og ég hafi gert það í gær. Ég merki samt að ég ætlaði að segja allt aðra hluti um myndirnar í gær en það sem mér tókst að segja núna. Ég er ekki ánægður með þennan texta. Einhvern annan dag þegar ég hef unnið nótt mun ég koma við á einhverjum öðrum  stað og athuga hvað fyrir augun ber þar. Þann dag þarf ég kannski ekki að slá lóðina þegar ég kem heim.
 
Ég lét það nefnilega ganga fyrir að slá lóðina eftir að ég kom heim þar sem það var spáð rigningu og þá hefði lóðin orðið allt of loðin. Rigningin gekk eftir og sprettan lét ekki á sér standa. Það er búið að rigna all mikið í sólarhring og græni liturinn allt um kring er hreinn, ferskur og ég þori að fullyrða ánægður. Ánægðastur verð ég núna ef ég hraða mér í að bursta og pissa og koma mér svo í rúmið. Klukkan fimm í fyrramálið hringir svo klukkan en ég geri ráð fyrir að vakna einhverjum mínútum áður en hún hringir. Það er best þannig.
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0