Og hér pípti klukkan

Ég kannski vatt mér ekki beinlínis fram úr rúminu í morgun en eftir smá vafstur hér inn í svefnherberginu og skrif í tölvu gekk ég röskum skrefum fram í eldhús, fékk mér eitt stórt vatnsglas að drekka, og setti svo hrærivélina á eldhúsbekkinn. Því næst leit ég inn í mjölskápinn -en viti menn; það voru bara til tveir bollar af rúgmjöli. Rúgbrauðsbakstrinum var því frestað fram yfir næstu búðarferð. Ef til vill verður sú ferð í dag.
 
Þetta með baksturinn þarna í morgun var bara algert rugl. Það vantaði ekki bara rúgmjöl, það vantaði líka súrmjólk, jafnvel heilhveiti og jafnvel natron. Og búðarferðinni er nú lokið og ég er búinn að kaupa allt sem til þarf og meira en það. Eiginlega finnst mér það svolítið sniðugt þegar Guðjón frá Kálfafelli fer út í búð og kaupir bikarbonat, það er að segja natron. En svona er það, mér fer fram með degi hverjum.
 
Ég man ekki hvort ég sagði í gær að ég ætlaði að vera duglegur í dag. Hafi ég sagt það einhvers staðar, þá hef ég ekki verið það. Ég hef hringlað all nokkuð fram og til baka, ögn skipulagslaus, og á svolítið erfitt með að stilla mig inn á líf ellilífeyrisþegans, það er að segja að þurfa ekki að afkasta miklu. En ég hef komið ýmsu í verk og framkvæmt nokkuð sem var kannski ekki fyrir einn að framkvæma. En það tókst og mér þótti vænt um að þurfa ekki að kjalla út neitt björgunarlið til að aðstoða mig. Svo hef ég lesið blaðagreinar og leitað uppi ýmsan fróðleik á Google.

Svo fór ég í innkaupaferð og hún tók mjög mikið lengri tíma en ég ætlaði. Það er Jónsmessuhelgi sem hér er kölluð miðsumar (midsommar) og sú helgi er Svíum afar mikilvæg. Eins og verslunarmannahelgi og hálafgerður þjóðhátiðardagur með meiru og mikið um hefðir, fiðluleik og þjóðdansa víða um land. Því voru verslanir beinlínis fullar þegar ég kom í kaupfélagið og alls ekki hægt að versla í neinu snatri. Ég ætlaði að fara út þegar ég kæmi heim og halda verkum mínum áfram um stund. En svo seint kom ég til baka að ég sneri mér beint að matargerðinni og nú bíð ég eftir að klukkan pípi sem þýðir að maturinn er til. Í ofninum er nefnilega þorskflak úr Barentshafi ásamt tómat, plómutómötum, papriku, lauk og rjómaskvettu. Mikið hollur og góður matur.
 
Og hér pípti klukkan.
 
Já, það var mikið hollur og góður matur. Ég talaði um það áðan að ég ætti svolítið erfitt með að aðlaga mig ellilífeyrisþegalífinu. Í fyrsta lagi finnst mér alveg fáránlegt að segja að ég sé sjötíu og eins árs. Ég finn mig alls ekki svo gamlan. Ég er enginn afkastamaður en nokkuð seigur við það sem ég tek mér fyrir hendur. Ég hef hestaheilsu, alla vega til þeirra verka sem ég ætla mér. Ég er afar þakklátur fyrir þessa heilsu, tala lítið um krankleika, lyf, læknisheimsóknir og sjúkrahúsvistir. Reyndar get ég sagt að ég er ekki bara þakklátur, ég er líka pínulítið stoltur af heilsu minni.
 
Þegar ég settist við tölvuna fyrir rúmum klukkutíma fann ég fyrir því að mig langaði til að skrifa fallega. Einfaldlega að skrifa fallega. Nú hef ég skrifað um allt og ekki neitt og þetta fallega er ekki komið. Þannig fór um þann drauminn. Ég ætla nú að birta þennan samtíning minn og svo ætla ég í gönguferð út í Sólvallaskóginn. Ég ætla að athuga hvort eitthvað virkilega fallegt grípur huga minn þar. Ég ætla að vera heima um helgina þó að Svíar telji það nánast skyldu að fara á mannamót og taka þátt í hátíðahöldum. Ég læt ekki mikið á mér bera í dag því að ég vil ekki hitta fólk sem spyr mig hvað ég ætli að gera um helgina. Það gæti farið að bjóða mér heim. En ég vil velja þetta sjálfur; að vera heima og geta látið hugann reika. Ég vil alla vega ekki deila helginni með hverjum sem er. Vissulega finnst fólk sem ég mundi svo gjarnan vilja vera með. Ég vil velja leiðina til íhugunar um þessa helgi og þá get ég ekki kastað mér út í hvað sem er.


Kommentarer
Auja

Blessaður Guðjón minn, við skógarálfarnir ætlum að raska ró þinni og kíkja einhverntímann um helgina, erum að fara í golf og grill á morgun svo það verður sennilega laugardagurinn, spyrjum ekki einu sinni um leyfi!.

Svar: Álfar eru mér kærkomnir!
Gudjon

2013-06-20 @ 20:54:12
Ármann frændi

Frændi. Þú ert heimspekiningur.

Svar: Gerðu mig ekki montinn frændi.
Gudjon

2013-06-20 @ 22:26:44
Björkin.

Gangi þér vel með baksturinn mágur minn. Var að reyna að hringja í dag en þú hefur verið að puða úti og versla. En mikið þökkum við ykkur fyrir sendinguna sem við fengum í dag.Erum að fara í viku sumarbústaðarferð í fyrramálið,með Kristni og fjölsk.Líði þér sem best. Stórt krammmmmmmmmm.

2013-06-20 @ 23:27:45


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0